[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimir Björgvinsson er nú staddur hér á landi að opna myndlistarsýningu, en hann er einnig í þann mund að senda frá sér skífu með nýrri hljómsveit.

Ein helsta hljómsveit Íslands síðustu ár er Stilluppsteypa, sem hefur þó aðallega starfað erlendis, enda hafa liðsmenn hennar stundað nám ytra. Það vakti eðlilega talsverða athygli fyrir skemmstu þegar Heimir Björgúlfsson, einn stofnenda Stilluppsteypu, sagði skilið við sveitina til að snúa sér að öðru, en hann er nú í mastersnámi í myndlist í Hollandi. Þrátt fyrir námið er Heimir þó ekkert að slá af í afköstum því hann opnaði sýningu á listaverkum eftir sig í Galleríi Hlemmi í gær, 1. júní, væntanlegur er diskur með nýrri hljómsveit hans, sem er þó ekki hljómsveit, skammt er síðan hann sendi frá sér tólftommu, væntanleg er samstarfsplata og hann er á kafi í upptökum á nýrri sólóskífu.

Heimir er staddur hér á landi í stuttri heimsókn, rúma viku, til að setja upp sýningu á verkum sínum í Galleríi Hlemmi. Þar sýnir hann eitt stórt verk sem hann kallar: Allt sem glitrar er ekki illt. Einnig er hann með vídeóverk, teikningar og fleiri skúlptúra. Heimir segir að myndlistin hafi einmitt haft sitt að segja með að hann hætti í Stilluppsteypu, enda sé hún æ stærri þáttur í lífi hans, tónlistin hefur þurft að láta undan síga. "Ég vildi leggja meiri áherslu á myndlistina og það er ekki tími til að gera allt sem ég vil gera, ég þurfti einfaldlega að gera upp á milli." Heimir segir þó að hann muni aldrei leggja tónlistina á hilluna, þetta sé bara spurning um hvað hann sé að fást við hverju sinni.

Kænska og fríkuð lög

Þótt tónlistin hafi þokast í annað sætið í forgangsröðinni hjá Heimi um þessar mundir er hann fráleitt hættur að fást við tónlist og á næstu dögum kemur út ytra fyrsta plata The Vacuum Boys, sem Heimir skipar með þeim Guy Amitai, Gert-Jan Prins og Dan Armstrong, en FIRE gefur plötuna út og Staalplaat dreifir. Platan heitir því skemmtilega nafni The Vacuum Boys Play Songs from the Sea of Love, en á henni sigla þeir félagar um haf ástar og hættu, ljóstra upp leyndarmáli spænsku galeiðunnar, finna skelkaðan páfagauk og bjarga deginum með kænsku og fríkuðum lögum, eða svo er því að minnsta kosti lýst á kynningarblaði sem espar óneitanlega mjög hjá mönnum löngum til að heyra skífuna.

Heimir segir hálf afsakandi að The Vacuum Boys sé rokkhljómsveit, enda er hann þekktur fyrir flest annað en rokk, í það minnsta síðan Stilluppsteypa lagði rokkið á hilluna snemma ferilsins. Heimir segist titlaður gítarleikari og söngvari á plötunni, en félagar hans í hljómsveitinni eru úr ýmsum áttum. Guy Amitai er frá Ísrael, honum kynntist Heimir í den Haag, en hann er góður vinur þeirra Stilluppsteypufélaga til margra ára, að því Heimir segir. Dan Armstrong segist Heimir hafa kynnst í gengum Staalplaat; "hann tók við mig viðtal og við urðum góðir vinir í framhaldi af því". Gert-Jan Prins segist Heimir síðan hafa þekkt svo lengi að hann muni ekki lengur hvernig þeir kynntust.

Ekki eiginleg hljómsveit

The Vacuum Boys er ekki eiginleg hljómsveit að því Heimir segir, frekar að menn hittast og skemmta sér og taka síðan það upp sem hljómar vel. "Við erum með ákveðna hugmynd um hvernig hljómsveitin eigi að vera svo þetta er ekki alveg stefnulaust. Reyndar var engin slík hugmynd til þegar við tókum upp þessa plötu, en eftir á varð til ævintýri um það sem gerist á plötunni eins og lýst er á dreifimiðanum til að kynna hana. Næsta plata er breakdansplatan okkar, heitir Space Breakdance Challenge, og á henni biður forseti jarðarinnar okkur um að berjast við geimverur í breakdansi.

Það er gaman að fást við annarskonar tónlist en ég hef verið í undanfarið," segir Heimir, en hann er ekki bara að fást við rokk, á næstunni sendir hann fá sér skífu sem hann vinnur með sænskum tónlistarmanni, Jonas Olsson, sem hann segir að sé í diskóanda. Platan kallast Unspoken Word Tour, tekin upp í hljóðveri í Nijmegen í ágúst og september á síðasta ári og Staalplaat gefur hana út, en að sögn Heimis átti hún að vera komin út fyrir allöngu.

Það er meira í gangi hjá Heimi, því ekki er langt síðan út kom í Þýskalandi plata sem hann gerði með Ólafi Elíassyni myndlistarmanni. Platan kom út á vegum þýsku útgáfunnar Bottrop-Boy á undirmerki hennar, EN/OF, sem er helgað því að flétta saman tilraunakenndri raftónlist og myndlist. Þannig varð plata þeirra Heimis og Ólafs, að helmingur umslagsins var mynd eftir Ólaf, silkiþrykk með hitanæmu bleki, og þannig sást myndin ekki nema menn legðu lófa á myndina og hituðu þannig blekið um stund. Í hinum helmingnum var tólftomma með tónlist eftir Heimi byggð á vatnshljóðum.

Sýningar í Hollandi

Heimir hefur því alltaf nóg að gera að vanda, ekki síst eftir að hann sneri sér að myndlistinni af meiri krafti og þannig er hann ekki bara að sýna hér á landi, því sl. þriðjudag var opnuð sýning hans í Hollandi, sem hann hafði ekki tíma til að vera við opnun á, og rétt um það leyti sem hann snýr heim til Hollands opnar hann enn eina sýninguna.

"Ég vinn myndlist og tónlist frá sama grunninum og það er ákveðin glíma hjá mér að samtvinna þetta tvennt sem best," segir Heimir. "Stundum er niðurstaðan eins og þetta sé tvennt aðskilið, þ.e. myndlist sem ég geri og tónlist sem ég sem, en það er ekki svo í hausnum á mér, fyrir mér er þetta nátengt og samtvinnað. Ég vil gjarna að mörkin þar á milli hverfi og það er í sjálfu sér spennandi vandamál að fást við, það væri verra ef ég gengi um göturnar og hristi hausinn af því ég fengi engar hugmyndir."

Aldrei aftur Stilluppsteypa

Þótt Heimir sé hættur með Stilluppsteypu á enn eftir að koma út sitthvað sem hann tók upp með hljómsveitinni. Væntanleg er sjötomma þar sem hann er með, DVD safndiskur sem sveitin tók upp er enn óútkominn og síðan eru þeir sem eftir eru í sveitinni, Helgi Þórsson og Sigtryggur Berg Sigmarsson, að vinna nýja plötu og Heimir er með í megninu af þeim upptökum. Heimir leggur áherslu á að þótt hann hafi orðið leiður á Stilluppsteypu sé hann langt í frá orðinn leiður á fyrrum félögum sínum í sveitinni, þeir séu enn allir góðir vinir og eigi eflaust eftir að vinna einhverja tónlist saman síðar. "Það verður þó ekki sem Stilluppsteypa, aldrei sem Stilluppsteypa aftur, það er búið. Mér fannst þetta ágætt, ég var búinn að vera í sveitinni í tíu ár og það var kominn tími til að fara að gera eitthvað annað. Hvað samstarf varðar við þá Helga og Sigtrygg erum við Helgi til dæmis að fara að spila með ástralska tónlistarmanninum Pimmon í október."

Heimir er að vinna að nýrri sólóskífu og fær ýmsa til liðs við sig, en hann segir að hún verði talsvert frábrugðin því sem hann hefur áður gert, mun meira um ákveðinn takt á henni og fjöldi gesta, meðal annars hollenskur plötusnúður. "Hún hefur verið að þróast í nokkurn tíma og ég hef gefið mér ágætan tíma til að vinna hana og ekki sett mér nein tímamörk, en ég reikna þó með að ég komi henni frá mér í haust."