[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndasaga vikunnar er bókin Harum Scarum eftir Lewis Trondheim. Fantagraphics Books gefur út 1997. Bókin fæst í myndasöguversluninni Nexus.

ÞAÐ er hverjum manni ljóst sem flettir myndasögunni Harum Scarum eftir Lewis Trondheim að bókin á rætur sínar að rekja til evrópsku myndasöguhefðarinnar. Í fyrsta lagi er það stærðin (sem skiptir máli). Bókin er í sama broti og bækurnar um Ástrík, Sval og Val, Tinna, Lukku Láka, Viggó Viðutan og aðrar þær frönskumælandi hetjur sem gefnar voru út í íslenskri þýðingu á áttunda og níunda áratugnum. Þann tíma mætti reyndar kalla gullöld ,,íslenskra" myndasagna því þá var gefinn út heill hellingur af þýddum merkisritum í þessum geira. Sumum þeirra var jafnvel gert það hátt undir höfði að hljóta harða kápu í takt við þá íslensku hefð að bækur skuli vera sem endingarbestar. Stærðin gerir myndmálið skýrara og einhvern veginn meira (segir sig nú eiginlega sjálft) en í því A4 broti sem maður á að venjast í enskumælandi myndasögum.

Í öðru lagi hefur teiknistíllinn mjög óengilsaxneska áferð. Trondheim leikur sér með mjög einfaldaðar persónur sem allar bera einkenni dýra. Pennastrikin eru oft og tíðum óregluleg og titrandi sem gefur lesandanum það á tilfinninguna að teiknarinn hafi bara rissað myndirnar upp og látið síðan gott heita. Reglustika kemur hvergi nærri teikniborðinu. Þessi tækni er að sjálfsögðu hugsuð í þaula og Trondheim byggir teikningarnar á eldgamalli hefð þar sem einn af göldrunum felst einmitt í þessu nákvæmnisleysi. Þessi stefna gefur teikningunum lífrænna yfirbragð en sú dauðhreinsunar- og fínstillingarárátta sem oft er að finna í bandarískum og breskum myndasögum. Maður getur lengi dundað sér við að fletta bókinni og dást að þeirri færni sem Trondheim sýnir með þesum vanmetna teiknistíl.

Í þriðja lagi er söguefnið alveg einstaklega afslappað. Harum Scarum er afþreying og sýnir enga tilburði í aðrar og dýpri áttir. Engum lífsgátum er svarað, tilvistarpælingar eru sendar í sumarfrí og gagnrýni á ríkjandi öfl eða ábendingar um betra heimsskipulag eru lokaðar inni á stofnun fyrir fýlupoka. Sagan er að stofninum til leynilöggusaga með skrímslaívafi þar sem aðalsöguhetjan, kanínan McConey, flækist inn í dularfullt mál. Meginuppistaðan er þó grín og glens á kostnað þess konar sagna og það er engin hætta á því að menn fái martraðir eða kaldan svita af spenningi eftir lesturinn. Fimmaurabrandararnir ráða hér ríkjum og þegar lestri er lokið situr eftir dágóð summa af brosum og léttleika. Trondheim veit sem er að þeir sem bókin var upprunulega stíluð á (franskir lesendur) njóta myndasagna á svolítið annan hátt en bræður þeirra og systur vestanhafs og hinum megin við sundið. Myndasagan fær að njóta sín á kostnað uppskrúfaðs innihalds eða æðisgenginna ofurhetjudáða. Hefðin er fyrir græskulausu gamni og sést það best á þeim snaggaralegu myndasögum sem nefndar voru hér í upphafi greinarinnar.

Heimir Snorrason