Það getur verið gaman að geta sýnt sig fyrir hinum krökkunum með því að kunna að "djöggla" einsog sagt er á slæmri íslensku.

Það getur verið gaman að geta sýnt sig fyrir hinum krökkunum með því að kunna að "djöggla" einsog sagt er á slæmri íslensku. En einsog myndin sýnir er það að halda á lofti þremur boltum í einu, einsog trúðar og fleira skemmtilegt fjölleikahúsfólk gerir.

Til að byrja að halda boltum á lofti kastar þú einum bolta á milli hægri og vinstri handar. Þetta er erfiðasti hlutinn því þú verður að læra vel hvar hendurnar eiga að vera staðsettar. Reyndu að kasta boltunum á sama stað í hvert skipti.

Það er auðvelt að halda tveimur boltum á lofti. Um leið og þú ert komin/n upp á lagið með að kasta einum bolta, þá kastarðu bolta númer 2 upp í loftið þegar bolti númer 1 er hæst í loftinu, (áður en hann fer af stað niður). Ekki hafa áhyggjur þótt þetta misheppnist stundum.

Svo þegar þú ert orðin góð/ur í að halda tveimur boltum á lofti, bætirðu þriðja boltanum við. Kastaðu bolta númer 3 upp í loftið þegar bolti númer 2 er hæst í loftinu. Á þessu sama tíma ætti bolti númer 1 að vera koma í höndina þína. Ekki hafa áhyggjur af að grípa þann bolta strax. Best er að læra fyrst að kasta öllum boltunum á réttum tíma. Þegar þú ert búin/n að æfa það vel, byrjarðu á að reyna að grípa fyrstu tvo boltana.

Þegar þú hefur þá kúnst á þínu valdi að kasta þremur boltum og grípa tvo, reyndu þá að kasta bolta númer 1 aftur upp þegar bolti númer 3 er hæst í loftinu.

Svo er bara að æfa sig og æfa sig og æfa sig meira. Góða skemmtun!