Eydís Franzdóttir óbóleikari lék þrjú íslensk verk, Via di gelata eftir Ríkharð H. Friðriksson, Ortus eftir Atla Heimi Sveinsson og ásjónur kvöldsins eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Þetta var Íslandsfrumflutningur allra verkanna. Fimmtudag kl. 12.30.

HÁDEGISTÓNLEIKAR Listahátíðar í Hafnarhúsinu hafa gengið vel, og aðsókn góð. Sú var einnig raunin á fimmtudag, þegar Eydís Franzdóttir lék þrjú einleiksverk, Via di gelata eftir Ríkharð H. Friðriksson, Ortus eftir Atla Heimi Sveinsson og ásjónur kvöldsins eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Aðeins verk Atla hefur heyrst áður, þá á erlendri grund, þannig að öll voru verkin að heyrast í fyrsta sinn hér á landi. Það er því talsverð þrekraun hjá Eydísi að bjóða upp á slíkt á einum litlum hádegistónleikum. Verkin þrjú voru ákaflega ólík. Ríkharður samdi sitt verk í Siena á Ítalíu árið 1990. Það er kannski best hægt að lýsa verkinu sem léttri glettu. Þriggja tóna skali lítillar þríundar ólmast við að brjótast úr eigin viðjum og tekst um stundarsakir með útúrdúrum í ýmsar áttir. Skemmtilegt verk þótt það léti lítið yfir sér.

Verk Atla Heimis var burðarás tónleikanna, Ortus, eða fæðing, samið 1991 fyrir sænska óbóleikarann Helenu Jahren. Atli skipar verkinu í flokk með hugleiðsluverkum sínum; þar er þekktast sellóeinleiksverkið Úr ríki þagnarinnar.

Verk Atla reyndist kynngimagnað, þar sem hver taug tilfinngaskalans var þanin í stórbrotinni "fæðingu" tónlistarinnar. Niðurlag verksins var sérstaklega áhrifamikið, þar sem tónlistin smám saman fjaraði út og hljóðfæraleikarinn hvarf sjónum tónleikagesta. Hvenær er verkið búið? Hvenær er fæðingu mannsins lokið, áður en hann hverfur inn í mannmergð hins svokallaða veruleika? Þetta var sterkt og áhrifamikið verk.

Ásjónur kvöldsins var lokaverk tónleikanna, eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, samið undir áhrifum frá samnefndu ljóði eftir Óskar Árna Óskarsson. Sex þættir verksins eru tónbirtingar sumra þeirra mynda sem Óskar Árni dregur upp í ljóðinu. Ólíkt glettu Ríkharðar og innhverfu drama Atla Heimis var verk Elínar ljóðrænt og jafnvel myndrænt. Tónrænn tröppugangur í kaflanum um Bláu kjallaratröppurnar, og tvíhljómandi óbó í Hljómi munnhörpunnar. Í lokaþættinum, Í myrku laufi og í dauflýstum rúðum, tókust á tvö stef, - það dauflýsta falleg útfærsla á stefbroti úr þjóðlaginu Ljósið kemur langt og mjótt. Fínt verk hjá Elínu.

Eydís Franzdóttir var í miklum ham á hádegistónleikunum á fimmtudag. Hvert verk var fallega mótað af næmri tilfinningu hennar fyrir stíl og karakter. Leikur hennar í verki Atla Heimis var ekkert minna en stórfenglegur í þeim gríðarlegu hamförum sem þar voru. Þetta voru góðir tónleikar og hálftíma matarhléi vel varið í upplifun sem þessa.

Bergþóra Jónsdóttir