ÍSRAELAR hafa verið með viðamiklar aðgerðir á Vesturbakkanum síðustu daga, ráðist inn í borgir og bæi, einangrað ákveðin landsvæði og handtekið fjölda manna. Er aðgerðunum líkt við skipulegar lögregluaðgerðir með það að markmiði að lama allt daglegt líf.

ÍSRAELAR hafa verið með viðamiklar aðgerðir á Vesturbakkanum síðustu daga, ráðist inn í borgir og bæi, einangrað ákveðin landsvæði og handtekið fjölda manna. Er aðgerðunum líkt við skipulegar lögregluaðgerðir með það að markmiði að lama allt daglegt líf.

Ísraelskt herlið hefur verið sent aftur inn í Nablus og Betlehem og þar og í Tammun hafa margir verið handteknir. Ísraelar segjast aðeins vera að halda uppi "reglubundnu eftirliti" en Palestínumenn segja, að tilgangurinn sé að eyðileggja alla stjórnsýslu á heimastjórnarsvæðunum.

"Þessi aðferð er runnin undan rifjum Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, og henni er ekki aðeins ætlað að eyðileggja heimastjórnina, heldur stjórnsýsluna á öllum stigum," sagði Mustafa Barghuti, kunnur baráttumaður fyrir réttindum Palestínumanna. Barghuti benti á, að Ísraelum hefði tekist að beita umheiminn blekkingum, þóst hafa dregið herinn frá borgum og bæjum að lokinni sex vikna herför en aldrei flutt hann lengra en út fyrir borgarmörkin. Þaðan væri síðan sótt inn í borgirnar á ný.

Líkt við aðskilnaðar- stefnuna í Suður-Afríku

Amos Gilad, yfirmaður ísraelska hersins á Vesturbakkanum, kynnti fyrir skömmu áætlun um að skipta honum upp í átta svæði í kringum borgirnar Jenin, Nablus, Tulkarem, Qalqilya, Ramallah, Jeríkó, Betlehem og Hebron. Til að fara á milli svæðanna í sínu eigin landi verða Palestínumenn að fá vegabréf frá Ísraelum, sem gildir í mánuð, og mega aðeins vera á ferðinni frá klukkan fimm á morgnana til sjö á kvöldin.

Palestínumenn segja, að þetta sé enn eitt dæmið um aðskilnaðarstefnu Ísraela og nákvæm eftirmynd af framkomu hvítra manna við blökkumenn í Suður-Afríku á sínum tíma.

Jean Breteche, sendimaður Evrópusambandsins á Vesturbakkanum og Gaza, sagði í fyrradag, að áætlun Ísraela, sem væri raunar þegar komin til framkvæmda að sumu leyti, myndi lama allt daglegt líf meðal Palestínumanna. Sagði hann, að sérstakt leyfi þyrfti fyrir hvert einstakt svæði og benti á, að bílstjórar hjálparsamtaka þyrftu 25 leyfi frá Ísraelum en hefðu aðeins fengið 20.

Jerúsalem. AP, AFP.