YFIRLEITT eru það ekki góð vísindi að leggja niður óstuddan ás í útspili gegn geimsamningi, því "ásar eru til að drepa kónga, en ekki til að veiða tvista og þrista". En allt á sinn tíma. Sigurbjörn Haraldsson var vakandi fyrir rétta tímanum til að spila út ás frá Áxx. Spilið kom upp á landsliðsæfingu um síðustu helgi:
Vestur gefur; NS á hættu.
Norður | |
♠KG1043 | |
♥75 | |
♦107 | |
♣ÁK32 |
Vestur | Austur |
♠Á75 | ♠862 |
♥KG4 | ♥10 |
♦862 | ♦Á943 |
♣G1084 | ♣D9765 |
Suður | |
♠D9 | |
♥ÁD98632 | |
♦KDG5 | |
♣-- |
Feðgarnir Karl Sigurhjartarson og Snorri Karlsson voru í NS, Sigurbjörn í vestur og bróðir hans Anton í austur. Brids er fjölskylduspil. Sagnir gengu:
Vestur | Norður | Austur | Suður |
Sigurbjörn | Snorri | Anton | Karl |
1 grand * | Pass | Pass | 4 hjörtu |
Pass | Pass | Pass |
* 9-12 punktar.
Bræðurnir spila svokallað "minigrand" á þessum hættum (utan hættu gegn á), en Karl lét það ekki trufla sig og stökk beint í fjögur hjörtu.
Útspilsbækur mæla með laufgosa frá vesturhendinni. Afleiðingin af því er augljós: Sagnhafi hendir tveimur spöðum niður í ÁK í laufi og vinnur sitt spil.
Sigurbjörn kom hins vegar út með spaðaásinn. Útspilið er mjög rökrétt í samhenginu. Vestur horfir á þrjá slagi og þarf aðeins einn frá makker. Hann veit að sagnhafi er með mikla skiptingu og vafalítið einspil eða eyðu í einhverjum lit. Því er þýðingarmikið að taka strax sitt og nota janframt frumkvæðið sem vörnin hefur með útspilinu til hins ýtrasta.
Anton vísaði spaðanum frá og Sigurbjörn spilaði tígli í öðrum slag: Einn niður áður en sagnhafi komst að.