Rannveig Ingibjörg Wormsdóttir fæddist í Syðri-Tungu í Staðarsveit á Snæfellsnesi 6. október 1913. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 23. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Worm Frímann Lárusson bóndi, f. á Sigríðarstöðum í Fljótum í Skagafirði 27. des. 1884, d. 21. des. 1924, og Elínborg Sigurðardóttir húsfreyja, f. á Stakkhamri í Miklaholtshreppi 6. júlí 1889, d. 20. maí 1988. Systkini Rannveigar eru Guðrún Sigríður, f. 28. mars 1915, Lárus Beck, f. 1. maí 1920, Þuríður, f. 4. okt. 1925, og Trausti, f. 8. ágúst 1930.

Fyrri maður Rannveigar var Hjörtur Andrésson, sjómaður í Hafnarfirði, f. á Hellu í Breiðuvíkurhreppi á Snæfellsnesi 11. júní 1908, hann drukknaði á línuveiðaranum Erninum árið 1936. Foreldrar hans voru Andrés Andrésson bóndi, f. 24. jan. 1862, d. 19. mars 1950, og Guðrún Helgadóttir, f. 21. sept. 1869, d. 16. apríl 1926. Börn þeirra Rannveigar og Hjartar voru Sigurður Worm, f. 15. ágúst 1933, d. 23. júlí 1947, og Bergur Snæfells, húsasmíðameistari í Hafnarfirði, f. 4. okt. 1935, d. 21. jan. 1996, maki Aðalbjörg Garðarsdóttir, f. 9. júlí 1943, þau skildu. Dætur þeirra eru: 1) Hrafnhildur, matráðskona í Kópavogi, f. 9. okt. 1961, maki Þröstur Júlíusson bifreiðasmiður, f. 9. mars 1960. Börn þeirra: Bergur, f. 11. mars 1981, Katrín, f. 13. sept. 1983, og Ágúst, f. 10. júlí 1990.

2) Sveinbjörg, hárskeri og bankastarfsmaður, f. 17. júní 1963, maki Egill Strange húsasmiður, f. 6. mars 1959. Börn þeirra: Sæunn Hrund Strange, f. 27. okt. 1985, og Atli Þór Strange, f. 28. apríl 1989. 3) Halldóra, húsmóðir í Borgarnesi, f. 24. ágúst 1969, maki Hafsteinn Sævarsson framreiðslumaður, f. 13. janúar 1972. Börn þeirra: Ester Ósk, f. 20. ágúst 1992, Sævar Örn, f. 2. sept. 1994, og Helgi Þór, f. 14. júní 1998.

Seinni maður Rannveigar var Halldór Jóhannesson leigubifreiðastjóri, f. í Teigi í Hvammshreppi í Dalasýslu 5. des 1912, d. í Reykjavík 10. nóv. 1977. Foreldrar Halldórs voru Jóhannes Guðmundsson, f. 3. júní 1874, d. 1. des. 1940 og Helga Guðríður Sigmundsdóttir, f. 17. nóv. 1875, d. 12. júlí 1927. Börn þeirra Rannveigar og Halldórs eru: 1) Hjörtur Hafsteinn, byggingameistari í Reykjavík, f. 20. júlí 1940, maki Alda Sigurjónsdóttir, f. 29. apríl 1944, d. 4. apríl 2002. Dóttir þeirra og stjúpsynir Hjartar eru: María Worms Hjartar, starfsmaður í Perlunni, f. 11. apríl 1982; Sveinn Sigurður Gunnarsson tölvufræðingur, f. 11. ágúst 1962, maki Hrafnhildur Lilja Steinarsdóttir, f. 24. feb. 1964. Þau skildu. Dóttir þeirra er Alda Björg, f. 22. maí 1983; og Haukur Haraldsson, smiður og bátsmaður, f. 27. feb. 1966, maki Ragnheiður Gísladóttir húsmóðir, f. 7. júní 1968. Börn þeirra eru Unnur Dís, f. 8. júlí 1991, og Hjörtur Hafsteinn, f. 1. janúar 1993. 2) Björk Unnur húsfreyja í Hafnarfirði, f. 7. júlí 1941, d. 12. feb. 1965, maki Kjartan Andrésson, f. 2. apríl 1934. 3) Elínborg Worms, sjúkraliði í Hafnarfirði, f. 5. ágúst 1956, maki Guðmundur Ásgeir Eiríksson kerfisstjóri, f. 6. ágúst 1957. Synir þeirra eru Halldór, f. 7. apríl 1978, og Ásgeir Þór, f. 3. des. 1979.

Rannveig hóf búskap sinn í Hafnarfirði en fluttist síðar til Reykjavíkur, hún starfaði aðallega sem verka- og saumakona. Hún dvaldi síðustu æviárin á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Rannveigar verður gerð frá Víðistaðakirkju á morgun, mánudaginn 3. júní, og hefst athöfnin klukkan 15. Jarðsett verður í kirkjugarðinum í Hafnarfirði.

Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. Sveinbjörn Egilsson.) Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Elsku tengdamamma, nú er jarðvist þinni lokið og nú ertu komin til austursins eilífa, í faðm fjölskyldu þinnar sem bíður þín þar á æðra tilverustigi. Þó að við séum búin að þekkjast lengi er það stuttur tími á þinni löngu ævi en ríflega helmingur af minni og er ég þakklátur fyrir þessi kynni.

Ég vil skrifa nokkur orð til konu sem tók mér eins og syni, með öllum þeim göllum og kostum sem slíkir gripir hafa að geyma.

Þegar ég kom í fjölskylduna um 1976 tóku Rannveig og Halldór mér opnum örmum, ég sá þó að ég þurfti að ávinna mér traust og að það væri ekki sjálfgefið að ég fengi að eiga hlutdeild í lífi dótturinnar sem var þeim hjónum svo kær. Þetta gekk nú alveg ágætlega en ég fékk samt að vita hjá henni tengdamömmu að það þýddi nú ekkert að vera með neitt vesen, annað hvort var það alvaran eða ekkert.

Rannveig var sterk kona og staðföst og fékk að reyna margt á lífsleiðinni. Hún missti fyrri mann sinn ung og síðar tvö börn, og svo seinni mann sinn fyrir ríflega tuttugu árum, en ávallt stóð hún keik og lét ekki bugast þó sorgin væri mikil.

Þetta finnst mér lýsa tengdamóður minni best, hún stóð föst á sínu og gerði það sem gera þurfti til þess að allt gæti farið á sem bestan veg fyrir fjölskylduna og hennar nánustu.

Öll okkar viðkynni urðu alveg með eindæmum góð, hún lét mig þó alveg heyra ef hún var ekki ánægð með tengdasoninn og leiðbeindi mér sem syni sínum og var það vel. Við vorum svo sem ekki alltaf sammála og þrösuðum stundum, en það var alltaf á léttu nótunum.

Ég læt þessi fátæklegu orð til þín nægja og kveð hana með söknuði og þakklæti, og geymi allar góðar minningar um hana í hjarta mínu. Hvíl í Guðs friði.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson.)

Guðmundur.

Það er erfitt að hugsa til þess að hún amma skuli vera farin á vit hins óþekkta, að hvíldin skuli vera komin.

Aldrei á ævinni höfum við kynnst annari eins kjarnakonu eins og henni ömmu okkar, hún var bæði ósérhlífin, dugleg og með eindæmum sterk og hraust. Ansi oft var búið að hringja í hennar nánustu á síðustu árum, þar sem talið var að nú væri kveðjustundin runnin upp, en krankleikana hristi hún af sér og var komin á ról áður en nokkur vissi af. Alltaf var hún tilbúin að rétta öðrum aðstoð eða hjálparhönd en ekki vildi hún að fólk væri með neina fyrirhöfn í kringum sig. Vegna þessa var ennþá yndislegra að sjá hvað hún var glöð og hvað hún ljómaði þegar haldið var upp á stórafmælin hennar á síðustu árum.

Orðheppin var hún amma okkar með eindæmum og eru tilsvör hennar og athugasemdir efni í heila bók. Ekki var það svo að hún væri eitthvað að reyna að reita af sér brandara heldur var hún oft bara að koma með athugasemdir sem hittu svo vel í mark að samferðafólk hennar vitnar oft í þessi tilsvör.

Lífið fór ekki alltaf silkihönskum um hana ömmu okkar en þrátt fyrir að hafa misst tvo eiginmenn og þrjú börn af fimm gat hún séð björtu hliðarnar á lífinu og tilverunni en auðvitað setti það mark sitt á hana og persónuleika hennar.

Söngur og ljóðlist hvers konar gaf henni mikið og ósjaldan heyrði maður í henni þar sem hún var að flytja vísur, stökur, ljóð, rímur og kvæði af ýmsu tagi. Þrátt fyrir að minnið væri farið að gefa sig síðustu árin þá gat hún þulið upp hvert erindið á fætur öðru, því þetta mundi hún allt saman. Ekki má það gleymast hversu mikill hagyrðingur hún var, því hún var sérstaklega hagmælt og liggja eftir hana ótal margar vísur og stökur.

Amma bjó á Hrafnistu síðustu árin og viljum við með fátæklegum orðum þakka því yndislega starfsfólki sem hugsaði svo vel um ömmu okkar þessi ár. Það er okkar mat að vellíðan hennar hafi að miklu leyti verið fólgin í því hversu vel var um hana hugsað.

Elsku amma, þrátt fyrir að kveðjustundin sé alltaf erfið þá getum við ekki annað en glaðst í hjarta okkar yfir því að þú skulir loksins hafa fengið hvíldina. Minningarnar eigum við um yndislega ömmu sem gaf okkur svo mikið af sér, gaf sér tíma til að tala við okkur, syngja með okkur og fræða okkur um allt milli himins og jarðar.

Núna getur þú sungið eins og engill allar vísurnar og stökurnar sem þú söngst svo oft fyrir okkur.

Með bænunum sem þú söngst fyrir okkur þegar við fengum að sofa hjá þér kveðjum við þig, elsku amma okkar.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. Sveinbjörn Egilsson.)

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Hrafnhildur, Sveinbjörg

og Halldóra Bergsdætur.

Ég fel í forsjá þína, Guð faðir, sálu mína, því nú er komin nótt. Um ljósið lát mig dreyma og ljúfa engla geyma öll börnin þín, svo blundi rótt. (Matthías Jochumsson.) Guðmundur.