Guðmundur Þorgrímsson fæddist á Selnesi á Breiðdalsvík 21. september 1917. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu á Hornafirði 27. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Oddný Þórunn Erlendsdóttir húsfreyja, f. 16.12. 1897, d. 29.3. 1987, og Þorgrímur Guðmundsson trésmiður, f. 1.8. 1883, d. 11.1. 1956. Þau Oddný og Þorgrímur bjuggu á Selnesi á Breiðdalsvík. Eignuðust þau 14 börn og var Guðmundur annar í röðinni, elst var Guðrún Helga, f. 14.9. 1916, d. 22.12. 1916, Helgi, f. 21.11. 1918, d. 17.10. 1983, Sigríður, f. 15.12. 1919, d. 14.2. 1921, Sigfús, f. 8.12. 1921, Erlingur, f. 5.2. 1923, d. 9.2. 1946, Valborg, f. 29.5. 1925, Eiríkur Kristján, f. 20.6. 1926, Sverrir, f. 9.5. 1928, d. 25.5. 1988, Þórður, f. 16.3. 1930, Kristín Guðríður, f. 9.5. 1931, d. 5.11. 1946, Garðar, f. 9.10. 1932, Geirlaug, f. 6.2. 1937, og Þröstur, f. 8.8. 1939.
Hinn 26. maí 1947 giftist Guðmundur Jóhönnu Lúvísu Þorsteinsdóttur frá Sléttaleiti í Suðursveit, f. 13. janúar 1920. Börn þeirra eru: 1) Óskar Unnsteinn, f. 17.2. 1944, giftur Laufey Óskarsdóttur og eiga þau fjögur börn og átta barnabörn. 2) Erlingur Kristinn, f. 4.10 1946, kvæntur Kristínu Auði Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn. 3) Þorgrímur, f. 10.2. 1948, hann var kvæntur Guðnýju Kristjánsdóttur og eiga þau tvö börn. Þorgrímur er í sambúð með Auði Sigurðardóttur og á hún fjögur börn. 4) Sædís, f. 24.2. 1950, gift Andrési Á.Þ. Guðmundssyni og eiga þau þrjá syni og eitt barnabarn. 5) Reynir, f. 13.7. 1951, kvæntur Sigríði Lárusdóttur og eiga þau sex börn og fjögur barnabörn.
Guðmundur ólst upp í foreldrahúsum, hann stundaði sjóinn ásamt ýmsum störfum í landi og vann þar lengst af hjá Vegagerðinni. Árið 1944 fluttist hann til Hornafjarðar og hóf búskap með eftirlifandi eiginkonu sinni. Fyrst bjuggu þau á Vegamótum, síðan byggðu þau tvíbýlishús ásamt Rósu systur hennar og Hafsteini Jónssyni við Höfðaveg á Hornafirði og þar bjuggu þau í rúm 40 ár eða þar til þau fluttust að Víkurbraut 30 í ágúst 2002. Guðmundur hefur dvalist á Hjúkrunarheimilinu á Hornafirði síðan 10. janúar 2002.
Útför Guðmundar fer fram frá Hafnarkirkju á Hornafirði á morgun, mánudaginn 3. júní, og hefst athöfnin klukkan 13.30.
Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.)
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Elsku Mummi, nú er komið að kveðjustund, ég vil með fáum orðum þakka þér fyrir það hve vel mér og dætrum mínum var tekið er við komum í fjölskylduna. Það var 1987 að ég flutti með dætur mínar þrjár til Hornafjarðar. Þar kynntist ég syni ykkar og við hófum búskap það sama ár. Við urðum strax hluti af Vegamótafjölskyldunni. Minningarnar eru margar, ég man eftir því þegar þú bauðst mér fyrst upp í dans. Þú varst mikill dansmaður en ég kunni ekkert að dansa. Þú sagðir að það væri tími til kominn fyrir mig að læra það og ætlaðir að kenna mér, en, Mummi minn, það tókst ekki. Mikið var gaman að sjá ykkur Hönnu á dansgólfinu, þið voruð frábær saman. Það var alltaf gott að koma til ykkar, stelpurnar mínar eignuðust yndislega ömmu og afa og 1992 fæddist svo Stefán Lárus, yngsta barnabarnið ykkar. Í fyrrasumar þegar þú gafst honum veiðigræjurnar þínar varð hann svo stoltur að vera treyst fyrir þeim og hann sagðist ætla að passa þær vel af því að afi gaf honum þær, og afi fer alltaf svo vel með allt.
Ég þurfti aldrei að sanna mig fyrir þér, þú tókst mér strax opnum örmum, því við vorum jú bæði úr Breiðdalnum og það var stór plús fyrir mig. Þú varst einstakt snyrtimenni, það sést best á öllu því sem þú komst nálægt. Hvergi var kastað til hendinni, allt skyldi vera í röð og reglu.
Minning þín lifir í huga okkar um ókomna tíð. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Elsku Hanna, megi góður Guð vera með þér.
Þín tengdadóttir,
Sigríður Lárusdóttir.
Sumarbústaðarferðirnar upp í Lón eru ógleymanlegar en þar eyddum við mörgum stundum ég, þú og amma. Nú þegar ég fer með fjölskyldunni minni þangað koma ávallt upp minningar frá tímanum sem við áttum þar saman, meira að segja er litla húsið sem ég gerði fyrir einum 20 árum þar enn.
Mér er það minnisstætt þegar ég fór í verkfærakassann þinn og skúffurnar að þar áttu allir hlutir sérstakan stað. Þetta lýsir því vel hve skipulagður þú varst. Svona reglusamir og skipulagðir menn eins og þú eru vandfundnir.
Veturinn '95 fluttum við Anna Björg á móti ykkur á Höfðaveginn. Þaðan mátti sjá þig og ömmu fá ykkur göngutúr reglulega, yfirleitt sama hringinn hönd í hönd og svo gerðir þú æfingarnar þínar á eftir. Samband ykkar hjóna var einstakt.
Áróra Dröfn, langafabarn þitt, fæddist '99, hún var fljót að komast upp á lagið með að fá athygli afa með smáboltaleik. Hún skilur það ekki í dag að afi sé farinn en við munum ábyrgjast það að minning þín mun lifa í huga hennar.
Elsku afi, þín er sárt saknað, takk fyrir allt.
Elsku amma. Við biðjum góðan Guð að styrkja þig og varðveita. Missir þinn er mikill.
Ykkar
Ívar Smári og fjölskylda.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Elsku amma og langamma, megi Guð styrkja þig í sorginni.
Þín
Elsa Lára, Sigrún Ólöf,
Helga Jóna, Stefán Lárus
og fjölskyldur.
Okkur þykir svo vænt um að þú skyldir hafa haldið á Kristófer okkar undir skírn á ættarmóti í Öræfum fyrir fimm árum og við eigum aldrei eftir að gleyma þeim degi.
Þegar við komum til þín á hjúkrunarheimilið skömmu áður en þú kvaddir þennan heim gafstu okkur svo fallegt bros eins lasinn og þú varst, sem við munum ávallt geyma ásamt öllum góðu minningunum sem við eigum um þig og munum við varðveita þær vel.
Elsku afi, við vitum að þú ferð aldrei langt frá okkur. Guð geymi þig.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Elsku amma, guð gefi þér styrk í sorginni og varðveiti þig í náinni framtíð.
Guðrún Ósk og fjölskylda.
Stundir okkar með afa síðustu árin hafa ekki orðið eins margar og við hefðum gjarnan viljað sökum búsetu okkar erlendis en við höfum vissulega notið þeirra þegar þær bar upp á. Okkur er sérstaklega mikilvægt að hafa átt með honum stund viku áður en hann lést, þar sem við gátum spjallað aðeins við hann um daginn og veginn og fylgst með þegar hann gerði fótaæfingarnar sínar, sem við höfðum svo oft áður séð hann gera.
Elsku amma hefur nú misst lífsförunaut sinn og dansfélaga. Við biðjum góðan guð að blessa hana og veita henni styrk á þessum erfiða tímum.
Guð blessi minningu Guðmundar Þorgrímssonar.
Guðmundur Jóhann,
Þórunn Hanna, Halldís Hrund
og Andrea Eir.
Oddný minnist yndislegs tíma þegar þið amma heimsóttuð hana til Austurríkis ásamt mömmu og pabba. Þið ferðuðust um hæstu tinda og dýpstu neðanjarðarvötn og rennduð ykkur á milli hæða í saltnámunni, þú áttræður og lést ekkert stoppa þig. Þetta var yndislegur tími og mun hann lengi lifa í huga hennar.
Í huga okkar minnumst við fallega og bjarta brossins þíns sem tók á móti okkur þegar við hittum á þig.
Elsku amma, það er sárt að missa lífsförunaut sinn og biðjum við því guð að styrkja þig.
Oddný og Friðdóra.
Það er allra mál að einstaklega gott samkomulag hafi verið innan "stórfjölskyldunnar" á Selnesi. Kannski einmitt vegna þess hvernig allt var í pottinn búið þarna. Sumpart var þetta þjóðfélag, út af fyrir sig, með heimatilbúna umgengnishætti. Í þessum jarðvegi ólst Mummi upp og mótaðist. Mér er reyndar nær að halda að öll börnin hafi dregið dám af hvers annars hegðan. Ekki er ólíklegt að þau elstu hafi átt talsverðan hlut í persónumótun þeirra yngri.
Það er margt handtakið, sem hver og einn verður að geta leyst af hendi þar sem sjálfsþurftarbúskapur er stundaður. Segja má að heima í föðurgarði hafi Guðmundur verið bæði í "verkmenntaskóla" og "sjómannaskóla", svo eitthvað sé nefnt. Um tvítugsaldur réðst hann í það stórræði að sækja sér aukna menntun á Laugarvatnsskóla. Á haustdegi í aðdraganda heimsstyrjaldar fór hann hús úr húsi á krummavíkinni Breiðdalsvík og kvaddi alla með handabandi. Líklega hefur hann grunað, að héðan í frá yrði hann lítið meira en gestkomandi heima á Selnesi, sem og rættist. Lífshlaup Guðmundar eftir að hann hleypti heimdraganum var fjölbreytilegt: daglaunavinna, landbúnaðarstörf, sjósókn, vegavinna o.m.fl.
Guðmundur var enginn æringi. Líklega var hann hæglátastur allra systkinanna, dags daglega. En þegar dansmúsík hljómaði héldu honum engin bönd. Þegar hér á Höfn var stofnaður dansklúbburinn Taktur, voru þau Jóhanna og hann stofnfélagar og síðar kjörin fyrstu heiðursfélagar klúbbsins. Og segir það meira en mörg orð.
Síðasta aldarfjórðunginn vorum við hjónin svo næstu nágrannar þeirra Hönnu og Mumma á Vegamótum. Fyrir utan tíðar heimsóknir þvert yfir Hafnarbrautina, gat ég fylgst með vinnubrögðum húsbóndans á Vegamótum þegar hann var að sinna lóðinni eða snurfunsa bílinn. Þar endurspeglaðist snyrtimennskan og vandvirknin, sem hann hlaut í vöggugjöf.
Ég votta hans kæru eiginkonu, Jóhönnu Þorsteinsdóttur, afkomendum öllum, öðru skyldfólki og vinum þeirra hjóna samúð mína.
Heimir Þór Gíslason.
Sigríður Lárusdóttir.