6. júní 2002 | Viðskiptablað | 381 orð | 1 mynd

Íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu ná litlum árangri á Netinu

Tæp 70% aðspurðra eru mjög ánægð eða frekar ánægð með þann árangur sem þau hafa náð á Netinu

Bjarnheiður Hallsdóttir og Sigríður Þrúður Stefánsdóttir ferðamálafræðingar sögðu kröfur um árangur af markaðssetningu ferðaþjónustu á Netinu vera litlar.
Bjarnheiður Hallsdóttir og Sigríður Þrúður Stefánsdóttir ferðamálafræðingar sögðu kröfur um árangur af markaðssetningu ferðaþjónustu á Netinu vera litlar.
LANGFLEST íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem eru með eigin vefsíðu eða heimasvæði á Netinu, hafa takmarkaðar upplýsingar um heimsóknir og bókanir á vefjum sínum, samkvæmt niðurstöðum úttektar Félags háskólamenntaðra ferðamálafræðinga (FHF) meðal...
LANGFLEST íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem eru með eigin vefsíðu eða heimasvæði á Netinu, hafa takmarkaðar upplýsingar um heimsóknir og bókanir á vefjum sínum, samkvæmt niðurstöðum úttektar Félags háskólamenntaðra ferðamálafræðinga (FHF) meðal aðildarfélaga Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) á stöðu íslenskrar ferðaþjónustu á Netinu.

Um 59% fyrirtækja höfðu, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, engar upplýsingar um fjölda heimsókna á vef sinn og 79% höfðu engar upplýsingar um hlutfall milli heimsókna og bókana.

Tæp 40% vissu ekki hvert hlutfall viðskipta á Netinu væri af heildarveltu fyrirtækisins og aðeins 16% fyrirtækjanna töldu að veltan af beinni sölu þeirra á Netinu væri 10% eða meiri.

Er Netið hugsanlega ofmetið?

Þessar niðurstöður vekja athygli í ljósi þess að tæp 70% aðspurðra eru mjög ánægð eða frekar ánægð með þann árangur sem þeir hafa náð á Netinu. Langstærstur hluti metur það á fjölda fyrirspurna. Næstflestir á fjölda bókana. Þá voru rúm 90% sammála um að markaðssetning á Netinu hentaði ferðaþjónustu vel.

Bjarnheiður Hallsdóttir og Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, ferðamálafræðingar, kynntu niðurstöður könnunarinnar á ráðstefnu sem haldinn var á vegum FHF. Þær veltu upp spurningum um hvort Netið sé hugsanlega ofmetið sem leið til markaðssetningar og hvort hún hafi almennt tekist sem skyldi. Litlar kröfur virðist vera um árangur og ánægja fyrirtækjanna sé á litlum rökum reist.

Þær sögðu niðurstöður úttektarinnar gefa ótvírætt til kynna að upplýsingahraðbrautin sé mörgum íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum enn torfær ef ekki ófær. Þrátt fyrir að stór hluti fyrirtækja í ferðaþjónustu sé með heimasíðu eða vefsvæði líti út fyrir að fæst þeirra séu að ná með því mælanlegum árangri.

Bandaríkjamenn bóka mest

Þegar spurt var hvort menn yrðu varir við mun á bókunum eftir þjóðernum, þá töldu tæp 50% vera mun þar á og nefndu langflestir að Bandaríkjamenn væru duglegir að bók!a á netinu, næst oftast voru Bretar nefndir og því næst Norðurlandabúar. Hlutur annarra þjóða virðist hverfandi.

Úttektin var gerð meðal gististaða, afþreyingarfyrirtækja, hópferðabílafyrirtækja og ferðaskrifstofa innan SAF, sem eru með eigin heimasíðu eða vefsvæði. Alls tóku 49 fyrirtæki þátt en úrtakið tók til 62 fyrirtækja eða 40% fyrirtækja innan SAF. Markmið úttektarinnar var að fá fram upplýsingar um notkun og áhrif Netsins við markaðssetningu og sölu ferðaþjónustu. Leitað var upplýsinga um hverrar tegundar heimasíður fyrirtækjanna eru, hver notkunin er, fjölda heimsókna, árangur hvað varðar bókanir og sölu og almennt viðhorf til þess hvort Netið hentar sem miðill til markaðssetningar á ferðaþjónustu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.