6. júní 2002 | Fólk í fréttum | 591 orð | 2 myndir

TH1RT3EN - Magnifico Nova

XIII sendir út

Hallur Ingólfsson/XIII Bis Records

Hallur Ingólfsson er heilinn á bakvið Þrettán.
Hallur Ingólfsson er heilinn á bakvið Þrettán.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnifico Nova, þriðja plata Thirteen, sem er einherjasveit Halls Ingólfssonar. Lög, textar, hljóðfæraleikur, upptökustjórn, upptaka og hljóðblöndun voru í höndum Halls. Þorvaldur B. Þorvaldsson tók upp raddir. Björgvin Smári Haraldsson aðstoðaði við "rusltarnir".
HÚN er rétt sú staðhæfing Halls Ingólfssonar, Þrettán-manns með meiru, að hljómur þessa verkefnis hans hafi lýstst upp í gegnum árin í takt við umslög platnanna. Þetta kom fram í spjalli við Morgunblaðið sem birtist 12. maí síðastliðinn. Þannig var fyrsta platan, Salt, stór rokktónlist með gotneskum blæbrigðum og véltónlistarlegum (e. industrial) grunntóni. Næsta plata, Serpentine, var öllu hefðbundnara rokkverk, en mikilfengleikinn, sem hefur í raun réttri verið inntak Þrettán frá upphafi, viðloðandi sem fyrr.

Og nú sjö árum síðar kemur þriðja platan út. Meðgangan var löng, og á stundum ströng. Og hljómurinn allur annar en við eigum að venjast, þótt andi hins upprunalega hafi ekki vikið langt frá.

Að vissu leyti mætti segja að tónlistin væri poppaðri en áður ... jafnvel aðgengilegri. En þar með er ég ekki að segja að einhverjum listrænum metnaði hafi verið fórnað. Nei, því fer fjarri.

Hallur hefur undanfarin ár gert mikið af því að semja tónlist fyrir kvikmyndir, dansverk og þess háttar. Áhrifa þessa gætir að vísu ekki beint á þessari plötu en sú vinna hefur greinilega opnað pilt fyrir nýjum möguleikum.

Platan byrjar á "stóru" lagi, "Transmission". Með lýsingunni "stórt" á ég við að um það leikur dramatík, bæði í texta og uppbyggingu. Eins og áður segir hefur þetta stílbrigði fylgt Þrettán alla tíð, og það skýtur upp kolli hér og þar á plötunni.

Fyrri hluti plötunnar er næsta pottþéttur. Opnunarlaginu er fylgt eftir af afar melódískum, vel samsettum rokksmíðum. Tárin falla jafnvel þegar maður hlustar á "Colder". "Love is colder than death" syngur Hallur af einlægni með ljúfri en kraftmikilli röddu (mér misheyrðist reyndar í fyrstu, heyrðist hann segja "Love is older than pain". Hvílíkt drama hjá mínum!). Fjórða lagið er svo alger risasmellur, glæsilegt rokklag að nafni "Wishbone", skreytt skemmtilegri raddsetningu og flugbeittum króki. "Amorica" er síðan rokkballaða dauðans. Stórbrotið verk, þar sem sá er flytur stendur einn á veðurbörðum kletti, með hretlegan vind í hári. Það er a.m.k myndin sem maður fær í hugann.

Það er nefnilega auðvelt að lesa allnokkra kímni úr þessari plötu. Á vissan hátt, eins og í "Wishbone" og "Amorica", er farið yfir strikið, þó ég þori ekki að fullyrða hvort það er með vilja gert eða ekki. Það sem fólk áttar sig sjaldan á er að alvarlegir listamenn hafa jafnan mikla kímnigáfu fyrir sjálfum sér. Mig grunar að Hallur hafi fæturna sterklega á jörðinni hér, um leið og metnaðurinn skín undanbragðalaust í gegn. Kröftug falsettan í "Wishbone", dómsdagsbragurinn yfir "Amorica" - bæði eru þetta góð dæmi um glúrna sýn Halls, hann svona lítur framan í mann kersknislega yfir rokksólgleraugun íbyggnu augnaráði.

Seinni helmingur plötunnar er ekki jafn innblásinn og sá fyrri. Lagasmíðarnar eru traustar og gæðastaðallinn lækkar ekki en restina vantar þó einhvern neista sem einkenndi plötuna framan af. "New Years Day", "Daisy Chain" og "Wired" eru dæmi um lög sem fljóta fullauðveldlega fram hjá manni.

Tíunda lagið, "Miracle Sun" (platan inniheldur að sjálfsögðu þrettán lög), er gott uppbrot á þessu, þar sem áhrifa frá gítarvísindafólkinu í hinni sálugu áhrifasveit My Bloody Valentine gætir.

Magnifico Nova er vel unnið verk og furðu heilsteypt, sé tillit tekið til þess að hún var unnin á mjög löngu tímabili, með hléum og þar að auki út um hvippinn og hvappinn. Sú staðreynd að platan er eins manns verk gefur henni líka á einhvern hátt aukna vigt í huga manns. En burtséð frá þessu öllu er þetta fyrst og fremst svalt verk; poppað, véltónlistarlegt rokk að hætti Halls Ingólfssonar þar sem römm höfundareinkenni mynda sterka heildarmynd. Eina umkvörtunin er áðurnefndur bensínskortur sem gerði vart við sig um miðbikið. Að öðru leyti, sáttur.

Arnar Eggert Thoroddsen

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.