Ólafur G. Sæmundsson
Ólafur G. Sæmundsson
Í greinarskrifum Jóns, segir Ólafur Gunnar Sæmundsson, má finna ýmsar rangfærslur.

ÉG Á alltaf erfitt með að skilja af hverju sumir telja mjólk og mjólkurafurðir óæskilegar til neyslu og undirrót fjölda kvilla sem hrjá mannkynið. Mjólk er holl fæða og auðvelt að sanna það þegar næringarefnainnihald hennar er metið. Ástæða þessara skrifa er blaðagrein eftir Jón Brynjólfsson sem birtist í Morgunblaðinu 6. júní síðastliðinn undir yfirskriftinni: "Um beinin".

Í téðri grein er fjallað um ýmsa þætti sem hafa áhrif á styrkleika beina. Meðal annars segir Jón að ofþjálfun, óhófsneysla próteina sem og vöntun á næringarefnum eins og D-vítamíni og magnesíum geti ýtt undir beinþynningu. Þetta er allt satt og rétt.

Aftur á móti má í greinarskrifum Jóns finna ýmsar rangfærslur og verður hér lauslega fjallað um nokkrar þeirra:

1. Fullyrt er ranglega að D-vítamín í fæðu (reyndar er D-vítamín í mjólk nefnt sérstaklega til sögunnar) sé gerviefni og beinlínis heilsuspillandi. Staðreyndin er að D-vítamín í fæðu (finnst í afurðum eins og lýsi, feitum fiski, eggjarauðum, lifur og D-vítamínbættum mjólkurafurðum) er fullfært um að aðstoða við nýtingu kalks úr fæðunni.

2. Fullyrt er ranglega að skortur á magnesíum sé talinn algengasta orsök beinþynningar. Staðreyndin er sú að þættir sem tengjast erfðum, kynferði og hækkandi aldri eru helstu áhættuþættir beinþynningar. Og næringarþættir sem tengjast ónógri kalkneyslu, of lágu magni D-vítamíns í líkama og lítilli próteinneyslu í lengri tíma eru taldir meiri áhrifavaldar á þróun beinþynningar en nokkru sinni magnesíum enda skortur á magnesíum talinn mjög sjaldgæfur.

3. Fullyrt er ranglega að þar sem mjólk er rík að próteinum og fosfór leiði mjólkurdrykkja beinlínis til kalktaps úr líkama. Staðreyndin er sú að steinefnið fosfór er lífsnauðsynlegt efni fyrir beinin og skortur á því leiðir til beintaps. Það er reyndar mjög sjaldgæft að fosfórskortur sé tilkominn vegna ónógrar neyslu en aftur á móti geta sum lyf hindrað upptöku fosfórs og afleiðingin verður beintap. Hvað varðar próteinneyslu þá ýtir of lítil neysla undir beinþynningu rétt eins og óhófsneysla.

Um leið og ég hvet alla sem hafa áhuga á að afla sér upplýsinga um beinþynningu að fara inn á vefsíðuna www.beinvernd.is skal tekið skýrt fram að lykillinn að næringarlegu jafnvægi felst í fjölbreytni og hófsemi. Og enginn ætti að velkjast í vafa um eftirfarandi: Kornmeti er hollt sem og fiskur. Baunir eru hollar, einnig kjöt, hnetur og fræ. Egg eru holl og að sjálfsögðu ávextir og grænmeti. Og ekki megum við gleyma blessaðri mjólkinni, sem svo sannarlega er sprengfull af hollustu!

Höfundur er næringarfræðingur og stjórnarmaður í Beinvernd.