HLUTHAFAR norska sjávarútvegsfyrirtækisins Fjord Seafood ASA hafa hafnað sameiningu við norska fiskeldisfyrirtækið Cermaq. Bæði félögin eru á meðal stærstu fiskeldisfyrirtækja Noregs og sameinað félag orðið næststærsta eldisfyrirtæki heims.

HLUTHAFAR norska sjávarútvegsfyrirtækisins Fjord Seafood ASA hafa hafnað sameiningu við norska fiskeldisfyrirtækið Cermaq. Bæði félögin eru á meðal stærstu fiskeldisfyrirtækja Noregs og sameinað félag orðið næststærsta eldisfyrirtæki heims.

Á hluthafafundi Fjord Seafood í fyrradag höfnuðu 36,6% hluthafa sameiningunni en samþykki 67% hluthafa þurfti til að af sameiningunni yrði. Fyrr um daginn höfðu hluthafar Cermaq samþykkt samrunann.

Á netfréttavef Aftenposten kemur fram að stærstu hluthöfum Fjord Seafood hafi þótt verðlag nýrra hlutabréfa, sem gefa átti út til að fjármagna samrunann, allt of lágt og myndi leiða til rýrnunar á núverandi verðmati fyrirtækisins. Samkomulag tókst um samrunann í maí en hann stóð og féll með hlutafjáraukningu. Helstu hluthafar Fjord Seafood, bandarísku fyrirtækin Conti-Group og Seaboard Corporation, töldu verðlag þeirra óviðunandi. Bréfin átti að bjóða á genginu 4,50 norskar krónur hlutinn en þeir höfðu vonast eftir að fá nærri helmingi hærra verð. Því höfnuðu bandarísku hluthafarnir sameiningunni en þeir eiga um 22% hlutafjár í Fjord og er talið að þeim hafi tekist að fá til liðs við sig hóp smærri hluthafa til að ná tilskildum atkvæðafjölda til að fella sameininguna.