Ellert Eiríksson afhenti eftirmanni sínum, Árna Sigfússyni, lyklavöldin að bæjarskrifstofunum og höfuðverkjartöflu sem hann hefur geymt í skrifborðsskúffu sinni í tólf ára bæjarstjóratíð en aldrei þurft að nota.
Ellert Eiríksson afhenti eftirmanni sínum, Árna Sigfússyni, lyklavöldin að bæjarskrifstofunum og höfuðverkjartöflu sem hann hefur geymt í skrifborðsskúffu sinni í tólf ára bæjarstjóratíð en aldrei þurft að nota.
ÁRNI Sigfússon, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, var í gær ráðinn bæjarstjóri á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar.

ÁRNI Sigfússon, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, var í gær ráðinn bæjarstjóri á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar. Að loknum fundi tók hann við lyklavöldunum að bæjarstjóraskrifstofunni af Ellert Eiríkssyni sem verið hefur bæjarstjóri Reykjanesbæjar og áður Keflavíkurbæjar í tólf ár.

Tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem hafa meirihluta í bæjarstjórn, um ráðningu Árna var samþykkt með sex atkvæðum þeirra en fimm fulltrúar minnihlutans sátu hjá. Síðar á fundinum þakkaði Árni kosningu sína, hét því að vinna að heilindum í störfum sínum og sagðist treysta á stuðning allra bæjarfulltrúa.

Sjálfkjörið var í aðrar nefndir, ráð og embætti. Björk Guðjónsdóttir var kjörin forseti bæjarstjórnar, Þorsteinn Erlingsson fyrsti varaforseti og Jóhann Geirdal annar varaforseti. Böðvar Jónsson var kjörinn formaður bæjarráðs og með honum í ráðinu verða Björk Guðjónsdóttir og Steinþór Jónsson en þau eru öll kjörin af D-lista, og Jóhann Geirdal og Ólafur Thordersen, fulltrúar Samfylkingarinnar.

Sjálfstæðisflokkur á þrjá fulltrúa og Samfylking tvo í fimm manna nefndum. Framsóknarflokkurinn á ekki fulltrúa í nefndunum nema hvað Kjartan Már Kjartansson bæjarfulltrúi verður áfram formaður stýrihóps um Staðardagskrá 21, samkvæmt tillögu sjálfstæðismanna. Þá mun Kjartan Már nýta sér heimild til að sitja fundi bæjarráðs sem áheyrnarfulltrúi.