Cosi fan tutte - síðari frumsýning - ópera í tveimur þáttum eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Óperutextinn eftir Lorenzo da Ponte. Flytjendur: Óperustúdíó Austurlands ásamt kammersveit og kór.

Cosi fan tutte - síðari frumsýning - ópera í tveimur þáttum eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Óperutextinn eftir Lorenzo da Ponte. Flytjendur: Óperustúdíó Austurlands ásamt kammersveit og kór. Í aðalhlutverkum: Fiordiligi - Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir, Dorabella - Ildiko Varga, Despina - Xu Wen, Ferrando - Þorbjörn Rúnarsson, Giuglielmo - Árni Björnsson og Don Alfonso - Manfred Lemke. Leikmynd: Keith Reed og Björn Kristleifsson. Búningar: Kristrún Jónsdóttir. Lýsing: Þorsteinn Sigurbergsson. Konsertmeistari: Ari Þór Vilhjálmsson. Hljómsveitar- og leikstjóri: Keith Reed.

SÍÐARI frumsýning óperunnar Cosi fan tutte eftir Mozart var gjörólík þeirri fyrri, sem hafði yfir sér æskublæ, en hin síðari bar þess glöggt vitni að hér voru reyndari söngvarar á ferð. Ég hefði getað verið stödd í hvaða óperuhúsi í Evrópu sem var. Það var einungis kunnuglegt umhverfið sem gaf mér til kynna hvar ég var stödd. Jafnvel hljómsveitin virtist ekki vera sú sama og kvöldið áður því nú mátti heyra hið eina sanna "Mozart-swing". Hvílíkur munur! Það er oft talið auðveldara fyrir gagnrýnendur að fjalla um flutning þar sem allt gengur eins og best verður á kosið. En það er ekki síður erfitt að velja lýsingarorð sem lýsa einhverju stórkostlegu án þess þó að missa trúverðugleika. Það á við í þetta sinn! Þegar ég gekk út af sýningunni var mér efst í huga þakklæti til Keiths Reeds fyrir að gefa mér og öðrum sveitungum okkar tækifæri til þess að hlýða á allan þennan hóp söngvara sem eru jafnhæfileikaríkir og þeir sem hér voru á ferð. Hvaðan kemur allt þetta góða fólk? Hver er þessi Árni sem var í hlutverki Giuglielmos? Hvílík rödd! Hvílík raddfegurð! Rödd hans er svo vel lögð að hún myndi berast á aftasta bekk á efstu svalir stærsta óperuhúss. Þessi ungi maður kom svo sannarlega á óvart. Það væri hreinn unaður að hlýða á hann syngja ljóð. Það eina sem hugsanlega er hægt að finna að hjá honum er reynsluleysið á sviði. En vonandi fær hann tækifæri til þess að bæta úr því, því þetta er maður sem vert er að fylgjast með í framtíðinni. Þorbjörn Rúnarsson (Ferrando) hefur fyrir löngu skipað sér á bekk með tenórstrákunum okkar og stóð hann fyllilega fyrir sínu. Hann er einn af þeim sem eiga bara að syngja meira! Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir var glæsileg Fiordiligi og söng þetta þakkláta hlutverk af mikilli smekkvísi. Ildiko Varga er hörkumezzósópransöngkona og túlkaði hlutverk Dorabellu með viðeigandi húmor. Manfred Lemke stóð sig feikivel í hlutverki hins slæga Dons Alfonsos og má heyra að hér er vaxandi söngvari á ferð. Túlkun Xu Wen í hlutverki grallarans Despinu einkenndist af fágun og öryggi. Þá má ekki gleyma börnunum, sem túlka innra sjálf persónanna og gegna nokkuð veigamiklu hlutverki í sýningunni, og stóðu sig eins og hetjur. Það mátti sjá að þau voru töluvert öruggari með sig á þessari sýningu en þeirri fyrri. Börnin hefja skákina strax í forleiknum þannig að við finnum smjörþefinn af því sem koma skal, refskák Dons Alfonsos og Despinu. Margir velta fyrir sér boðskap óperunnar og spyrja jafnvel hvort hún fjalli um ístöðuleysi kvenna, sé jafnvel fjandsamleg í garð kvenna. Ég tel svo ekki vera heldur er hér verið að gera góðlátlegt grín að "ástsjúku" ungu fólki og hádramatískum tilfinningum þess. Ungu mennirnir tveir eru ekki síður "afhjúpaðir" en konurnar. Höfundur óperutextans, Lorenzo da Ponte, sem ku hafa verið mikill kvennamaður og átt sér margar ástkonur, sýnir svo ekki verður um villst að hann er vel heima í þessu efni og hefur húmor fyrir því. Það er vert að minnast á þýðingu Óskars Ingimarssonar og Önnu Hinriksdóttur á óperutextanum, sem birtur er fyrir ofan sviðið. Hún er snilldarlega vel gerð, lipur og nær að fanga glettnina í upprunalega textanum. Þá má einnig benda á oft góðar lausnir leikstjórans Keiths Reeds, sem þarf að glíma við lítið svið sem er ekki alltaf auðvelt, - hvað hann leysir sviðsskipti skemmtilega af hendi. Það gerir hann með kórnum, sem færir hluti til og frá eftir þörfum. Í heild var þetta jöfn og glæsileg sýning frá fyrstu nótu til hinnar síðustu. Þessa sýningu ætti enginn að láta framhjá sér fara. Til hamingju Óperustúdíó Austurlands!

Ingveldur G. Ólafsdóttir