UNGLIÐAHREYFINGAR Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sendu í fyrradag frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda er harðlega mótmælt.

UNGLIÐAHREYFINGAR Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sendu í fyrradag frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda er harðlega mótmælt. Í yfirlýsingunni kemur fram að kínversk stjórnvöld hafi fótum troðið sjálfsögð mannréttindi þegna sinna, þar á meðal skoðana- og tjáningarfrelsi, félagafrelsi og rétt fólks til þess að fá réttláta málsmeðferð fyrir óháðum dómstólum. Þá mótmæla ungliðahreyfingarnar þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að meina félagsmönnum í Falun Gong að koma til Íslands, enda sé fólkið komið hingað í þeim tilgangi einum að hafa uppi friðsamleg mótmæli gegn mannréttindabrotum.

Í andstöðu við þær lýðræðishefðir sem íslensk stjórnskipun byggir á

Í yfirlýsingunni segir: "Þessi ákvörðun er í andstöðu við þær lýðræðishefðir sem íslensk stjórnskipun byggir á og samræmist ekki þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Íslendingar hafa gengist undir um að virða mannréttindi. Ísland er eina vestræna ríkið sem tekur upp á því að banna inngöngu Falun Gong-félaga inn í landið. Við lýsum yfir miklum áhyggjum yfir því að hefð virðist vera að myndast hjá íslenska ríkinu að beygja eða jafnvel brjóta lög og mannréttindi þegar kínverskir ráðamenn heimsækja landið."

Ungliðarnir, auk samtaka stúdenta við Háskóla Íslands, munu skipuleggja væntanlegar mótmælaaðgerðir á næstunni.