LÖGREGLAN í Lettlandi kom í gær í veg fyrir, að áhangendur Falun Gong-hreyfingarinnar gætu efnt til mótmæla í tilefni af opinberri heimsókn Jiang Zemins, forseta Kína.

LÖGREGLAN í Lettlandi kom í gær í veg fyrir, að áhangendur Falun Gong-hreyfingarinnar gætu efnt til mótmæla í tilefni af opinberri heimsókn Jiang Zemins, forseta Kína.

Um 20 manns eru í lettneskri deild Falun Gong-hreyfingarinnar en auk þess komu sjö erlendir félagar þeirra til landsins og var hleypt inn athugasemdalaust. Ætlaði fólkið að mótmæla komu Zemins er hann skoðaði dómkirkjuna í Riga en lögreglan kom í veg fyrir það. Girti hún af allt torgið fyrir framan kirkjuna og einnig ýmsa staði í miðborginni. Guntars Kukals, talsmaður borgaryfirvalda, sagði, að lettneska öryggislögreglan hefði lagt til, að mótmælin færu fram í annan tíma.

Anatolij Polishchuk, talsmaður Falun Gong í Lettlandi, sakaði í gær lettnesk yfirvöld um að láta í öllu að vilja kínversku stjórnarinnar.

Ræddu ekki um mannréttindi

Andris Berzins, forsætisráðherra Lettlands, kvaðst ekki hafa rætt stjórnmál eða mannréttindamál við Zemin, aðeins viðskipti. Sagði hann, að kínversk stjórnvöld vissu vel um afstöðu Letta í mannréttindamálum, sem væri sú sama og annarra Evrópuríkja.

Jiang Zemin og fylgdarlið hans, rúmlega 150 manns, fara til Eistlands í dag en opinber heimsókn forseta Kína á Íslandi hefst á morgun.

Riga. AFP.