Tímaritið Saga er komið út. Efni ritsins er fjölbreytt að venju, spannar söguna frá miðöldum til síðustu áratuga auk viðhorfsgreina og bókarýni. Sögufélag er í hópi elstu fræðafélaga í landinu og fagnar aldarafmæli sínu í ár.

Tímaritið Saga er komið út. Efni ritsins er fjölbreytt að venju, spannar söguna frá miðöldum til síðustu áratuga auk viðhorfsgreina og bókarýni. Sögufélag er í hópi elstu fræðafélaga í landinu og fagnar aldarafmæli sínu í ár. Nú hefur útgáfa tímaritsins verið efld og munu framvegis koma út tvö rit á ári. Í tilefni þessa áfanga gerir Einar Laxness sögu félagsins skil. Ritinu er ætlað að stuðla að því að efla umræðu um sögu og samtíma, birta rannsóknarritgerðir og greinar um viðfangsefni fræðanna og miðlun þeirra.

Til að hvetja til umræðu hefur nýr bálkur verið tekinn upp í ritinu, "Viðhorf". Í grein sem kallast "Skammhlaup" er að finna hugsanir Einars Más Jónssonar sem sprottið hafa af lestri bókar Sveins Yngva Egilssonar, Arfs og umbyltingar. Í annarri grein, sem nefnist "Þjóðernishreyfingin á 19. öld: Hvað var hún og hvað vildi hún?", gagnrýnir Guðmundur Jónsson nokkra þætti í nýrri bók Guðmundar Hálfdanarsonar, Íslenska þjóðríkið.

Ferskar rannsóknir eru birtar í nokkrum greinum, og eru ungir fræðimenn áberandi í þessum hópi, innlendir og erlendir. Í grein um miðaldasögu, "Braudel í Breiðafirði? Breiðafjörðurinn og hinn breiðfirski heimur á öld Sturlunga", beitir Sverrir Jakobsson skoðunarmáta franska sagnfræðingsins Fernands Braudels í frægu verki um Miðjarðarhafslönd á tímum Filippusar II við athugun á samspili landslags, búskapar og stjórnmála á öld Sturlunga.

Menningarsaga hefur verið í sókn á undanförnum árum og birtist grein eftir ungan danskan sagnfræðing, Christinu Folke Ax, "Menningarmunur á Íslandi í lok 18. aldar".

Kristrún Halla Helgadóttir skrifar líka um þátt úr menningu þjóðarinnar, "Í sókn gegn hjátrú og venjum. Lækkun ungbarnadauðans í Nesþingum á Snæfellsnesi 1881-1910".

Nýtt sjónarhorn á samtímasöguna er að finna í tveimur greinum. Kjartan Emil Sigurðsson skrifar um samninga milli verkalýðshreyfingar og ríkisvalds á sjöunda áratugnum um byggingu íbúðarhúsnæðis handa verkafólki í Breiðholti. Aldamótanna er minnst með greininni "Höfum við gengið til góðs? Nokkrar bækur um tuttugustu öldina" eftir Guðna Th. Jóhannesson.

Ritstjórar Sögu eru Guðmundur J. Guðmundsson, Guðmundur Jónsson og Hrefna Róbertsdóttir.