15. júní 2002 | Innlendar fréttir | 718 orð | 1 mynd

Dæmdur í þrældóm fyrir 200 árum

Fæðingarstaður Hans Jónatans í Vestur-Indíum.
Fæðingarstaður Hans Jónatans í Vestur-Indíum.
UM HELGINA verður haldið á Stöðvarfirði ættarmót niðja Hans Jónatans og Katrínar Antoníusardóttur, en mótið er haldið nú þegar 200 ár eru liðin frá því að Hofs og Stadsretten í Kaupmannahöfn neitaði Hans um frelsi og dæmdi hann til baka í þrældóm til...
UM HELGINA verður haldið á Stöðvarfirði ættarmót niðja Hans Jónatans og Katrínar Antoníusardóttur, en mótið er haldið nú þegar 200 ár eru liðin frá því að Hofs og Stadsretten í Kaupmannahöfn neitaði Hans um frelsi og dæmdi hann til baka í þrældóm til Vestur Indía - þrátt fyrir að þrælahald væri bannað í Danmörku á þessum tíma. Hans Jónatan, sem fæddist 1784 á eyjunni St. Croix í Karíbahafi í Vestur-Indíum, var þræll dansks aðalsfólks að nafni Schimmelmann, en Major General Ludvig Heinrich Von Schimmelmann var landstjóri Dana í Dönsku Vestur-Indíum á þessum tíma, segir á heimasíðu ættarmótsins.

Á fæðingarvottorði var Hans Jónatan sagður sonur ritara á plantekrunni Constitution Hill og blökkustúlku. Nafn hennar er ekki nefnt en hún hét Emiliane Regina og vann sem þjónustustúlka landstjórans. Við skírn drengsins upplýsti móðirin ekki um faðerni hans.

Barðist fyrir Dani í orrustu við Englendinga

Röð atburða varð til þess að Hans Jónatan hélt til Íslands. Sem barn í Vestur-Indíum hlaut hann menntun en þegar fjölskylda Schimmelmanns fluttist heim til Danmerkur fóru mæðginin með. Í manntali frá Kaupmannahöfn 1801 er þeirra mæðgina getið og þau sögð vera þjónn og stofustúlka frú Schimmelmann, en Majór Schimmelmann lést árið 1793. Hans Jónatan var baldinn við gömlu ekkjuna og árið 1801 strauk hann frá henni og fór til þess að taka þátt í orrustu Dana við Englendinga um eyjun Reden á Eyrarsundi. Hann varð háseti á herskipinu Charlotte Amalie og gat sér gott orð í orrustunni þrátt fyrir að hún hafi tapast. Að launum fyrir frammistöðu sína fékk Hans Jónatan 15 ríkisdali og vilyrði frá krónprins Dana um að hann fengi frelsi að launum fyrir framgöngu sína. Ekkjan var hins vegar ekki sátt við þessi málalok og þegar Hans Jónatan sneri til baka setti hún hann í stofufangelsi og neitaði að gefa honum frelsi nema varnarmálaráðuneytið greiddi henni 402 ríkisdali sem hún sagðist hafa orðið að gefa í afslátt af plantekru þeirra hjóna á St. Croix vegna þess að þau höfðu tekið Hans Jónatan með sér til Danmerkur. Fékk hún því framgengt að hann yrði settur í gæsluvarðhald þar sem hann sat í rúman mánuð og reyndi hún eftir það að fá hann handtekinn á ný en eftir að Hans Jónatan hafði borið vitni neitaði lögreglustjórinn í Kaupmannahöfn að handtaka hann aftur.

Dæmdur til að flytjast í þrældóm á sykurplantekrur

Gekk lengi á með bréfaskriftum milli varnarmálaráðuneytisins og ekkjunnar vegna þessara mála og sköpuðust af þessu miklar lagaflækjur þar sem þrælahald var ekki leyft í Danmörku en var hinsvegar leyft í nýlendum Dana. Ekkjan hélt því fram að eignarhald hennar væri ótvírætt þar sem hún hefði eignast Hans í Vestur-Indíum.

Að lokum greip ekkjan til þess ráðs að fá dómsúrskurð þess efnis að Hans Jónatan yrði fluttur nauðugur tilbaka til Vestur-Indía en hann krafðist þess á móti að á grundvelli ummæla krónprinsins og þess að þrælahald væri bannað í Danmörku þá bæri honum frelsi. Ekkjan neitaði staðfastlega og endaði málið með réttarhöldum. Meðal dómara í málinu var maður að nafni A.S. Örsted er síðar varð frægur hæstaréttardómari í Danmörku en var alltaf í vafa hvort hann hefði dæmt rétt í máli Hans Jónatans. Dómur féll 31. maí 1802 á þann veg að Hans Jónatan var dæmdur til að flytjast í þrældóm á sykurplantekrur Vestur-Indía. Eftir dóminn hvarf slóð Hans Jónatans og fór engum sögum af honum fyrr en hann birtist sem starfsmaður verslunarinnar Örums & Wolf á Djúpavogi um 1816, en það er sama ár og ekkja Schimmelmanns lést í Kaupmannahöfn.

Sagan segir að við komuna til Djúpavogs hafi Hans Jónatan haft með sér 3 ættargripi til sönnunnar um uppruna sinn - þeir eru nú týndir og er talið að einn af gripunum, tóbakspungur með skjaldarmerki, hafi farið með einum af afkomendum hans til Bergen í Noregi snemma á þessari öld.

Danskir fjölmiðlar sýna málinu áhuga

Árið 1824 kvæntist Hans Jónatan Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi í Berufirði. Þau eignuðust tvö börn sem fengu nöfnin Ludvig Jónatan Jónatansson og Hansína Regina Jónatansdóttir. Telja afkomendurnir að nöfn barnanna ásamt mikilli leynd um föður Hans megi telja ákveðna vísbendingu um faðerni hans. Afkomendur Hans Jónatans eru nú mörg hundruð og eru dreifðir um Ísland, Ameríku, Mexíkó, Brasilíu, Danmörku, Ástralíu og Noreg.

Um þessar mundir er statt hér á landi kvikmyndatökulið frá Danmörku sem er að gera heimildarmynd um ævi Hans Jónatans auk þess sem sögu hans hefur verið gerð skil í dönskum fjölmiðlum undanfarið.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.