Eiður Guðnason umhverfisráðherra: Mikið að vinna og að vernda EIÐUR Guðnason þingmaður Alþýðuflokksins á Vesturlandi verður umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Eiður Guðnason umhverfisráðherra: Mikið að vinna og að vernda

EIÐUR Guðnason þingmaður Alþýðuflokksins á Vesturlandi verður umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Hann segir að umhverfisráðherraembættið sé mjög áhugavert verkefni.

"Í þessu starfi verður örugglega mikið að vinna og mikið að vernda. Þetta er landsbyggðarráðuneyti, því verkefni þess er að fjalla um umhverfismál í byggðum og óbyggðum. Þá er starf umhverfisráðherra að nokkru leyti ómótað og ég hlakka til að takast á við það," sagði Eiður. Hann sagði að gert væri ráð fyrir því að ráðuneytinu bættust verkefni fljótlega á kjörtímabilinu, þótt ekki lægi enn fyrir hver þau yrðu.

Eiður verður jafnframt samstarfsráðherra Norðurlandanna, og sagði hann að það starf væri ekki síður áhugavert. "Ég þekki þar býsna vel til, eftir að hafa starfað nokkuð lengi í Norðurlandaráði sem formaður menningamálanefndar og seinna sem formaður laganefndar," sagði hann.

Eiður sagði að sér litist vel á samstarfsmenn sína í ríkisstjórn. "Ég hef trú á því að þetta verði traust og samhent stjórn," sagði Eiður Guðnason.

Morgunblaðið/Ól. K. M.

Eiður Guðnason umhverfisráðherra tekur við lyklunum að umhverfisráðuneytinu af Júlíusi Sólnes, og að "bílnum fræga" eins og Júlíus orðaði það.