KIRSTEN Seaver, bandarískur sagnfræðingur af norskum ættum, telur sig hafa fundið höfund Vínlandskortsins svokallaða, samkvæmt frétt í franska dagblaðinu Le Monde .
KIRSTEN Seaver, bandarískur sagnfræðingur af norskum ættum, telur sig hafa fundið höfund Vínlandskortsins svokallaða, samkvæmt frétt í franska dagblaðinu Le Monde. Telur Seaver margt benda til að þýskur jesúíti að nafni Josef Fischer sé höfundur kortsins.

Deilt hefur verið um Vínlandskorið frá því á sjöunda áratug síðustu aldar. Bandarískur læknir, Paul Mellon, gaf þá Yale-háskóla kortið. Það hafði Mellon keypt á sjötta áratugnum af manni í Connecticut í Bandaríkjunum. Sá upplýsti aldrei hvernig kortið komst í hendur hans. Fljótlega eftir að kortið kom í leitirnar hófust deilur um hvort það væri falsað.

Rannsókn var gerð á kortinu á áttunda áratugnum og var niðurstaðan sú að það væri falsað. Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar á kortinu síðan en niðurstöður þeirra hafa verið mjög misvísandi. Niðurstaða rannsóknar á vegum University College í London fyrr á þessu ári benti til að Vínlandskortið hefði verið teiknað eftir 1923. Önnur rannsókn var sögð benda til þess að kortið hafi verið gert árið 1434, tæpum 60 árum áður en Kólumbus sigldi til Ameríku, og sanni það því að hann hafi ekki verið fyrsti Evrópumaðurinn sem náði ströndum álfunnar.

Kortið er geymt í bókasafni Yale-háskóla en stofnunin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort það er fölsun eða ekki.

Kortið sýnir heiminn eins og víkingar þekktu hann. Á því er að finna teikningu af Atlantshafsströnd Norður-Ameríku og segir í texta sem þar er að finna á miðaldalatínu að Leifur Eiríksson hafi fundið Vínland um árið 1000.

Í frétt Le Monde er haft eftir Seaver að Josef Fischer sé eini maðurinn sem á tímabilinu 1923-1957 hafi haft bæði pólitíska og trúarlega ástæðu til verknaðarins sem og hæfileika til að falsa kortið. Fischer var sannfærður um að fréttir af landafundum víkinga hefðu borist til Evrópu og Grænland og Ameríka verið teiknuð inn á landakort á miðöldum. Seaver telur að hann hafi teiknað kortið á árabilinu 1933-1935.

Fischer, sem var fæddur í Þýskalandi en bjó í Austurríki, reiddist mjög er nasistar handtóku kaþólska presta eftir valdatöku Hitlers árið 1933. Nasistar dáðust mjög að víkingum en Fischer vildi, samkvæmt kenningu Seavers, sýna fram á hversu sterk áhrif kaþólska kirkjan hefði haft á víkinga. Víkingar tóku flestir kristni á árunum 800-1000.