"Norðmenn nema Ísland í annað sinn í júlí 1903 og fyrstir salta þeir síld á Siglufirði þetta sama sumar."
"Norðmenn nema Ísland í annað sinn í júlí 1903 og fyrstir salta þeir síld á Siglufirði þetta sama sumar."
Til 20. ágúst.

Í BRÆÐSLUHÚSI Síldarminjasafnsins á Siglufirði hefur verið sett upp sýning á málverkum og smíðisgripum Guðmundar "góða" Kristjánssonar sem var búsettur á Siglufirði um áratuga skeið. Guðmundur lést á tíunda áratugnum, þá kominn yfir nírætt, og er það vinafólk hans, Guðný Róbertsdóttir og maður hennar, Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri Síldarminjasafnsins, sem standa að sýningunni í minningu hans.

Guðmundur góði fæddist 1902. Hann ólst upp á Snæfellsnesi en settist síðar að á Siglufirði og setti þar upp vélsmiðju sem hann rak til margra ára og lagði mikið í smíðagripi sína. Um 1930 hafði hann svo mikinn hug á málaralist að hann setti upp málverkasýningu á Akureyri með ríflega 30 myndum. Þar heyrði hann á tal tveggja manna sem hann taldi hafa vit á slíkum hlutum og fundu þeir myndunum ýmislegt til foráttu. Eftir það brenndi hann velflest málverk sín og snerti síðan ekki pensil - eða fjöðurstaf - í um fimmtíu ár. Er hann loks tók aftur til við málverkin var það til að selja myndir í þágu góðgerðarmála, einnig seldi hann smíðisgripi úr tré og málaði steinvölur. Allur ágóði af verkum hans rann til starfsemi móður Teresu á Indlandi.

Verk Guðmundar flokkast að mestu undir það sem kallað er "naive" list, og Aðalsteinn Ingólfsson hefur íslenskað sem næfa list í bókinni sem gefin var út í tilefni sýningarinnar Einfarar í íslenskri myndlist sem haldin var í Hafnarborg 1990. Þar er m.a. fjallað um hvað skilgreinir næfa list frá alþýðulist.

Þegar merking orðsins "naive" er skoðuð - barnslegur, einfaldur, saklaus, auðtrúa - er nokkuð ljóst hvað næf list felur í sér. Í grófum dráttum er næfur listamaður er því sá sem hefur á einhvern hátt varðveitt sína barnslegu sýn á heiminn og býr að henni allan sinn aldur. Næfir listamenn búa oftar en ekki yfir ríku hugarflugi og skapa sér sinn sérstaka myndheim. Myndefnið er oftast mikilvægt, að koma frásögn til skila. Aðalsteinn flokkar næfa myndlistarmenn í tvo hópa, sögumenn og skreytilistamenn. Alþýðulist er oftar en ekki handverk ýmiss konar og einkennist ekki af jafnsérstökum hugarheimi og list næfra listamanna.

Guðmundur sómir sér ágætlega í hópi næfra listamanna, bæði persóna hans, líf og myndverk. Þegar hugað er að merkingu orðsins eins og hún er útlistuð hér að ofan má segja að hvert orð eigi vel við líf hans og persónu, en hann var mikill frumkvöðull á sviði góðgerðarmála. Hann barðist gegn mengun frá síldarverksmiðjunum á sjöunda áratugnum og fékk litlar þakkir fyrir. Áhugi hans á austrænum fræðum og andlegum málefnum var alla tíð mikill. Á sýningunni í Gránu má sjá þrjú af fjórum olíumálverkum Guðmundar sem lifðu af bálför vonbrigðanna. Þau bera hæfileikaríkum málara vitni og mikil synd er að svona hafi farið. Það hefði verið áhugavert að sjá hvernig honum hefði tekist að þróa áfram verk sín hefði hann mætt meiri skilningi. Seinni málverk Guðmundar sýna flest skip að veiðum á heiðríkum góðviðrisdögum, yfir þeim er einstök birta sem einnig virðist hafa ríkt um líf Guðmundar og persónu. Í anda næfra listamanna segja myndirnar sögu af ýmsum atburðum, flestir tengjast veiðum og sérstaklega síldinni auðvitað. Smáatriði eru nosturslega máluð og ávallt mikill fjöldi skipa á fjörðum, af ýmsum stærðum og gerðum. Á sýningunni má líka sjá smíðisgripi Guðmundar úr tré sem og járngripi sem hann vann í vélsmiðjunni að ógleymdum máluðum steinum, skærbláum með gulum heillastjörnum sem frekar virðast ættaðir frá Indlandi en Siglufirði.

Sýningin í heild er vel fram sett og góð viðbót við hana eru skjöl sem varða líf Guðmundar, bréf og blaðagreinar, sem og myndband með viðtali við hann. Persóna hans gæðir myndirnar lífi og eykur skilning á verkunum á sýningunni. Sýningin er ágætt framtak og minnir á mikilvægi okkar næfu listamanna sem ómissandi hluta af íslenskri myndlist.

Ragna Sigurðardóttir