3. september 2002 | Fasteignablað | 1243 orð | 2 myndir

Lækjargata 3, Gimli

Húsið Gimli er friðað að utan og er í umsjá Minjaverndar.
Húsið Gimli er friðað að utan og er í umsjá Minjaverndar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsið Gimli er sérstakt í útliti, segir Freyja Jónsdóttir, en það er verndað á ytra byrði í B-flokki. Gimli er í umsjá Minjaverndar eins og önnur hús á Bernhöftstorfunni.
KNUD Zimsen, verkfræðingur, síðar borgarstjóri í Reykjarvík, keypti lóðarræmu úr lóð Gunnlaugsenshúss árið 1904. Tveimur árum síðar hafði Knud Zimsen reist sér þar íbúðarhús sem enn stendur. Það er 12,6 x 9,4 m að grunnfleti, hæð að þakskeggi 4,7 m, ris 3,5 m og kjallari 2,2 m undir loft. Húsið er hlaðið úr mjölnissteinum en Knud Zimsen stóð fyrir því að koma á fót steinaverksmiðju sem nefndist Mjölnir. Mjölnisholt er kennt við verksmiðju þessa en hún varð ekki langlíf.

Í brunavirðingu sem var gerð á húsinu árið 1942 segir að það sé einlyft með porti, risi, turni, þremur gluggakvistum og steyptum kjallara. Þak er með járni á plægðri borðasúð. Allir skilveggir í húsinu eru byggðir úr steini og kalksléttaðir beggja vegna. Járndregar eru undir neðra bitalagi. Steinsteypugólf er í aðalhæð hússins, úr járnbentri steinsteypu, en í báðum bitalögum er milligólf og í porti og sperrum milliþil með pappa og sagspónastoppi á milli þilja. Öll herbergi hússins eru röralögð og kalkdregin að innan. Á aðalhæðinni eru fjögur íbúðarherbergi, eldhús, skápur og tveir gangar, allt er ýmist veggfóðrað eða málað. Í risi eru fimm íbúðarherbergi, tveir gangar, geymsluklefi og þrír fastir skápar. Þar er allt með sama frágangi og á aðalhæðinni. Á skammbitum er loft úr plægðum borðum. Þak á turni er með járnbitum og steinsteypu á járnnet og þiljað með panel. Kjallarinn undir öllu húsinu er með 15" þykkum veggjum og mjög þykku steinsteypugólfi. Hann er hólfaður í sex geymsluherbergi og þrjá ganga. Allt kalkdregið.

Við suðurgafl hússins er inngönguskúr, byggður úr steyptum steinum eins og húsið. Í honum er steinsteypugólf með slípaðri marmarasteypu ofan á.

Grunnflötur skúrsins er 1,9 x 3,0 m, hæð 3,1 m, undir honum er kjallari 2,2 m undir loft. Skúrinn er með skáþaki.

Við austurhlið hússins er viðbygging, byggð eins og það. Þar eru tvö íbúðarherbergi, tveir gangar, búr og geymsluklefi. Í öðru herberginu eru borð og skápar sem allt er málað. Í kjallaranum, sem er undir allri viðbyggingunni, er steinsteypugólf. Grunnflötur byggingarinnar er 11,3 x 3,4 m, hæð 4,1 m, hæð undir loft í kjallara er 1,9 m. Við suðurhlið þessa byggingar er inngönguskúr sem er byggður eins. Grunnflötur skúrsins er 2,2 x 1,9 m, hæð 4,4 m, skúrinn er með skáþaki. Við suðurhlið viðbyggingarinnar er lítill geymsluskúr með skáþaki.

Knud Zimsen teiknaði húsið sjálfur en hann var verkfræðingur að mennt. Eins og að framan getur var húsið hlaðið út steyptum steinum sem framleiddir voru í verksmiðjunni Mjölni. Gimli var fyrsta hús á landinu sinnar tegundar. Þakið á turninum er talið vera fyrsta þak úr járnbentri steinsteypu hér á landi. Það er jarðbikað að ofan og steinsalla stráð á bikið. Terrazzo er við útidyr og undir eldavél í eldhúsi en það mun hafa verið áður óþekkt í húsum hérlendis.

Í túninu vestan við húsið var vatnsból, Smithsbrunnur. Vatn var leitt í húsið eftir pípu úr brunninum og dælt með vatnsdælu sem var í kjallaranum. Í kjallaranum yfir miðstöðvarklefanum var steinsteypt loft af sömu gerð og þakið á turninum. Bæði loftið og þakið voru járnbent með grönnum járnbitum og skeifnateinum í milli.

Knud Zimsen fæddist 17. ágúst 1875 í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Christian Zimsen (Knud Due Christian Zimsen) og Anna Cathinca. Anna Cathinca var dönsk í báðar ættir, fædd í Karhuset við Randers á Jótlandi. Christian Zimsen var fæddur 26. febrúar 1841 í Kaupmannahöfn en fluttist ungur til Grenaa á Jótlandi og ólst þar upp þar til hann fór með foreldrum sínum til Íslands árið 1855.

Árið 1868 stofnuðu foreldrar Knuts Zimsens, þá nýgift, sitt fyrsta heimili í húsinu sem Bjarni Sivertsen reisti í Hafnarfirði sem enn stendur og er Vesturgata 6. Faðir hans var veitti Knudtzonverzlun í Hafnarfirði forstöðu og hafði yfirumsjón með Knudtzonverzlun í Reykjavík. Knud var fimmti í röðinni af tíu börnum þeirra hjóna og fyrsti drengurinn. Segir sagan að foreldrana hafi verið farið að lengja eftir að eignast son þegar hann fæddist.

Knud Zimsen varð stúdent frá Latínuskólanum í Reykjavík vorið 1893, aðeins 17 ára gamall. Í byrjun ágústmánaðar sama ár sigldi hann með "Lauru" til Kaupmannahafnar þar sem hann lagði stund á verkfræðinám. Knud Zimsen lauk verkfræðiprófi í byrjun aldamótaársins. Hann byrjaði að starfa á verkfræðistofu í Kaupmannahöfn en þá var verið að leggja holræsakerfi fyrir borgina. Vorið 1902 fluttist Knud Zimsen heim til Íslands, þá hafði hann fengið starf á vegum ríkisins. Hann vann mjög ötullega að því að koma upp klæðaverksmiðjunni Iðunni við Rauðarárvík.

Þann 2. ágúst 1906 brunnu hús verksmiðjunnar. Árið eftir var reist nýtt hús yfir starfsemina, það var steinsteypt og á sama stað. Knud Zimsen var maður framfara, hann var aðal hvatamaður að stofnun "Mjölnis", grjótmulningsverksmiðju sem reist var þar sem nú heitir Mjölnisholt, en gatan ber nafn verksmiðjunnar. Hugmyndin var að nota grjótmunning sem verksmiðjan framleiddi í ofaníburð á götur borgarinnar sem þá voru holóttar og sumar illar yfirferðar í rigningartíð. Á þessum árum höfðu margir Reykvíkingar þá atvinnu að mylja grjór með hamri og var Mjölnir ekki vinsæll af þeim sökum. Mjölnir varð að breyta um framleiðslu og var þá farið út í það að steypa steina í verksmiðjunni. Knud Zimsen reisti íbúðarhús sitt, Gimli, úr þessum steinum en menn höfðu ekki trú á þessu byggingarefni og svo fór að verksmiðjunni var lokað.

Árið 1914 tók Knud Zimsen við embætti borgarstjóra. Á meðan hann sat í því embætti tók borgin miklum framförum.

Hinn 9. nóvember 1901 giftist Knud Zimsen fyrri konu sinni, Floru. þau eignuðust engin börn en tóku fósturdóttur sem var skírð Ingibjörg. Knud og Flora voru bæði gefin fyrir ræktun og gerðu stóran skrúðgarð við húsið Gimli. Flora Zimsen lést 27. ágúst 1927. Knud Zimsen kvæntist aftur árið 1929 Önnu Einarsdóttur dóttur Einars Einarssonar í Háholti, hann var bróðir Guðmundar Einarssonar í Nesi. Móðir Önnu var Kristrún, dóttir Gísla Guðmundssonar frá Útkoti í Kjós. Knud og Anna eignuðust tvö börn: Knút og Önnu Jóhönnu.

Árið 1911 urðu þau Knud og Flora að selja Gimli en eignin var þeim of dýr í rekstri. Georg Copland fiskkaupmaður varð þá eigandi að Gimli til ársins 1919. Hallgrímur Tulinius stórkaupmaður átti húsið og bjó í því til 1932. Í nokkur ár var rekið mötuneyti í Gimli. Um 1944 er þar bústaður fyrir biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurgeir Sigurðsson. Biskupastofan var þá í útbyggingunni austan við húsið.

Árið 1946 er Ríkissjóður orðinn eigandi að Gimli. Ræma var tekin af lóðinni undir breikkun Lækjargötu árið 1912. Um tíma voru skrifstofur varnarmáladeildar utanríkisráðuneytisins þar, einnig var þar Fasteignamat ríkisins til húsa. Ferðaskrifstofa ríkisins var í húsinu hátt í tuttugu ár, síðan Kynnisferðir og Skilorðseftirlit ríkisins. Sinfóníuhljómsveit Íslands hafði það aðsetur og núna er Ferðamálaráð Íslands þar til húsa.

Árið 1946 var gerð útlitsbreyting á húsinu þannig að inngangi á framhlið var breytt og settar tröppur, sem Einar Erlendsson arkitekt sá um. Húsinu hefur lítið verið breytt að innan og eru skrautlistar í loftum upphaflegir. Flestar innihurðir hafa verið gerðar upp og hvítlakkaðar; einnig gerekti. Handriðið með fram stiganum upp á efri hæðina er upphaflegt. Herbergjaskipan er að mestu sú sama og þegar húsið var nýbyggt en eldhúsi hefur verið breytt og í femstu stofunni hefur verið settur léttveggur á milli afgreiðslu og skrifstofu. Húsið Gimli er sérstakt í útliti, yfir gluggum hæðarinnar, sem flestir eru fjögurrafaga, eru innfelldir steinbogar. Turn hússins er með steyptu takkaskrauti og listum, skorsteinninn er enn á sínum stað á þakinu. Húsið er verndað á ytra byrði í B-flokki. Gimli er í umsjá Minjaverndar eins og önnur hús á Bernhöftstorfunni.

Helstu heimildir eru frá Borgarskjalasafni, brunavirðingar og íbúaskrár, húsadeild Árbæjarsafns, samantekt Nönnu Hermannsson borgarminjavarðar og Við fjörð og vík, brot úr endurminningum Knuds Zimsen.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.