Einir, sjá má ljósgræna berköngla ef grannt er skoðað.
Einir, sjá má ljósgræna berköngla ef grannt er skoðað.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ALLMARGAR tegundir af eini ( Juniperus ) eru ræktaðar hér á landi og eru íslenski einirinn og himalajaeinir þær algengustu, en ýmsar fleiri tegundir þrífast hér með ágætum.
ALLMARGAR tegundir af eini (Juniperus) eru ræktaðar hér á landi og eru íslenski einirinn og himalajaeinir þær algengustu, en ýmsar fleiri tegundir þrífast hér með ágætum. Einitegundir eru líka til í ýmsum stærðum og gerðum, allt frá skriðulum runnum upp í 30 m há tré. Áferð og litur er líka mjög breytilegur, allt frá grágrænu, bláu og út í grænt og gult í öllum mögulegum vaxtarformum. Flestar einitegundir hafa stingandi barrnálar eða hreisturlíkar og aðfelldar og hafa sumar tegundir báðar tegundir af nálum. Einir hefur einkynja blóm og sérbýli en þá er um að ræða kven- og karlplöntur. Karlkönglarnir eru egglaga og 3-5 mm á lengd, en kvenkönglarnir, sem nefnast berkönglar, eru frá 5 mm upp í nokkra cm í þvermál. Berkönglarnir eru 6-24 mánuði að þroskast, allt eftir tegundum og eru þeir margbreytilegir að lit þegar þeir eru fullþroskaðir eða frá appelsínugulu, rauðu, brúnu, fjólubláu og út í blátt og svart.

Almennt ætti að velja eini sólríkan stað en hann getur þó gert sér hálfskugga að góðu. Hann kann best við sig í frekar þurrum moldarjarðvegi en er annars ekki vandfýsinn á jarðveg. Einir er almennt mjög harðgerður og auðræktaður og þolir klippingu vel. Það eru helst þurrir vetrarvindar, saltrok og sól á útmánuðum sem skaðað geta plönturnar en draga má úr hættunni á tjóni með léttu vetrarskýli úr striga, timbri eða grenigreinum.

Flestar af þeim einitegundum, sem ræktaðar hafa verið hér á landi, eru lágvaxnar eða skriðular og fara þær vel í steinhæðir og sem kantplöntur í beðum. Einir fer vel innan um ýmsar lágvaxnar runnategundir bæði sígrænar og lauffellandi t.d. lágvaxnar og fíngerðar víðitegundir, dvergfuru, skriðmispil og ývið.

Einir (Juniperus communis) er íslensk tegund sem yfirleitt er mjög lágvaxin eða alveg skriðul. Tegundin getur orðið nokkurra metra há erlendis og hefur þá gjarnan keilulaga vaxtarlag. Nálarnar eru hvassar og stingandi og berköngullinn er blásvartur að lit. Íslenski einirinn er algengur í ræktun og eru ýmsar arfgerðir í umferð af báðum kynjum en ekki er um nein nafntoguð yrki að ræða.

Himalajaeinir (Juniperus squamata) hefur verið ræktaður hér á landi um áratuga skeið með góðum árangri. Nálarnar eru oftast hvassyddar og blágrænar á lit. Algengustu yrkin hér á landi eru ‘Meyeri' sem er hálf uppréttur með útsveigðar greinar, ‘Blue Star' sem er mjög smágerður og með þúfulaga vaxtarlag og ‘Blue Carpet' sem er alveg skriðull. Yrkin ‘Blue Swede', ‘Holger' og ‘Loderi' finnast líka hér á landi.

Sabínueinir (Juniperus sabina) hefur töluvert verið ræktaður hér á seinni árum og mætti vera víðar í rækt enda mjög fallegur og harðgerður. Hann er oftast flatvaxinn runni með grá-blágrænar barrnálar og er berköngullinn dökkblár að lit. 'Blue Danube‘ og 'Hicksii‘ eru líklega algengustu yrkin hérlendis.

Skriðeinir (Juniperus horizontalis) er enn sem komið er frekar fágætur hér en á örugglega eftir að verða algengari þegar fram líða stundir. Hann er oftast alveg skriðull með blágrænar, útstæðar nálar sem verða oft brúnleitar til fjólubláar á veturna. Yrkin ‘Búi', ‘Andorra compacta' og ‘Prince of Wales' finnast hér en hvaða yrki hentar best er fullsnemmt að segja til um á þessari stundu.

Kínaeinir (Juniperus chinensis) finnst allvíða hér á landi og er hann mjög breytilegur í vexti og í ýmsum litarafbrigðum. Tegundin getur náð allt að 20 m hæð í heimkynnum sínum en yrkin sem ræktuð eru hér eru öll smávaxin. Yrkin ‘Blaauw', ‘Old Gold', ‘Mint Julep' og ‘Blue Alps' hafa öll verið reynd hér á landi en óvíst hvað reynist harðgerðast.

Blýantseinir (Juniperus virginia) finnst hér á einstaka stað en óvíst er um árangur. Hann er súlulaga og verður stórvaxið tré í heimkynnum sínum. Yrkið ‘Blue Arrow' er til hér á landi.

Ýmsar einitegundir geta hentað vel í ker og potta og nota má einigreinar í jólaskraut með góðum árangri. Kransar úr einigreinum eru sérlega fallegir og halda sér vel og lengi.

Eflaust eiga fleiri einitegundir og yrki eftir að sanna sig við íslenskar aðstæður í framtíðinni en það verður tíminn að leiða í ljós. Allavega er af mörgu að taka því að tegundirnar eru margar og yrkin margbreytileg.

Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur