Oddur Guðjónsson f.v. sendiherra látinn ODDUR Guðjónsson, fyrrverandi sendiherra, lést í Landakotsspítala mánudaginn 17. júní síðastliðinn, 85 ára að aldri. Hann var fæddur í Reykjavík 28. janúar árið 1906.

Oddur Guðjónsson f.v. sendiherra látinn

ODDUR Guðjónsson, fyrrverandi sendiherra, lést í Landakotsspítala mánudaginn 17. júní síðastliðinn, 85 ára að aldri. Hann var fæddur í Reykjavík 28. janúar árið 1906.

Oddur stundaði háskólanám í Þýskalandi á árunum 1927-1934 og hlaut doktorsgráðu í hagfræði frá Christian Albrecht-háskólanum í Kiel.

Oddur var skrifstofustjóri Verslunarráðs Íslands 1934-1943. Hann var skipaður í viðskiptaráð árið 1943 og varð formaður ráðsins árið 1945. Oddur var forstjóri innflutningsskrifstofunnar 1953 en árið 1961 var hann settur ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu. Árið 1962 var hann skipaður viðskiptaráðunautur ríkisstjórnarinnar.

Oddur var varaformaður sendinefndar SÞ um viðskipti og þróunarmál í Genf árið 1964. Að tillögu utanríkisviðskiptaráðuneytisins í Prag var Oddur sæmdur gullmedalíu árið 1966 fyrir eflingu viðskipta við Tékkóslóvakíu. Oddur hlaut íslensku Fálkaorðuna 1959 en æðsta stig hennar, stórriddarakross með stjörnu, hlaut hann árið 1974.

Oddur var skipaður sendiherra í Sovétríkjunum 1968 og á sama tíma var hann skipaður sendiherra í Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjalandi. Hann var fyrsti sendiherra Íslands í Austur-Þýskalandi árið 1973. Árið 1974 var Oddur skipaður sendiherra í utanríkisþjónustunni í Reykjavík.

Eftirlifandi eiginkona Odds er Lieselotte Guðjónsson. Þau eignuðust þrjú börn, Maríu, Liselotte Franzisku og Þóri.

Oddur Guðjónsson