"Hugmyndin er ekki síður að veita innsýn í menningu og hugmyndaheim íslamska heimsins í gegnum listræna tjáningu einstaklinga," segir dr. Khaled Khreis, safnstjóri Konunglega fagurlistasafnsins í Jórdaníu, um sýninguna Milli goðsagnar og veruleik
"Hugmyndin er ekki síður að veita innsýn í menningu og hugmyndaheim íslamska heimsins í gegnum listræna tjáningu einstaklinga," segir dr. Khaled Khreis, safnstjóri Konunglega fagurlistasafnsins í Jórdaníu, um sýninguna Milli goðsagnar og veruleik
MYNDLISTARSÝNINGIN Milli goðsagnar og veruleika stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi um þessar mundir, en hún er hingað komin frá Konunglega fagurlistasafninu í Jórdaníu.

MYNDLISTARSÝNINGIN Milli goðsagnar og veruleika stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi um þessar mundir, en hún er hingað komin frá Konunglega fagurlistasafninu í Jórdaníu. Á sýningunni er veitt yfirlit yfir nútímamyndlist frá arabaheiminum og í tengslum við opnun hennar kom hingað til lands dr. Khaled Khreis, safnstjóri fagurlistasafnsins í Jórdaníu.

Khreis er menntaður myndlistarmaður, hann nam fyrst í Kaíró en síðar á Spáni þar sem hann var búsettur um margra ára skeið. Auk myndlistarmenntunarinnar lauk Khreis doktorsgráðu í listasögu við Háskólann í Barcelona. Hann tók við stjórn fagurlistasafnsins, Jordan National Gallery, fyrir ári og hefur verið önnum kafinn við reksturinn síðan. Sjálfur á Kreis verk á sýningunni Milli goðsagnar og veruleika, en segist þó lítinn tíma hafa til að sinna málverkinu samhliða safnstjórninni. "Fagurlistasafnið í Jórdaníu var stofnað árið 1980 og hefur eignast 1.800 listaverk eftir listamenn úr hinum gamla arabaheimi og þróunarlöndunum. Safnið hefur lagt mikla áherslu á sýningarhald utan Jórdaníu og er sýningarverkefnið í Reykjavík liður í því starfi," segir Khreis og bætir því við að safnið standi einnig fyrir sýningum í Jórdaníu er fengnar eru frá öðrum löndum.

Samskiptin við Ísland komust á í gegnum Hannes Sigurðsson, forstöðumann Listasafnsins á Akureyri, en sýningin Milli goðsagnar og veruleika var fyrst haldin þar í sumar.

"Við höfum lagt mikla áherslu á menningarlegt samstarf milli austurs og vesturs. Hugmyndin er ekki síður að veita innsýn í menningu og hugmyndaheim íslamska heimsins í gegnum listræna tjáningu einstaklinga. Eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september í fyrra hefur ímynd araba og múslima beðið mikinn hnekki í augum vestræna heimsins. Þá er oft dregin upp mjög neikvæð mynd af fólki frá þessum heimshluta í vestrænum fjölmiðlum og erum við að leitast við að snúa þessari þróun við með þessum samskiptum. Sýningin millli goðsagnar og veruleika veitir innsýn í hefð og samtímalegar skoðanir listamanna frá jafnólíkum löndum og Alsír, Egyptalandi, Írak, Jórdaníu, Kúveit, Líbanon, Marokkó, Palestínu, Sádi-Arabíu, Súdan, Túnis og Sameinuðu furstadæmunum. Um þessar mundir stendur jafnframt yfir sýning í Grikklandi úr safneign okkar er nefnist "Breaking the Veils" (Í gegnum blæjuna) og samanstendur af verkum íslamskra kvenna," segir Khreis.

Sýningin Milli goðsagnar og veruleika - nútímalist frá arabaheiminum telur 60 myndverk eftir 46 listamenn. Sýningin skiptist í tvo hluta sem endurspegla ákveðnar nálganir í arabískri myndist á því tímabili sem sýningin spannar, þ.e. frá 1950 til samtímans. Þannig er fjallað um úrvinnslu listamanna á arabísku skrautritunarhefðinni annars vegar og óhlutbundna málverkið hins vegar. "Skrautritunarhefðin er mjög sterk í arabískri menningu og hefur hún sett mark sitt á listsköpunina," segir Khreis. "En listamennirnir nálgast hefðina út frá ólíkum forsendum, hvort sem það er í trúarlegum skírskotunum eða formrænum efnum. Módernisminn í verkunum í hinum hluta sýningarinnar tengist vestrænum áhrifum, er bárust með listamönnum er höfðu sótt nám til Evrópu, Bandaríkjanna eða Rússlands og færðu áhrifin með sér inn í arabískan listheim. Þessi áhrif blönduðust auðvitað þeirri hefð sem var fyrir í menningunni, og fundu listamenn þar farveg til að tjá staðbundin hugðarefni í samhengi við hinn vestræna módernisma. En óhlutbundin tjáning á sér líka rótgróna hefð í íslamskri menningu. Hún tengist skrautrituninni og hinni lífrænu skreytihefð sem áberandi er í arabískum stíl."

Khaled segir margvíslega hugmyndafræðilega tjáningu birtast í verkunum á sýningunni. "Listin er mikilvæg pólitísk tjáningarleið fyrir marga unga listamenn í mörgum arabalöndunum til að gagnrýna ríkjandi ástand í eigin landi. Verk Lailu Shawa frá Palestínu er t.d. sterk tjáning á stöðu kvenna í íslamskri menningu. Um leið er listin mikilvægt tungumál til þess að fjalla um hið almenna og alþjóðlega og auka skilning fólks milli ólíkra menningarheima," segir Khreis að lokum.

heida@mbl.is