KONAN, sem ók bifreið sem lenti út í Hólmsá á Suðurlandsvegi á föstudag, hefur verið flutt á Landspítalann við Hringbraut þar sem hún fær viðeigandi meðferð en henni er haldið sofandi í öndunarvél.

KONAN, sem ók bifreið sem lenti út í Hólmsá á Suðurlandsvegi á föstudag, hefur verið flutt á Landspítalann við Hringbraut þar sem hún fær viðeigandi meðferð en henni er haldið sofandi í öndunarvél. Þriggja ára dóttir hennar sem var undir eftirliti á gjörgæsludeild er á góðum batavegi.

Vegfarendur á Suðurlandsvegi sýndu mikið snarræði og unnu þrekvirki þegar þeir skáru á öryggisbelti og björguðu fjölskyldunni út úr bifreiðinni. Fyrst náðu þeir börnunum þremur út og í þann mund sem þeim hafði tekist að losa konuna úr bílnum komu tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn úr fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík á vettvang og gátu veitt aðstoð.

Rannsókn heldur áfram

Að sögn Karls Steinars Valssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hélt vettvangsrannsókn slysarannsóknardeildar lögreglu áfram í gær.

Í apríl 2000 varð alvarlegt slys þegar bifreið valt yfir vegriðið og lenti á hvolfi ofan í Hólmsá. Meira var þá í ánni og fór bíllinn næstum á kaf. Kona á þrítugsaldri var allt að hálftíma í bifreiðinni áður en tókst að bjarga henni á þurrt.

Jónas Snæbjörnsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Reykjanesi, segir að vegagerðarmenn muni strax eftir helgi kanna aðstæður og leggja mat á hvort ástæður séu til úrbóta við brúna. Að hans sögn eru aðeins um þrjú ár síðan vegrið og brúarhandrið var sett þarna upp.