Í Morgunblaðinu í gær birtist bréf til blaðsins frá Þorbjörgu Gísladóttur. Í upphafi bréfsins segir bréfritari: "Nú þegar 1.

Í Morgunblaðinu í gær birtist bréf til blaðsins frá Þorbjörgu Gísladóttur. Í upphafi bréfsins segir bréfritari:

"Nú þegar 1. desember nálgast langar mig til að minnast með nokkrum orðum þess, sem gerðist hér varðandi sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar þennan mánaðardag árið 1918."

Þorbjörg Gísladóttir rekur í bréfi sínu atburði þessa dags og segir síðan: "Hátíðlegasta stund dagsins mun hafa verið, þegar íslenzki fáninn var dreginn að húni á stjórnarráðshúsinu. Ekki er þó talið að samkomugestir hafi tekið þessum atburðum með háværum fagnaðarlátum en mönnum hafi frekar þótt stundin alvöruþrungin. Kona, sem er fædd og upp alin í Reykjavík, hefur sagt mér að hún hafi fengið að fara með föður sínum á hátíðina, en hún var þá tólf ára gömul og man vel eftir því, sem gerðist þar. Hún sagði að með þeim hefði verið roskinn maður, sterklegur, og hefði hún séð, að honum vöknaði um augu og telur konan að mörgum viðstöddum muni hafa verið svipað innanbrjósts.

Ég hef rifjað upp þessi atriði til að minna okkur öll, og ekki sízt ungu kynslóðina, á að á þessu tímaskeiði hafi lokið deilu og verið gerðir samningar um úrslitaatriði í réttarstöðu Íslands gagnvart Danmörku. Deilu, sem staðið hafði nánast heila öld, þar sem ýmsir af beztu og merkustu sonum þjóðarinnar höfðu háð ævilanga baráttu án þess að tilsettu marki væri náð. Fyrr en við endanlega staðfestingu 17. júní 1944.

Það er skoðun mín að núverandi Íslendingum, ungum sem gömlum, væri sæmd að því að halda minninguna um þessa atburði meira í heiðri en nú er gert."

Þetta eru orð að sönnu og ástæða til að taka undir þessa ábendingu Þorbjargar Gísladóttur. Smátt og smátt hefur dofnað yfir hátíðahöldum 1. desember en það er full ástæða til að undirstrika ár hvert þýðingu þessa dags í sögu þjóðarinnar og þau þáttaskil, sem þá urðu í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Það verkefni hefur áratugum saman verið í höndum háskólastúdenta og ekki úr vegi að þeir endurskoði með hvaða hætti það hefur verið gert hin seinni ár.

En jafnframt er með bréfi Þorbjargar Gísladóttur gefið tilefni til að minna á, að eftir rúmt ár eru 100 ár liðin frá því að við Íslendingar fengum heimastjórn og Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, tók við embætti hinn 1. febrúar árið 1904.

Þeirra tímamóta verður að minnast með viðeigandi hætti og skal ekki dregið í efa að stjórnvöld hafi þegar hafið undirbúning að því. Jafnframt væri mjög við hæfi, að ljóð og önnur ritverk Hannesar Hafstein yrðu gefin út á ný af þessu tilefni til þess að yngri kynslóðir fái betra tækifæri til að kynnast þessum glæsta leiðtoga Íslendinga í upphafi síðustu aldar.

Töluvert hefur verið ritað um aldamótapólitíkina og ævisögur nokkurra þeirra manna, sem þá komu mest við sögu hafa komið út. Þegar ævisaga Hannesar Hafstein eftir Kristján Albertsson kom út fyrir um fjórum áratugum kviknuðu á ný lifandi og skemmtilegar umræður og deilur um aldamótapólitíkina og væri ekki úr vegi að vettvangur yrði skapaður að ári til þess að fræðimenn okkar samtíma gætu fjallað um sína sýn á þau stjórnmálaátök og þá einstaklinga, sem settu svip sinn á íslenzkt þjóðlíf á fyrstu árum 20. aldarinnar.

Þá má ekki gleyma því, að ekki er nema einn og hálfur áratugur þar til þess verður minnzt að 100 ár verða liðin frá því að Ísland fékk fullveldi hinn 1. desember árið 1918. Það er tímabært að hugað verði að því á hvern hátt þjóðin minnist þess þegar þar að kemur. Þótt margt hafi verið ritað um aðdraganda sambandslagasamninganna 1918 er þær heimildir að finna hér og þar. Tímabært er að undirbúa að heildarsaga þeirra verði rituð og gefin út hinn 1. desember 2018.