Hann er yfirlýstur mesta kvikindið í Hollywood, kaldhæðnastur og karlrembusvín hið mesta. En nú þegar Neil LaBute er búinn að gera "konumyndina" Possession, hafa erlendir blaðamenn velt fyrir sér hvort maðurinn sé virkilega eitthvað að mýkjast?

KALDHÆÐINN, bitur, kvikindislegur, illgjarn, mannhatari - allt eru þetta miður skemmtileg orð sem notuð hafa verið til greiningar á kvikmyndagerðarmanninum, handritshöfundinum og leikritaskáldinu Neil LaBute. En samt hafa þrjár af hans fjórum myndum verið álitnar gamanmyndir af sumum...karlmönnum reyndar.

LaBute fæddist í Detroit árið 1963 inn í heittrúaða mormónafjölskyldu. Ungur að árum fékk hann brennandi áhuga á leikhúsinu og nam leikhúsfræði og kvikmyndagerð. Í Royal Academy of London drakk hann í sig anda hinna "reiðu ungu manna" sem skóku breska leikhúmenningu á sjötta áratug síðustu aldar og velkjast menn ekki í vafa um að þá hafi hann brýnt brand sinn og tileinkað sé bresku kaldhæðni.

LaBute gat sér orð í kvikmyndaheiminum með fyrstu tveimur myndum sínum, myndum sem báðar afhjúpa, hvor á sinn hátt, af meiri og óþægilegri hreinskilni en áður viðhorf karlmanna til sambanda. In The Company of Men fjallar um tvo vinnufélagi - annar leikinn af góðvini LaBute , trúfélaga og samstarfsmanni til margra ára Aaron Eckhart í sínu fyrsta stóra hlutverk - sem ákveða sér til dægrarstyttingar að fara í keppni um hver eigi auðveldara með að vinna ástir ungrar heyrnarlausrar konu og kremja hjarta hennar svo jafnharðan. Þetta var fyrsta mynd LaBute, sem hann gerði 1997 eftir eigin leikverki fyrir skitnar 2 milljónir króna. Myndin kom sá og sigraði á Sundance það árið, olli geysilegu fjaðrafoki og var túlkuð á æði misjafna vegu, allt frá því að vera úthrópuð argasta karlremba yfir í að teljast ein djúpstæðasta stuðningsyfirlýsing karlmanns við femínismann. Hún gekk líka framar vonum í áhorfendur og tók inn í kassann tífaldan framleiðslukostnað.

Það þýddi að hann gat spanderað töluvert meiru í næstu mynd Your Friends & Neigbours sem kostað þó ekki "nema" 420 milljónir, litlir fjármunir á Hollywood-mælikvarða. LaBute tók þar á ekki síður eldfimu viðfangsefni, makaskiptum meðal ráðsettra úthverfishjóna. Enn hlaut mynd LaButes vegtyllur á hátíðum, lof gagnrýnenda og góðar viðtökur áhorfenda af sjálfstæðri mynd að vera og skipaði honum í röð virtustu leikstjóra sem starfa utan Hollywood-kerfisins.

Nurse Betty var ekki bara fyrsta Hollywood-myndin Neils LeBute heldur einnig sú fyrsta sem hann gerði ekki eftir eigin handriti. Myndin reyndist - fyrirsjáanlega - ekki nándar nærri eins kaldranaleg og hinar tvær, þótt svört væri hún af kómedíu að vera. Hún skartaði einvala liði leikara að vanda, Morgan Freeman, Renee Zellweger, Chris Rock og Greg Kinnear og enn og einu sinni Aaron Eckhart . Myndin var sú langdýrasta sem LaBute hafði gert, kostaði 2 milljarða, en fékk fínar viðtökur og skilaði vænum hagnaði.

Og víkur þar sögunni að nýjustu myndinni Possession með Gwyneth Paltrow og jú, enn einu sinni vininum, Aaron Eckhart . Hún fjallar um bandarískan fræðimann ( Eckhart ) sem finnur gömul ástarbréf, sem reynast bréfaskipti milli tveggja ljóðskálda sem uppi voru á viktoríska tímabilinu. Hann sekkur sér ofan í þetta stormasama ástarsamband, studdur enskum fræðimanni ( Paltrow ), þannig að úr verður stúdía á samböndum á ólíkum tímum. Myndin er klárlega gjörólík því sem LaBute hefur gert áður. Vörumerkið, kaldhæðnin, er hvergi finnanleg og hefur vikið fyrir einlægni og harðbrjósta efasemdamenn fyrir ástföngnum tilfinningaverum.

"Ég er er enginn níhilisti, ekki einu sinni bölsýnismaður. Ég er bara efahyggjumaður og ekkert annað."