[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í dag styrkir söngkonan Jóhanna Guðrún langveik börn með tvennum jólatónleikum í Austurbæ.

Tónleikarnir hefjast kl. 15 og 17, og ætlar Jóhanna Guðrún að syngja lög af nýútkomnum geisladiski sínum "Jól með Jóhönnu," en það er þriðji diskurinn hennar.

Kvíði alls ekki fyrir

- Eru þetta fyrstu tónleikarnir sem þú heldur ein?

"Þetta eru mínir fyrstu tónleikar. Ég hef reyndar oft komið fram og sungið nokkur lög, en aldrei verið með heila tónleika. Þetta leggst rosalega vel í mig og ég er bara mjög spennt. Ég kvíði alls ekki fyrir, ég reyni bara að gera mitt besta. Mér finnst alltaf jafngaman að syngja "live", og get ekki metið hvort er skemmtilegra að syngja í hljóðveri eða á tónleikum. Mér finnst hvort tveggja alveg jafnskemmtilegt."

- Hvernig var annars vinnan í hljóðverinu?

"Æðisleg. Að vera í hljóðveri er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri. Þó að ég sé orðin frekar vön því að syngja í stúdíói, finnst mér það alltaf jafn gaman, ég þreytist ekkert á því."

Flott gítarsóló

- Hvað lög á plötunni finnst þér skemmtilegust?

"Það eru sennilega Óskastund, Jólin eru að koma, Lítið barn í jötu lá og Jólalagið. Mér fannst mjög gaman að syngja Óskastund, það skemmtilegt, bæði hátíðlegt og það einhvern veginn geislar af þessu lagi.

En mér fannst erfiðast að syngja Einmana á jólanótt og Ó, helga nótt. Þetta eru lög með mikið af háum tónum, sem mér finnst erfiðastir en jafnframt skemmtilegastir."

- Fékk einhver í fjölskyldunni að velja lag á diskinn?

"Lög númer 1 og 4 eru lög sem fjölskyldan valdi í sameiningu. Þetta eru lög sem við þekkjum vel frá Danmörku, en þar fæddist ég. Og ætli ég sé ekki bara einna ánægðust með fyrsta lagið, Jólin eru að koma. Lagið er gott, textinn er fallegur og gítarsólóin mjög flott að mínu mati."

Hátíðlegir tónleikar

- Hafði þig lengi langað að gera jólaplötu?

"Já, ég er mikið jólabarn, þó að ég sé ekki enn farin að skreyta, en ég er hins vegar farin að spá í jólagjafainnkaupin. Annars er ég svo upptekin af tónleikunum núna. Ég er að vona að þeir verða hátíðlegir og að allir komist í jólaskap með mér. Ég er líka að syngja af og til, svona tvö til þrjú lög, til að kynna plötuna mína. Það er í Smáralindinni sem ég syng oftast."

- Áttu enn hundinn Hróka og hestinn Gerpi? Verða þeir með þér á jólunum?

"Ég á ennþá hundinn Hrók og hef eignast annan hund, enskan cocker spaniel, sem heitir Glódís. Hún er með mér á plötuumslaginu, og er mikil vinkona mín. Ég á enn hann Gerpi, og bíð eftir að hann komi í hús. Þá get ég farið að ríða út og skemmta mér á hestbaki. Öll dýrin verða hjá mér á jólunum nema Gerpir, sem verður í hesthúsinu. Ég lít til hans og gef honum væna tuggu á aðfangadag. En hundarnir eru mikið númer á jólunum. Þeir eru rosalega spenntir þegar þeir fá pakkana sína, sem yfirleitt eru eitthvert hundanammi. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér jólin án þeirra," segir Jóhanna Guðrún að lokum og vonast til að sjá sem flesta á tónleikunum í dag.