YFIRBORÐ Lagarfljóts var 22,99 metra hátt yfir sjávarmáli á hádegi í gærdag að því er fram kom á vefmæli Orkustofnunar. Vatnsborð fljótsins hefur ekki verið hærra frá því mælingar hófust en það fór hæst í 22,95 m í miklum flóðum í október sl. Vatn flæddi í gærdag víða yfir vegi. Vatn lá á Lagarfljótsbrúnni og þjóðvegurinn austan brúarinnar var hálfur á kafi og hamlaði það umferð. Auk þess voru skemmdir á vegum um allt Hérað og víðar á Austurlandi.
Áætlunarvél Flugfélags Íslands lenti á Egilsstaðaflugvelli skömmu fyrir hádegi í gær, þrátt fyrir að vatn væri komið tvo og hálfan metra inn á flugbrautina báðum megin. Farþegar voru fluttir með rútu upp að flugstöðinni þar sem flughlaðið fyrir framan bygginguna var á kafi.
Vegurinn sem liggur meðfram Leginum inn að Hallormsstað var lokaður því það flæddi yfir hann á um 50 metra kafla.
Lögreglan á Egilsstöðum sagði í gær að vegurinn til móts við bæinn Strönd inni í Fljótsdal væri einungis fær vel búnum jeppabifreiðum vegna vatnselgs.