Eiríkur Ágúst Sæland fæddist í Hafnarfirði 28. apríl 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 22. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Stígur Sveinson Sæland, lögregluþjónn í Hafnarfirði, f. 30.11. 1880, d. 21.4. 1974, og Sigríður Eiríksdóttir Sæland, ljósmóðir í Hafnarfirði, f. 12.8. 1889, d. 8.10. 1970. Systkini Eiríks eru: 1) Auður Helga, fyrrv. kaupmaður í Tjæreborg í Danmörku, f. 13.6. 1917, gift Harry August Herlufsen, rakarameistara og hljómlistarmanni, og eiga þau sjö börn; 2) Sólveig Guðfinna, húsmóðir í Hafnarfirði, f. 26.8. 1928, gift Einari Ingvarssyni, fyrrv. starfsmanni hjá Álverinu í Straumsvík, og eiga þau sjö börn; 3) Ragnheiður Pétursdóttir á Sléttu í Eyjafjarðarsveit, f. 21.12. 1921, gift Hreiðari Eiríkssyni garðyrkjubónda, d. 24.11. 1995, þau eiga sex börn.

Hinn 12.8. 1944 kvæntist Eiríkur eftirlifandi eiginkonu sinni, Huldu Gústavsdóttur Sæland húsfreyju, f. 24.12. 1926. Foreldrar hennar voru Gústav Sigurbjarnason, birgðavörður og símamaður í Reykjavík, f. 28.7. 1901, d. 25.10. 1971, og Klara Ólafía Benediktsdóttir, verkakona í Reykjavík, f. 31.7. 1905, d. 25.6. 1934. Börn Eiríks og Huldu eru: 1) Sigríður Sæland, íþróttakennari á Selfossi, f. 27.5. 1944, gift Árna Erlingssyni byggingameistara og kennara á Selfossi, þau eiga tvær dætur; 2) Gústaf Sæland, garðyrkjubóndi á Sólveigarstöðum í Biskupstungum, f. 7.12. 1945, kvæntur Elínu Ástu Skúladóttur garðyrkjubónda, þau eiga fjögur börn; 3) Stígur Sæland, garðyrkjubóndi á garðyrkjustöðinni Stóra-Fljóti í Biskupstungum, f. 19.8. 1949, hann á þrjá syni, sambýliskona hans er Kristín J. Arndal; 4) Klara Sæland, húsmóðir í Þjóðólfshaga í Rangárþingi ytra, f. 3.4. 1951, gift Haraldi B. Arngrímssyni trésmið og fangaverði, þau eiga tvo syni; 5) Sveinn Auðunn Sæland, garðyrkjubóndi á Espiflöt í Biskupstungum, f. 29.10. 1954, kvæntur Áslaugu Sveinbjarnardóttur garðyrkjubónda og eiga þau þrjú börn; 6) Eiríkur Ómar Sæland, blómakaupmaður í Vestmannaeyjum, f. 11.11. 1958, hann á tvö börn.

Eiríkur fæddist í Hafnarfirði og ólst þar upp. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskólanum, stundaði vélstjóranám hjá Fiskifélaginu og öðlaðist vélstjóraréttindi 1940, stundaði nám við Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi og lauk þaðan prófum 1943. Eiríkur var vélstjóri á Bolla frá Akranesi 1941, Guðbjörgu frá Hafnarfirði 1943-1944 og á Hvalfjarðarsíldinni 1947-1948.

Eiríkur var garðyrkjumaður hjá Sveini Björnssyni ríkisstjóra á Bessastöðum um tíma og kynntist þar eftirlifandi eiginkonu sinni, Huldu, sem þar var starfsstúlka. Á árunum 1945-1946 ráku þau garðyrkjustöðina á Nesjavöllum í Grafningi. 1. maí 1948 flytjast þau í Biskupstungur, kaupa spildu úr jörðinni Stóra-Fljóti og reisa þar garðyrkjubýli, sem þau nefndu Sjónarhól en nafninu var seinna breytt í Espiflöt. Þar bjuggu þau og störfuðu að garðyrkju til ársins 1998, þegar þau fluttu á Selfoss.

Eiríkur var alla tíð virkur í félagsmálum. Hann var formaður Ungmennafélags Biskupstungna 1959-1962 og bókasafnsvörður félagsins í fjölda ára. Hann var heiðursfélagi í Umf. Bisk. Eiríkur sat í stjórn Garðyrkjubændafélags uppsveita Árnessýslu 1962-1972, þar af formaður í fimm ár. Hann var formaður Sambands garðyrkjubænda 1967-1969. Einnig sat hann í stjórn Sölufélags garðyrkjumanna um skeið. Um skeið var hann umboðsmaður Happdrætta DAS og SÍBS, en lengst af hafði hann Happdrætti Háskóla Íslands með höndum, alls um 25 ár.

Útför Eiríks verður gerð frá Selfosskirkju á morgun, mánudaginn 2. desember, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Svo er um ævi öldungamanna sem um sumar - sól fram runna; hníga þeir á haustkvöldi hérvistardags hóglega og blíðlega fyrir hafsbrún dauðans. Gráti því hér enginn göfugan föður harmi því hér enginn höfðingja liðinn; fagur var hans lífsdagur, en fegri er upp runninn dýrðardagur hans hjá drottni lifanda. (Jónas Hallgrímsson.)

Elsku pabbi. Nú ert þú farinn frá okkur yfir móðuna miklu. Þegar ég lit til baka er margt sem kemur upp í hugann.

Ég minnist þess er ég var 13 ára og þú varst að endurnýja gróðurhús heima á Espiflöt, ég var að snúast í kringum þig og reyna að hjálpa til eftir mætti. Þetta var að vetri til og eldri systkinin að heiman í skóla. Þú leiðbeindir mér og sagðir mér til.

Svo liðu árin. Við vorum 6 systkinin og það þurfti að stækka búgarðinn. Upp úr 1970 var eitt gróðurhúsið byggt af öðru og alltaf var verið að. Þú varst svo áhugasamur og krafturinn svo mikill að oft hélt maður að þú værir kominn fram úr sjálfum þér.

Um svipað leyti fór tæknin að halda innreið sína í íslensk gróðurhús, sjálfvirkir gluggar og hitastýring. Ætíð varst þú fyrstur garðyrkjumanna að prófa nýja tækni og notfæra þér nýjungar. Þú varst brautryðjandi í lýsingu gróðurhúsa og byrjaðir fyrstur allra garðyrkjumanna á Íslandi að rækta við lýsingu og gjörlýstir gróðurhúsin. Þú varst fyrstur í stéttinni að rækta jólastjörnur. Þú varst hugmyndaríkur og óhræddur að taka áhættur. Fyrsta árið varstu með 160 jólastjörnur og jókst ræktunina milli ára. Nú í dag eru ræktaðar 60.000 jólastjörnur hér á landi. Einnig byrjaðir þú að rækta brúðarslör og ég gæti nefnt miklu fleira. Þú varst framsýnn og sífrjór í hugsun.

Þú gerðir Espiflötina að stóru og myndarlegu garðyrkjubýli, svo myndarlegu að þú og mamma fenguð viðurkenningar fyrir garðyrkjustöðina ykkar og skrúðgarðinn. Á Espiflöt störfuðuð þú og mamma í 50 ár.

Ákveðið var að gera Espiflötina að félagsbúi 1975, tókst þú Svein bróður minn og mig inn sem sameigendur. Hélst það fyrirkomulag þar til um áramót 87/88. Þá var félagsbúinu skipt og ég fékk minn hluta úr því en þú og Sveinn voruð áfram með búið á Espiflöt þar til þú og mamma fluttuð á Selfoss 1998.

Ég var svo lánsamur að ég gat fylgt þér í starfi frá því að ég var unglingur og fram að 38 ára aldri. Það var góður skóli. Þú mótaðir framtíð mína sem garðyrkjumanns.

Elsku pabbi minn, takk fyrir allt sem þú gafst mér í veganesti. Ég mun varðveita dýrmætar minningar um þig í mínu hjarta. Guð geymi þig.

Þinn sonur

Stígur.

Elsku afi, það er mér þungt í hjarta að þú sért farinn. En mig langar að minnast þín með fáeinum orðum.

Afi var hæglátur og góður maður, hann var líka mjög ættrækinn og var hann stoltur af ætt sinni. Það var alltaf mikið áhugamál hjá honum að vita hvað hver og einn afkomandi hans væri að læra. Afi var mjög fróður maður og hafði hann gaman af því að fræða okkur systkinin um heima og geima.

Þegar ég lít til baka koma ótal margar góðar minniningar upp í kollinn. Eins og þegar þú varst að hjálpa mér við frímerkjasafnið mitt. Og þegar þú kenndir mér að raka hey í fyrsta sinn. Þetta voru góðir tímar, já þú kenndir mér margt nytsamlegt. Þú lést heldur ekki neinn vaða yfir þig og þú vissir alltaf hvað þú söngst. Alltaf þegar ég reyndi að rökræða við þig hafðir þú alltaf rétt fyrir þér. Þú hafðir líka alltaf rétt fyrir þér þótt þú hefðir rangt fyrir þér. Svona minningar gleymast aldrei. Ég er mjög stoltur að hafa átt þig sem afa og gleymi ég þér aldrei.

Þinn sonarsonur

Ívar Sæland.

Elskulegur afi okkar er dáinn. Margar góðar minningar eigum við um hann, alltaf var jafn gaman að koma í sveitina til ömmu og afa og móttökurnar eins og við værum drottningar - allt gert fyrir okkur og við máttum gera allt. Háaloftið sérstaklega spennandi, fullt af gömlum fötum og dóti, og eftir góðan tíma kom afa í stigaopið og spurði: Eruð þið nokkuð að rusla til fyrir ömmu ykkar?

Seinna þegar vitið var orðið meira fengum við vinnu hjá afa í gróðurhúsunum og þá var eins gott að standa sig, því þar vildi afi ekki hafa neinn rolugang og lét heyra í sér ef honum mislíkaði vinnubrögðin en mikið lærðum við um blómin, grænmeti og lífið allt hjá honum og ömmu í sveitinni. Okkur langar að láta þessar ljóðlínur fylga með, sem segja allt um hug okkar systra.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Elsku amma, við hugsum mikið til þín og þú veist af okkur í nágrenninu, megi góður guð styðja þig og styrkja á erfiðum stundum.

Þínar ömmustelpur

Hulda og Rannveig.

Svo er um ævi

öldungamanna

sem um sumar -

sól fram runna;

hníga þeir á haustkvöldi

hérvistardags

hóglega og blíðlega

fyrir hafsbrún dauðans.

Gráti því hér enginn

göfugan föður

harmi því hér enginn

höfðingja liðinn;

fagur var hans lífsdagur,

en fegri er upp runninn

dýrðardagur hans

hjá drottni lifanda.

(Jónas Hallgrímsson.)

Sólin kom upp, teygði sig í allar áttir og teygði sig inn til afa. Hún sagði "Eiríkur, í dag er þinn dagur". Afi sagði "nei lof mér að vera lengur".

Afi barðist áfram eins og honum var lagið, þrjóskaðist og stóð fastur á sínu. Hvergi var ský á himnum og fallegri dag hefði varla verið hægt að panta í lok nóvember. Sólin hélt áfram að príla upp á himininn og sagði um hádegisbilið "Eiríkur! Þú veist að ég á að taka þig með mér í dag!" Afi sagði "nei lof mér að vera aðeins lengur, það eru svo margir að koma"! Ég fann þetta svo á mér og ég flýtti mér til hans. Sólin reyndi að tefja mig á heiðinni og skein í augun á mér. Á Kambabrún horfði ég á sólina teygja sig utan af hafi og ég sá að hún var bara að bíða eftir afa. Hún hékk á hádeginu úti fyrir Eyrarbakka og kallaði í þriðja sinn. "Eiríkur! Ætlarðu ekki að fara að koma?" Afi sagði aftur nei. Loksins þegar ég kom settist ég við hliðina á afa, þorði ekki strax að setjast fyrir framan hann, ég sat fyrir aftan hann og hélt í hann. Síðan vann ég í mig þor og gekk framfyrir rúmstokkinn og leit í augun á þessum mikla manni.

Afi barðist fyrir hverjum andardrætti og aftur sagði sólin í gegnum gluggann "Eiríkur, ég er að bíða eftir þér, þín er vænst annars staðar í dag". Í augunum hans afa var mér ljóst að hann heyrði vel í sólinni og vissi hvað var í vændum. En afi, af því að hann er eins og hann er, sagði við sólina "ég er að deyja! Ekki þú! Ég dey þegar mér hentar". Ég hélt í höndina á afa, horfði á fjölskylduna okkar sem stóð allt í kring og við hugsuðum öll til hinna sem voru komin til okkar í huganum. Hvergi ský á himni! Hurðin til himna stóð opin upp á gátt.

Afi minn var þrjóskur og fylginn sér, harður í horn að taka og mikill baráttumaður. Þess vegna átti sólin fullt í fangi þennan dag. En hann gat nú samt aldrei alveg falið ljúflinginn sem hann var inn við beinið. Ég gleymi því aldrei þegar ég var lítill strákur í sveitinni uppi á Espó. Ég lá á dýnunni við hliðina á rúminu hans og ömmu og afi las fyrir ömmu, framhaldssöguna úr Vikunni, þangað til amma sofnaði. Ég skildi ekki söguna en ég skildi það að afi elskaði ömmu. Hann var duglegur! Af honum lærði ég að þeir uppskera einir, sem einhverju sá.

Sólin var farin að síga og hún sagði aftur þreytulega en ákveðin "Eiríkur..." "já ég veit" sagði afi, "ég er alveg að koma". Síðustu gestirnir komu í flýti inn úr hversdagsamstrinu og settust í kringum afa og allir hinir sem áttu ekki heimangengt voru komnir í huganum til hans og sátu með okkur allt í kringum rúmið. Afi var of veikur til að tala. Við hin, sem hefðum getað talað, fundum engin orð. Svo við þögðum bara og héldum í hann og hvert utan um annað.

Sólin var nú komin vestur að Þorlákshöfn og klukkan farin að síga í fimm. Þá kom síðasta kallið og afa var ljóst að það var annaðhvort að fara í dag með sólinni eða taka áhættuna á því að það yrði aftur sól á morgun. En það spáði rigningu og hver vill ferðast í rigningu? Afi var búinn að vera veikur lengi og vildi ekki ferðast í rigningu. Hann gat sig hvergi hreyft en leit í huganum yfir herbergið og sleppti takinu. Á sama augnablikinu lagðist sólin niður í hafið úti fyrir Selvoginum. Sólin var farin með afa. Það var gott að afi fór með sólinni, rigningin er ekki spennandi ferðafélagi.

Við grétum öll aðeins, en kannski mest yfir því að hann kvaldist ekki lengur. Það tók örugglega gott fólk á móti honum; Benjamín frændi, Stígur langafi með tóbaksdósina og fleiri. Þeir munu örugglega halda áfram að rökræða það rauða og það bláa og halda áfram að vera ósammála. Afi ber þeim vonandi kveðju mína. Ég kem þegar ég kem, en þangað til lít ég eftir ömmu og mömmu. Það var leiðinlegt að við náðum aldrei að tefla á skákborðinu sem ég gaf honum þegar ég kom frá Taílandi í haust, en hver veit nema við náum því næst þegar við hittumst.

Svona upplifði ég 22. nóvember, daginn sem afi dó, alveg eins og í sögu!

Einar Bárðarson.

Marga dagana hef ég flýtt mér að klára heimavinnuna svo ég geti heimsótt langafa og langömmu og vildi ég alltaf stoppa lengi. Langafi fór út í búð eftir góðgæti handa mér og búin var til veisla fyrir mig, sem mér fannst oft klárast of fljótt þótt hún væri búin að vera allan daginn. Alltaf gat ég horft á myndbandi á það sem mig langaði að sjá og langafi las blöðin á meðan, sem ég hafði komið með til hans.

Elsku langamma, ég ætla að vera duglegur að heimsækja þig áfram.

Þinn

Böðvar Dór.

Vorið 1948 fluttu í Biskupstungur ung hjón ásamt börnum sínum, þau Eiríkur Sæland sem ráðinn var garðyrkjumaður að Stóra-Fljóti og kona hans Hulda Sæland og börn þeirra Sigríður og Gústaf. Þá hófust kynni mín af þessari fjölskyldu sem stækkaði með árunum og eru nú orðnir margir afkomendur þeirra hjóna. Árið eftir hófst bygging gróðrarstöðvarinnar Espiflatar þar sem þau áttu heima um fimmtíu ára bil.

Ég var svo lánsamur að fá að vinna við byggingar og svo rekstur oft þegar þurfti með. Þá kynntist ég Eiríki mjög vel og tel hann hafa verið einn af mínum bestu vinum. Eiríkur var framsækinn garðyrkjumaður og skilaði sínu dagsverki vel. Eiríkur var mikill bókamaður, víðlesinn og hafði gaman af að tala um bækur. Marga góða bókina fékk ég lánaða hjá honum fyrir daga sjónvarpsins. Þá vorum við saman í Bridgeklúbbi nokkur ár sem eru ógleymanleg.

Eiríkur var formaður Ungmennafélags Biskupstungna um árabil og var drífandi stjórnandi í íþróttum og leikstarfsemi. Sá allra besti hvíslari sem við höfðum á þessum góðu árum. Þá sá hann um bókasafn félagsins um árabil og bókakaup. Eiríkur var heiðursfélagi Ungmennafélags Biskupstungna. Ég sakna góðs vinar og samferðamanns í rúmlega hálfa öld með þökk fyrir margar góðar samverustundir. Mestur er samt söknuður konu hans og barna. Guð styrki aðstandendur alla á sorgarstundu. Vertu sæll vinur og góða ferð.

Sigurjón Kristinsson.

Stígur.