5. desember 2002 | Viðskiptablað | 720 orð

Spáð í spilin

"Áhættufjárfestingu er hægt að skilgreina sem kaup eða sölu á verðbréfum eða hráefnum með væntingar um hagnað vegna breytin

VERÐFALL á gengi hlutabréfa og kreppan sem reið yfir árin 1929 til 1933 höfðu mikil áhrif á viðhorf manna til fjárfestinga.
VERÐFALL á gengi hlutabréfa og kreppan sem reið yfir árin 1929 til 1933 höfðu mikil áhrif á viðhorf manna til fjárfestinga. Þetta kemur ekki á óvart í ljósi þess að Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði um tæp 90% á tímabilinu og mörg fyrirtæki urðu gjaldþrota. Markverðar bækur varðandi fjárfestingar sem ritaðar voru næstu áratugina báru keim af reynslu höfunda af þessu erfiða tímabili en hugmyndir sem komu fram í slíkum ritum endurspeglast enn í dag í fjárfestingastefnum helstu fjárfesta heims. Má þar nefna höfunda eins og Gerald M. Loeb sem lagði áherslu á að takmarka tap í hlutabréfafjárfestingum, Philip A. Fisher sem einblíndi á eigindlega (qualitative) þætti fyrirtækja og síðast en ekki síst Benjamin Graham sem fjallaði meira um megindlega (quantitative) þætti fjárfestinga.

Annar höfundur sem umrætt tímabil hafði mikil áhrif á var Philip L. Carret, stofnandi Pioneer-verðbréfasjóðanna. Bók hans, The Art of Speculation, kom út skömmu eftir hrunið árið 1930. Carret er dáður m.a. af Warren Buffett, þekktasta fjárfesti í dag, enda hefur Buffett í gegnum tíðina fjárfest hluta sinna auðæfa í óskráðum félögum, en samkvæmt Carret eru slíkar fjárfestingar skynsamur kostur sem hluti af vel dreifðu fjárfestingarsafni. Bókin er að mörgu leyti undanfari þess sem Graham og Fisher síðar skrifuðu, enda fjallar Carret um flestöll þau atriði sem Graham og Fisher lögðu áherslu á. Bók Carret er áhugaverð að því leyti að hún gefur lesandanum tilfinningu fyrir sögulegri þróun og mótun hugmynda sem eru enn í dag mikilvægar hvað varðar fjárfestingar. Ástæðan fyrir því að Carret er ekki eins vel þekktur og aðrir ofangreindir aðilar er líklegast sú staðreynd að þessi bók hans er tormelt og á tíðum leiðinleg aflestrar. Fyrstu fjórir kaflarnir fjalla um afar almenna hluti varðandi fjárfestingar sem hafa lítið gildi fyrir þá sem á annað borð hafa þekkingu til að meta það sem á eftir kemur. Carret fjallar mikið um atvinnugeira sem voru þá í hvað mestum vexti en eru í dag að dragast saman, t.d. námuvinnsla. Að vissu leyti má segja að bókin sjálf sé eins og námuvinnsla, það felast vissulega í henni gullmolar en það þarf að leita vel til að finna þá. Titillinn The Art of Speculation er að mörgu leyti villandi um innihald bókarinnar. Carret sýnir fram á að ákveðin áhætta fylgir öllum fjárfestingum, hvort sem um er að ræða fjárfestingar sem flokkast undir áhættufjárfestingar eða fjárfestingar í stöndugum fyrirtækjum, sem hann ver mestum hluta bókarinnar í að fjalla um. Hlutabréf sem gætu í sjálfu sér verið vænlegur fjárfestingarkostur eru að öllum líkindum slæmur kostur ef markaðurinn í heild er dýr. Slíkt kemur að sjálfsögðu aldrei í ljós fyrr en eftir á en Carret sýnir með rökum og út frá sögulegu sjónarhorni hvenær gengi hlutabréfa er almennt orðið of hátt. Helstu vísbendingarnar eru vaxtastig skammtímavaxta og ríkjandi bjartsýni eða svartsýni um framtíðarhorfur. Skammtímavextir hækkuðu t.d. jafnt og þétt í eitt ár í Bandaríkjunum samhliða aukinni bjartsýni frá 1999 til miðbik ársins 2000 þegar gengi hlutabréfa hækkaði sem skarpast. Nú, þegar svartsýni er allsráðandi og skammtímavextir eru í lægstu mörkum er lag, samkvæmt Carret, að fjárfesta í hlutabréfum.

Í umfjölluninni um atvinnugeira er að finna áhugaverðar athuganir, m.a. að ákveðnir geirar og fyrirtæki hækka ekki nauðsynlega þó að markaðurinn í heild geri slíkt. Til að umræðan sé sambærileg við samtímann þarf lesandinn að geta yfirfært upplýsingar um fyrirtæki sem sérhæfa sig t.d. í olíuborunum yfir á örgjörvaframleiðendur, sem þurfa að leggja mikinn pening í fjárfestingar og rannsóknir sem óvíst er að skili sér og hafa takmarkaðan líftíma. Til að geta talist arðbær fjárfestingarkostur þarf fyrirtæki að vera í vaxtargeira, með góða stjórnendur, sterka eiginfjárstöðu og vera fremst á sínu sviði. Slík speki hefði bent til þess að Intel væri arðvænlegur fjárfestingarkostur fyrir 10-15 árum en í dag væri fjárfestir með slíkt leiðarljós væntanlega síður tilbúinn til að fjárfesta í fyrirtækinu, nema hann telji það fyrirséð að núverandi samdráttur verði aðeins tímabundinn.

Í lok bókarinnar kemur Carret fram með 12 boðorð fyrir fjárfesta. Þau hafa komið fram í mörgum myndum síðar en boðskapur þeirra er svipaður stefnu bókarinnar í heild, varkárni, íhuguð áhættusækni og þolinmæði í fjárfestingum veitir að jafnaði stöðuga ávöxtun. Haft hefur verið eftir Buffett að hann þekki engan með jafngóðan árangur í fjárfestingum til lengri tíma og Carret. Það eitt gerir það þess virði að grafa upp gullmola í speki hans sem skráðir eru í The Art of Speculation.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.