"Auðnir hálendisins fá hér eftir sem hingað til að vera í friði fyrir okkur skógræktarmönnum."

Í MORGUNBLAÐINU 9. nóvember sl. birtist miðopnugrein eftir Roni Horn myndlistarmann undir heitinu Ísland glatað - til varnar veðrun. Þar er að finna skoðanir einstaklings á íslensku landslagi. Öll mótum við skoðanir okkar út frá einhverri heimsmynd og er mín greinilega talsvert öðruvísi en heimsmynd Roni Horn.

Roni Horn upplifir landslag sem listaverk, finnur víða "jafnvægi" og "fullkomna rúmfræði veðrunar" og upplifir samspil frostlyftingar og jarðvegsrofs sem "fyllilega jafnfætis bestu verkfræði hvað jafnvægi og margslungið eðli varðar". Sögulegum staðreyndum er hafnað. Skilningur á eðli jarðvegsrofs og orsökum og afleiðingum skógleysis skiptir ekki máli. Landnýting kemur málinu ekki við. Heilsteypt og heilbrigt vistkerfi, hvað er nú það? Nei, listræn upplifun líðandi stundar er það eina sem gildir og eyðimerkurdýrkunin í algleymingi.

Í þessum hugarheimi skipta fyrri athafnir mannsins ekki máli. Eyðing skóga gerði ekki annað en að skapa það dásamlega útsýni sem við búum við í dag. Jarðvegsrof sem skógleysið leiddi af sér flokkast bara með annarri "veðrun" og er því af hinu góða.

Athafnir mannsins á líðandi stundu skipta hins vegar miklu máli. "Veðrun verður að vernda fyrir mannlegum afskiptum... með það fyrir augum að viðhalda tilgerðarlausu útsýni sem og sjónrænni heild landslagsins," ritar Roni Horn. Sé litið á landslag sem listaverk er þessi skoðun eðlileg. Allar aðgerðir mannsins sem hafa breytingar á landslagi í för með sér hljóta að rýra það. Þú bætir ekki málverk eftir Picasso með því að krota á það (krot þitt er jú langt frá því að vera eins merkilegt og krot hans).

Og skógrækt er ekki undanskilin. Rétt eins og veggspjald með mynd af Mónu Lísu er verðlaus eftirlíking af upprunalega málverkinu eftir da Vinci er ræktaður skógur verðlaus eftirlíking af alvöru skógi. Og takið eftir að hér er það allt í einu ekki upplifunin sem skiptir máli, heldur þekking á uppruna. Eftirlíkingin af Mónu getur litið alveg eins út og hin upprunalega, en hún hefur ekkert gildi af því að hún er bara búin til af ómerkilegum prentara. Það var bara ómerkilegur skógræktarmaður sem gróðursetti tré með jöfnu millibili, og þar með hefur sá skógur ekkert gildi, rýrir bara hið "upprunalega" landslag.

Í þessu felst tvískinnungur. Annars vegar er hið rofna íslenska landslag dásamað út frá stundarupplifun og þar skiptir uppruni ekki máli. Hins vegar er ræktaður skógur "smekklaus eftirlíking af náttúrunni" þar sem uppruni skiptir öllu máli. Staðreyndin er sú að hin opna og skóglausa ásýnd landsins, a.m.k. á láglendi, og ræktaðir skógar eru hvort tveggja mannanna verk.

Roni Horn fjallar síðan um ræktunaráhuga Íslendinga, segir hann byggðan á misskilningi, að sveitasæla sé rómantísk hugmynd sem "...hefur aldrei átt við um Ísland", og að viðleitni Íslendinga til að gera umhverfi sitt búsældarlegra sé "brjóstumkennanleg og afar truflandi". Þvílíkur hroki! Í einni málsgrein er öll sú vinna sem þorri landsmanna hefur lagt á sig undanfarna áratugi til að gera umhverfi híbýla sinna hlýlegra með skóg- og trjárækt afgreidd sem sandkassaleikur villuráfandi óvita.

Fjall er ekki listaverk. Fjall er fjall. Ég get á engan hátt fellt mig við að hugsa um náttúruna á sama hátt og ég hugsa um listaverk. Til þess er náttúran of mikilvæg. Að upplifa náttúruna sem listaverk er lítilsvirðing við hana.

Þegar upp er staðið hefur Roni Horn ekki annað til málanna að leggja en að henni finnst auðnir flottar en ekki ræktaðir skógar. Gott og vel. Mér finnst ræktaðir skógar flottir en ekki auðnir.

Reyndar er þetta ekki spurning um annaðhvort eða. Roni Horn bendir okkur sem "erum fylgjandi kerfisbundinni trjárækt um allt land" á nokkra staði sem væntanlega er tæplega hægt að betrumbæta með skógrækt; "Sprengisand, Eldgjá, Laka, Veiðivötn, Barðaströnd, Öskju". Þessi listi sýnir ágætlega hversu fjarlægar skoðanir hennar eru raunveruleikanum. Fyrir utan Barðaströnd eru allir þessir staðir á hálendinu, þar sem skógrækt kemur ekki til greina.

Skógrækt, sem önnur ræktun, fylgir byggð. Auðnir hálendisins fá hér eftir sem hingað til að vera í friði fyrir okkur skógræktarmönnum. Það er óþarfi fyrir Roni Horn að vernda jarðvegsrofið, það mun áfram geisa á hundrað sinnum stærra svæði en skógrækt er stunduð á.

Eftir Þröst Eysteinsson

Höfundur er fagmálastjóri Skógræktar ríkisins.