BERGSVEINN Bergsveinsson, aðstoðarþjálfari FH og fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handknattleik, telur að staða íslenska landsliðsins sé nokkuð góð eftir tvo fyrri leikina gegn Slóvenum. Bergsveinn sagði við Morgunblaðið í gær að sóknarleikur liðsins hefði komið sér skemmtilega á óvart.

Mér finnst liðið standa þokkalega að vígi, miðað við hve stutt það hefur verið saman; aðeins í tvo daga fyrir þessa leiki við Slóvena. Það voru vissir veikleikar í vörninni, fyrst og fremst vegna þess að þar vantaði Sigfús Sigurðsson sem batt hana saman á EM í fyrra. Þegar hann verður kominn af stað á ný tel ég að ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af varnarleiknum.

Guðjón Valur einn besti hornamaður heims

Hraðaupphlaupin, sem voru aðal liðsins í Svíþjóð í fyrra, eru áfram til staðar og hafa fengið nýja vídd með Roland Eradze, markverði. Þar með er liðið með tvær skæðar útfærslur; þar sem boltinn fer til Ólafs og síðan áfram, og þar sem Roland sendir hann beint fram. Það eru sendingar sem oft hefur vantað, enda fáir markverðir sem gera þetta vel. Slíkar sendingar eru góður kostur og gefa ódýr mörk."

"Það kom mér á óvart hve góður sóknarleikurinn var í þessum leikjum og það var eiginlega ótrúlegt hversu smurt hann gekk á köflum. Það var sérstaklega gaman að sjá Guðjón Val spila, hann hefur tekið gífurlegum framförum og ég tel að hann sé kominn í hóp bestu hornamanna heims. Róbert nýtti tækifærið á línunni mjög vel, fékk mikið af sendingum og það virtust allir geta gefið á hann sem sýnir breidd í sóknarleiknum. Eins var ánægjulegt að sjá til Sigurðar Bjarnasonar í síðari leiknum þegar hann kom í sóknina fyrir Dag."

Helsti gallinn á sóknarleiknum, að mati Bergsveins, var hve lítið Einar Örn fékk að gera í hægra horninu. "Nú vantaði gólfsendingarnar frá Ólafi sem gáfu svo góða raun á EM. Ólafur sendi mun meira inn á miðjuna í þessum leikjum og Einar fékk úr litlu að moða."

Bergsveinn sagði að vissulega þyrfti að huga að skyttustöðunni vinstra megin en þar væru þó ýmsir kostir í boði. "Ég vildi sjá Loga Geirsson prófaðan betur þeim megin. Hann býr yfir miklum hraða, djúpum "fintum" og alls konar skotum og það væri fróðlegt að sjá hvað hann gæti gert gegn sterkum liðum."

Áhætta að kalla á Duranona

Hann er ekki viss um hvort rétt sé að kalla Róbert Julian Duranona inn í hópinn. "Ég hef ekki séð Duranona spila í tvö ár og hann hefur aðeins spilað tvo leiki í vetur, þar sem hann stóð sig reyndar mjög vel. En fyrst hann er ekki kominn, verður stöðugt meiri áhætta að kalla í hann eftir því sem nær dregur mótinu."

Bergsveinn telur að liðið sé vel mannað af markvörðum. "Guðmundur var mjög góður í fyrri hálfleik í Höllinni, en annars er ekki alveg að marka frammistöðu markvarðanna í þessum leikjum vegna þess hve varnarleikurinn var misjafn. Miðað við hvernig Roland ver með Val er hann liðinu mikill styrkur. Það er þó eftir að reyna betur á hvað hann getur í alþjóðlegri keppni, þar þurfa markverðir að lesa leikinn mjög vel og vera útsjónarsamir. Roland hefur þá hæfileika, hann er mjög klókur, og ég tel að við séum í dag með góða blöndu af markvörðum. Við megum heldur ekki gleyma Birki Ívari sem getur hæglega leyst hina tvo af hólmi," sagði Bergsveinn.

Eftir Víði Sigurðsson