VÍSITALA neysluverðs síðastliðna 12 mánuði hefur hækkað um 2%. Húsnæðisliðurinn vegur þar þungt því ef skoðuð er vísitala neysluverðs án húsnæðis sést að hækkunin er 1% á tímabilinu.

VÍSITALA neysluverðs síðastliðna 12 mánuði hefur hækkað um 2%. Húsnæðisliðurinn vegur þar þungt því ef skoðuð er vísitala neysluverðs án húsnæðis sést að hækkunin er 1% á tímabilinu. Liðurinn "matur og

drykkjarvörur" sem vegur rúmlega 16% af vísitölu neysluverð hefur lækkað á þessu tímabili. Að sögn Sigurðar Víðissonar, hagfræðings hjá ASÍ, er skýringanna að leita í þremur meginþáttum. Krónan hefur styrkst en gengisvísitalan síðustu tólf mánuði hefur lækkað í kringum 13%. Þá hafi tollar á mörgum grænmetistegundum verið lækkaðir og í sumum tilfellum felldir niður. Einnig hefur samkeppni aukist víða á markaðnum.

Tollabreytingar hafa skilað sér til neytenda

Mesta lækkunin hefur orðið á grænmeti og ávöxtum. Lækkunin á grænmeti skýrist af tvennu, annars vegar þeim tollabreytingum sem hið opinbera gerði og hins vegar meiri samkeppni. "ASÍ hefur lagt mikla áherslu á að fylgja því eftir og ganga úr skugga um það að þessar tollbreytingar skili sér í samsvarandi lækkun grænmetisverðs til neytenda. Tölurnar sýna að sú hefur orðið raunin. Þetta kom meðal annars fram í könnun í október sem ASÍ stóð fyrir ásamt Manneldisráði. Þar sem borið var saman verð á annars vegar matarkörfu sem hinn almenni Íslendingur neytir samkvæmt neyslukönnunum og hins vegar verð matarkörfu sem er samkvæmt ráðleggingum Manneldisráðs. Í hollustukörfu Manneldisráðs vega grænmeti og ávextir hlutfallslega þyngra en í almennu körfunni og því hefur verðlækkun á þessum vörum mikil áhrif þar. Niðurstaðan úr könnuninni er sú að hollustukarfan er ódýrari en meðalkarfan og hefur munurinn aukist hlutfallslega milli ára," segir Sigurður.

Engar tollabreytingar voru gerðar á ávöxtum samt lækka þeir mjög mikið á tímabilinu. Segir Sigurður það skýrast fyrst og fremst af samkeppnisáhrifum.

Fiskur að lækka aftur

"Lækkun á kjöti á tímabilinu má rekja til mikils framboðs á kjöti. Samkeppni hefur ekki aðeins verið á smásölumarkaðnum heldur hefur hún aukist einnig hjá framleiðendum. Verð á kjötafurðum hefur því lækkað nokkuð síðustu þrjá mánuði."

Brauð hefur einnig lækkað í verði á tímabilinu og segir Sigurður það skýrast helst af styrkingu krónunnar, þ.e. að innflutt efni í brauðin hafa lækkað.

"Það vekur furðu að af þessum helstu liðum matvörunnar sem skoðaðir eru hér er fiskurinn eini liðurinn sem hefur hækkað á tímabilinu," segir hann. "Erfitt er að finna einhverja einhlíta skýringu á því, þó virðist fiskverð vera á niðurleið um þessar mundir, því ýsuverð á fiskmörkuðum hefur lækkað töluvert síðustu mánuði vegna m.a. aukins framboðs. Þessi lækkun á eftir að skila sér að fullu til neytenda."

Verð á áfengi og tóbaki sem vegur 4,3% vísitölunni hækkaði verulega

í desember en var óbreytt tólf mánuðina á undan. "Þessar vörur eru nánast allar innfluttar og miðað við þróun krónunar á þessu tímabili þá má segja að um hafi verið að ræða dulda hækkun mestan hluta ársins auk þeirrar hækkunar sem kom fram í byrjun desember," segir Sigurður.

Almennar launahækkanir verða í janúar, 3-4%, er ekki hætta á að þær fari út í verðlagið?

"Með samstilltu átaki margra aðila undir forystu ASÍ hefur á síðustu misserum náðst mikill árangur í baráttunni við verðbólguna. Það veldur okkur hjá ASÍ því sérstökum áhyggjum að opinberir aðilar hafa verið að leiða þær verðhækkanir sem hafa verið síðustu vikur samanber hækkun ríkisins á áfengi og tóbaki sem hefur áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með á öll verðtryggð lán sem þróast í samræmi við hana og einnig hafa mörg sveitarfélög verið að boða verulega hækkun á þjónustugjöldum sínum á næstu vikum."

he@mbl.is