Um 85.000 gámaeiningar fóru um Reykjavíkurhöfn árið 2001 og þangað koma um 600 skip frá útlöndum á hverju ári. Talið er að stærstu fíkniefnasendingar til landsins berist hingað með skipum.
Um 85.000 gámaeiningar fóru um Reykjavíkurhöfn árið 2001 og þangað koma um 600 skip frá útlöndum á hverju ári. Talið er að stærstu fíkniefnasendingar til landsins berist hingað með skipum.
SMÆRRI fíkniefnasendingar koma til landsins með flugvélum en stærstu sendingarnar berast hingað með skipum. Þetta er álit Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík.

SMÆRRI fíkniefnasendingar koma til landsins með flugvélum en stærstu sendingarnar berast hingað með skipum. Þetta er álit Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Í Reykjavík, þar sem er stærsta innflutningshöfn landsins, skoðaði tollgæslan árið 2001 um 1% af vörusendingum sem fóru um tollsvæðið í Reykjavík og um 6% af hraðsendingum.

Tugþúsundir gáma á ári

Langmest af vöruinnflutningi til Íslands kemur um Reykjavíkurhöfn. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóranum í Reykjavík koma þangað um 600 skip frá útlöndum á ári og árið 2001 var áætlað að 85.000 gámaeiningar hafi komið til landsins frá útlöndum. Með gámaeiningu er átt við 20 feta gám en 40 feta gámur telst tvær einingar. Allur póstur sem kemur til landsins fer um póstmiðstöð Íslandspósts í Reykjavík og um 1.500 flugvélar frá útlöndum lenda á Reykjavíkurflugvelli.

Um 45 tollverðir starfa á tollgæslusviði tollstjórans í Reykjavík og er þeim ætlað að sjá um eftirlit með öllum þessum gámum, skipum, pósti og flugvélum. Tollverðirnir vinna samkvæmt vaktakerfi. Þeir ganga ekki næturvaktir en sinna eftirlitsstörfum að næturlagi ef sérstök ástæða þykir til. Hluti þeirra starfar eingöngu við upplýsinga- og áhættugreiningarmál og að skoða farmskrár og til að kanna feril vörusendinga til undirbúnings aðgerða á vettvangi.

Nýleg dæmi um smygl með skipum

Á síðustu árum hefur lögreglan í Reykjavík upplýst nokkur umfangsmikil fíkniefnamál þar sem fíkniefnum var smyglað í skipum. Í mars 2002 skilaði rannsóknarvinna lögreglu þeim árangri að lagt var hald á 30 kíló af hassi í vörugámi í Reykjavíkurhöfn. Þetta var eina stóra fíkniefnasendingin sem kom með skipi til landsins sem var stöðvuð af lögreglu eða tollgæslu í fyrra.

Árið 2000 upplýstist hið svokallaða "sjópakkamál" og mál því tengt en fyrir skömmu voru sakborningar í þeim málum dæmdir fyrir að reyna að smygla samtals um 15 kílóum af hassi með flutningaskipum til landsins. Meðal þeirra sem voru dæmdir voru háseti á Goðafossi og 3. stýrimaður á Mánafossi. Fyrir dómi kom m.a. fram að þegar ekki tókst að koma annarri sendingunni frá borði í Reykjavík, eltu sakborningarnir Mánafoss til Reyðarfjarðar til að freista þess að koma fíkniefnunum í land þar.

Í Stóra fíkniefnamálinu svonefnda, sem komst í hámæli árið 1999, var meginhluti fíkniefnanna fluttur með flutningaskipum til landsins. Þá var það einnig rannsóknarstarf lögreglunnar í Reykjavík sem skilaði þessum árangri.

Ásgeir Karlsson segir ljóst að fíkniefnasmygl með vörusendingum krefjist meiri undirbúnings en smygl með flugi. Smyglarinn verði að afla sér ýmiss konar sambanda til að tryggja sem best að sendingin komist á leiðarenda og væntanlega krefjist fleiri þess að fá hlutdeild í hugsanlegum gróða af smyglinu. "Á móti kemur að menn líta oft svo á að það hljóti að vera minni áhætta fólgin í því að senda eina stóra sendingu en margar litlar," segir hann.

Mun meira tekið á Keflavíkurflugvelli

Í fyrra komu upp 72 mál hjá tollstjóranum í Reykjavík þar sem fíkniefni fundust í innflutningi til landsins. Lagt var hald á um 60 grömm af kókaíni, tæplega 120 grömm af maríjúna og um 30 grömm af hassfræjum. Þá var lagt hald á rúmlega 30,5 kg af hassi sem komu um Reykjavíkurhöfn en af því náðust tæplega 30 kíló í einni aðgerð sem var árangur af rannsókn fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, eins og fyrr sagði. Því var lagt hald á um eitt kíló af hassi í aðgerðum tollstjórans.

Ef ofannefnd 30 kíló af hassi eru ekki talin með, er ljóst að lagt er hald á mun meira af fíkniefnum á Keflavíkurflugvelli en á tollsvæðinu í Reykjavík. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli lagði í fyrra hald á tæplega 24 kíló af hassi, um 1,5 kíló af kókaíni, tæplega 1,2 kíló af amfetamíni, um 40 grömm af marijúana og rúmlega 400 skammta af sterum. 65 fíkniefnamál komu upp hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli í fyrra.

Ekki hægt að grandskoða hvern gám

Sigurður Skúli Bergsson, forstöðumaður tollgæslusviðs tollstjórans í Reykjavík, var spurður hvort ekki mætti búast við að fíkniefnasmyglarar notuðu skip, vöru- og póstsendingar ekki síður en flugvélar og hvort ekki mætti búast við að tollgæslan næði meira af fíkniefnum sem koma þá leið.

"Það er afskaplega erfitt að segja nákvæmlega til um hvernig fíkniefnunum er smyglað inn í landið," sagði hann. Þó sé líklegt að smyglararnir noti allar mögulegar leiðir til að flytja fíkniefnin, hvort sem um er að ræða flug, vörusendingar, póst eða ferjur. Það sé á hinn bóginn ekki hægt að segja til um hvort fíkniefnin séu frekar flutt um Keflavíkurflugvöll eða Reykjavíkurhöfn. Aðspurður hvort fyrrnefnd 30 kíló sem fundust í gámi í fyrravetur bendi ekki eindregið til þess að fíkniefnum sé smyglað með vörusendingum segir Sigurður að vissulega hljóti stærri sendingar að koma með skipum, enginn reyni að bera slíkt magn með sér um borð í flugvélar.

Sigurður Skúli segir að það verði aldrei svo að tollgæslan geti grandskoðað hvern einasta gám sem kemur til landins. Slíkt sé óvinnandi verk og tíðkist hvergi í þeim löndum sem hann þekki til í. Tollgæslan beiti ýmsum aðferðum við að fylgjast með vörusendingum sem fara um höfnina en hann geti eðlilega ekki greint nákvæmlega frá því í hverju þær felist þar sem það gæti auðveldað smyglurunum starfið og hann vill ekki gefa upp í hversu mörgum gámum er leitað gaumgæfilega.

Áhættugreining á sendingum

Sigurður Skúli segir að tollgæslan forgangsraði verkefnum og grandskoði þær sendingar þar sem helst sé talin hætta á smygli. Um þessar mundir vinni embættið að því að byggja upp svokallaða áhættugreiningu sem felst í kerfisbundinni greiningu á vörusendingum til landsins.

Lagt verður mat á hversu miklar líkur séu á að smygl geti leynst í sendingunum og starf tollgæslunnar miðað við það. Spurður um eftirlit með póstsendingum segir Sigurður Skúli að fíkniefnaleitarhundar leiti í nánast öllum pósti sem kemur til landsins. Talsvert af fíkniefnum hafi fundist í póstinum í gegnum tíðina og einnig hafi nokkrir verið stöðvaðir á Reykjavíkurflugvelli með fíkniefni.