F.v. Einar P. Einarsson,  Arngrímur Jóhannsson og Erlendur Arngrímsson.
F.v. Einar P. Einarsson, Arngrímur Jóhannsson og Erlendur Arngrímsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SÚ hefð hefur skapast að flugáhugamenn á höfuðborgarsvæðinu hittast á gamlársdag.

SÚ hefð hefur skapast að flugáhugamenn á höfuðborgarsvæðinu hittast á gamlársdag. Fyrir utan það að skrafa og gera upp atburði ársins skella margir sér í flugferð, efnt var til hópflugs og listflugmenn sýna einnig listir sínar ef þannig viðrar og svo var að þessu sinni. Margir koma í gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli til að spjalla og fá kaffisopa og félagsmenn í flugklúbbnum Þyti hittast í Fluggörðum yfir hákarli og harðfiski.

Einar Páll Einarsson sem gert hefur upp Piper Cub vélina TF-CUP segist hafa varið til þess fimm til sex árum. Hann kom fljúgandi úr Mosfellsbæ til stefnumóts við aðra flugáhugamenn og hélt tilbaka eftir skamma viðdvöl. Farþegi hans var Arngrímur Jóhannsson, einn eigenda Flugfélagsins Atlanta, sem stundar flug á smáflugvélum innan um og saman við. Sjá mátti einnig fleiri vélar frá Flugklúbbi Mosfellsbæjar á sveimi í höfuðborginni.

Smávélar skemmtilegri

Vænn hópur var hjá flugklúbbnum Þyti og þar varð Ottó Tynes formaður fyrir svörum. "Klúbburinn er orðinn 15 ára og við eigum í dag sex flugvélar en byrjuðum með eina," segir formaðurinn sem nú er í embættinu í annað sinn en hann var einnig fyrsti formaðurinn. Fyrir utan að koma saman á gamlársdag yfir harðfiski og hákarli sem skolað er niður með ýmsum vökvum hittast félagar Þyts á sumarstefnumóti og árshátíð. Á hverjum degi koma líka nokkrir félagar við í síðdegiskaffi enda segir Ottó um fjórðung félagsmanna vera eftirlaunamenn í fluginu sem hafi þokkalegan tíma. "Þá hittumst við og segjum sömu sögurnar aftur og aftur." Félagsmenn eru nú 39 og segir Ottó alla eiga ævistarf við flugið sameiginlegt. Tveir félagsmenn, fyrrverandi flugvélstjórar, sjá um viðhald á flotanum.

Einn félagsmanna Þyts er Guðmundur Hilmarsson, flugstjóri hjá Cargolux, en tugur íslenskra flugmanna þar er í Þyt. Hann var að búa sig undir flugferð með syni sínum, Jóni Engilbert, á einni vél klúbbsins. "Þetta er það skemmtilega við flugið, að fljúga smávélunum, sem er ekkert sambærilegt við að fljúga þotum," segir Guðmundur sem í starfi sínu flýgur 747-breiðþotu. Hann kveðst koma til landsins nokkrum sinnum á ári og alltaf reyna að taka í vél hjá Þyti.

Flugfélagið Geirfugl tók nýtt bókunarkerfi í notkun á gamlársdag og hittust félagsmenn til að fagna þeim áfanga. Einn félagsmanna, Matthías Arngrímsson, tjáði Morgunblaðinu að síðan hefðu allir sem gátu haldið í loftið og vélar félagsins verið vel nýttar þennan dag.