LANDSLIÐSÞJÁLFARAR Svía í knattspyrnu, Lars Lagerbäck og Tommy Söderberg, fengu slæma útreið í þætti sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöld.

LANDSLIÐSÞJÁLFARAR Svía í knattspyrnu, Lars Lagerbäck og Tommy Söderberg, fengu slæma útreið í þætti sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöld. Þátturinn fjallaði um stjórn þeirra félaga á sænska liðinu í lokakeppni HM í Japan og Suður-Kóreu síðasta sumar og þar kom margt fram sem ekki styrkir stöðu þeirra.

Tvímenningarnir eru helst gagnrýndir fyrir ráðleysi á bekknum og fyrir að veigra sér við að skipta af leikvelli kunnum leikmönnum sem ekki stóðu sig í stykkinu.

Samtal á milli þeirra Lagerbäcks og Söderbergs sem var tekið upp á meðan leikur Svía og Argentínumanna stóð yfir þótti sérstaklega sláandi. Þar kom fram að þeir félagarnir væru ekki vissir um hlutverk einstakra leikmanna inni á vellinum og hvaða leikmanna í argentínska liðinu þeir ættu að gæta.

Þrátt fyrir þetta meinta ráðleysi þjálfaranna sigruðu Svíar í F-riðli keppninnar, urðu fyrir ofan England, Argentínu og Nígeríu, en töpuðu síðan fyrir Senegal í 16 liða úrslitunum.