Sigríður Ben Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 13. mars 1928. Hún lést á Landspítalnum v/ Hringbraut 22. desember síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 30. desember.

Vorsins barn, þú verður kvatt með tárum

og vinahendur hlúa að þínum beð.

Ég veit að margir sitja nú í sárum

og sakna þess að geta ei fylgst þér með.

Við biðjum Guð að blessa minning þína

og breyta sorgarmyrkri í ljósan dag

og láta kærleiksröðul skæran skína

og skreyta jörð við lífs þíns sólarlag.

(Guðm. Guðm.)

Þessar ljóðlínur koma upp í hugann þegar við hugsum til hennar Diddu frænku eins og hún var kölluð á okkar heimili eða Didda Ben, jazzsöngkona. En það kallaði Lúlli bróðir hana stundum með bros á vör. Með söknuði og eftirsjá skrifum við þessar línur til minningar um ástkæra frænku sem var okkur svo góð. Alltaf vorum við velkomin í Hafnarfjörðinn til hennar og Geira, hvort sem var á Skúlaskeiðið eða á Hjallabrautina, þótt heimsóknirnar hafi ekki verið margar. Þar var setið og spjallað um alla heima og geima og í gegn um hana Diddu náðum við að fylgjast aðeins með fjölskyldunni okkar. Hún Didda gat alltaf séð spaugilegu hliðarnar á hlutunum og hlegið af innlifun.

Með hláturinn hennar í huga viljum við kveðja ástkæra frænku.

Elsku Geiri, Gísli, Marín, Jenný, Sísí, Egill, Ari, Soffa og fjölskyldur.

Guð blessi ykkur og styrki í sorg ykkar.

Gott fólk gleymist aldrei.

Fríða, Hanna, Halla,

Lúðvík og Anna Laufey.