9. janúar 2003 | Viðskiptablað | 796 orð

Synt á móti straumnum

"Fyrirtækjum, sem mynda hluta af Dow-hlutabréfavísitölunni, fylgja jafnan meiri tækifæri en áhætta. Slæmar fréttir eru vana

Ræðumaðurinn sem stendur fyrir framan mig heldur á tímariti af Money Magazine, nánar tiltekið ársuppgjöri þess fyrir árið 1990. Hann veifar forsíðunni framan í áhorfendur og les orðrétt af henni: "22 bestu hlutabréfasjóðir síðasta árs.
Ræðumaðurinn sem stendur fyrir framan mig heldur á tímariti af Money Magazine, nánar tiltekið ársuppgjöri þess fyrir árið 1990. Hann veifar forsíðunni framan í áhorfendur og les orðrétt af henni: "22 bestu hlutabréfasjóðir síðasta árs." Að því loknu fleygir hann tímaritinu í gólfið, tekur upp annað og endurtekur leikinn, nema hvað í þetta sinn er það ársuppgjör sama tímarits árið eftir og í þetta sinn er aðeins minnst á 15 bestu hlutabréfasjóði síðasta árs. Svona heldur kynningin áfram koll af kolli og alltaf fækkar þeim hlutabréfasjóðum sem mælt er með vegna góðrar ávöxtunar ársins áður. Síðan kemur ræðumaðurinn fram með áhugaverða staðreynd. Ástæðan fyrir því að sjóðunum fækkaði stöðugt var sú að þeim sem höfðu staðið sig vel árið áður gekk oftar en ekki illa árið eftir. Þeim hlutabréfasjóðum sem tímaritið mælti með sem bestu sjóðunum var í aðeins tveimur tilfellum mælt aftur með nokkrum árum síðar. Að fylgja sigurvegurum gærdagsins hafði reynst vera varhugaverð lausn við að fjárfesta í dreifðu safni hlutabréfa og það er næsta ógerlegt að koma auga á sigurvegara morgundagsins. Eftir þetta sagði ræðumaðurinn: "Rétt er að koma fram með stefnu sem hefur sannað sig í gegnum efnahagslegar sveiflur og mismunandi tískufyrirbrigði".

Á þessum tímapunkti var ræðumaðurinn jafnan búinn að vinna áheyrendur á sitt band og það eina sem hann þurfti til að fá salinn endanlega á sitt band var að koma fram með einfalda aðferð sem hafði staðist tímans tönn, til þess að fjárfestarnir í hópnum fjárfestu hjá honum. Þessi aðferð er notuð af mörgum verðbréfafyrirtækjum og gengur undir misjöfnum nöfnum þótt almennt sé notað heitið "Dogs of the Dow", sem ég þýði lauslega sem "hundsbitin Dow Jones-fyrirtæki". Lausnin felst einfaldlega í því að kaupa þau 10 af 30 hlutabréfum mæld í Dow Jones-hlutabréfavísitölunni sem eru með hæstu arðgreiðsluhlutföllin. Arðgreiðsluhlutfall er sá arður sem fyrirtæki greiðir til hluthafa sinna sem prósentu af markaðsvirði sínu. Ef fyrirtæki greiðir $2 í arð og gengi hlutabréfa þess er $100, þá er arðgreiðsluhlutfallið 2%. Arðgreiðslur hjá stöndugum fyrirtækjum hækka almennt smám saman í samræmi við hagnaðaraukningu fyrirtækisins en arðgreiðsluhlutfallið sveiflast meira með markaðsvirði hlutabréfa. Ef gengi hlutabréfa í ofangreindu dæmi lækkar úr $100 niður í $50 hækkar arðgreiðsluhlutfallið upp í 4%. Árlega eru bréfin síðan seld og keypt eru þau bréf í staðinn sem þá eru með hæstu arðgreiðsluhlutföllin. Þessi boðskapur hefur að stórum hluta notið fylgis vegna vinsælda bókarinnar Beating the Dow eftir Michael O'Higgins. Hugmyndafræðin er í sjálfu sér einföld; að synda á móti straumnum en fjárfesta engu að síður í stöndugum fyrirtækjum. Flest fyrirtæki í Dow Jones-hlutabréfavísitölunni eru það vel stæð fjárhagslega að þau geta haldið arðgreiðslum stöðugum þrátt fyrir tímabundið mótlæti (lög kveða á um að ekki megi greiða út arð nema af hagnaði eða uppsöfnuðum hagnaði). Því er það svo að almennt lækka slík fyrirtæki ekki upphæð arðgreiðslna þó að á móti blási um tíma. Hlutabréf lækka þó oftast sem hækkar arðgreiðsluhlutföll þeirra og gerir að hans mati kauptækifæri augljós.

O'Higgins bendir á í bókinni að fjárfestar eru að stórum hluta að meta virði hlutabréfa í ljósi skammtímasveiflna á afkomu fyrirtækja en líta sjaldnast lengra fram á veginn. Fyrirtæki í Dow Jones-hlutabréfavísitölunni hafa aftur á móti staðist margvíslegt mótlæti í gegnum tíðina og hafa stjórnendur með reynslu og styrk í krafti stærðar sinnar. Því er það svo að oftar en ekki ná slík fyrirtæki sér á strik þó svo að tímabundið mótlæti skelli á með reglubundnum hætti. Nýlegt dæmi er það fyrirtæki innan Dow Jones-hlutabréfavísitölunnar sem hefur hæsta arðgreiðsluhlutfallið, tóbaksframleiðandinn Philip Morris.

Í byrjun ársins 2000, þegar bjartsýnin á mörkuðum var almennt í hámarki, var virði hlutabréfa fyrirtækisins aðeins um þriðjungur af því sem þau voru 12 mánuðum áður. Mikil umræða um lögsóknir á tóbaksframleiðendur t.d. í kringum myndina The Insider með Al Pacino í aðalhlutverki olli fjárfestum það miklum áhyggjum að arðgreiðsluhlutfall hlutabréfanna fór vel yfir 10%, jafnvel þó að forsvarsmenn fyrirtækisins væru bjartsýnir á framtíðarhagnað fyrirtækisins. Mitt í öllu fallinu á gengi hlutabréfa síðan þá hefur gengi bréfa Philip Morris meira en tvöfaldast. Fyrirtækið hefur þó enn hæsta arðgreiðsluhlutfallið enda vofa ávallt lögsóknir yfir fyrirtækinu frá reykingamönnum og aðstandendum þeirra.

Tölurnar tala sínu máli varðandi þessa einföldu aðferð. Þó að þeir fjárfestar sem fylgdu henni árið sem ég sá kynninguna, 1996, hafi líklegast verið lítt sáttir þegar gengi hlutabréfa í tæknifyrirtækjunum hækkaði sem mest, hefur ávöxtun þessarar aðferðar verið töluvert betri en meðalávöxtun Dow Jones-hlutabréfavísitölunnar síðastliðna áratugi. Þessi aðferð gæti auk þess orðið enn arðbærari í framtíðinni því hugsanlega verður frumvarp að lögum í ár sem minnkar skatta tengda arðgreiðslum í Bandaríkjunum.

Beating the Dow er hnitmiðuð og auðlesin bók sem veitir einfalda innsýn í eina af bestu fjárfestingaraðferðum varðandi hlutabréfakaup og skynsamlega leið til að synda á móti straumnum. Hún er auk þess góð kynning á Dow Jones-hlutabréfavísitölunni, hvernig hún er samansett og fyrirtækin innan hennar.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.