Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, var einn framsögumanna á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins um gengismál.
Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, var einn framsögumanna á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins um gengismál.
HANNES G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að atvinnulífið kalli eftir því að Seðlabankinn "endurskoði jákvæða afstöðu sína til hins of háa gengis krónunnar sem myndast hefur á markaðnum.
HANNES G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að atvinnulífið kalli eftir því að Seðlabankinn "endurskoði jákvæða afstöðu sína til hins of háa gengis krónunnar sem myndast hefur á markaðnum." Þetta kom fram í erindi hans á fundi samtakanna, Áhrif hágengis á þjóðarhag.

Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, svaraði því til að Seðlabankinn gæti ekki, nema til skamms tíma, haft áhrif á raungengi krónunnar. "Peningastefna getur aðeins haft áhrif á raunstærðir í mjög skamman tíma, í mesta lagi eitt ár. Hér er að verða mjög mikil aukning í eftirspurn vegna álversframkvæmdanna. Þessi aukning hlýtur alltaf að leiða til hærra verðlags."

Hærra raungengi en talið er

Hannes fjallaði í erindi sínu um versnandi rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja vegna hás gengis og þar með lækkandi tekna í íslenskum krónum. Hann sagði að raungengi, mælt á mælikvarða launa, væri hærra en talið væri og hefði verið það undanfarin ár, þar sem launavísitala Hagstofunnar vanmæti launakostnað. Þá nái mælingar kjararannsóknarnefndar ekki til starfsgreina sem mest spurn hafi verið eftir á tímabilinu.

"Ef þróun launa er "leiðrétt" með framangreindum hætti fæst sú niðurstaða, á grundvelli áætlunar Seðlabankans um raungengishækkun á þessu ári, að raungengi á mælikvarða launa verði hærra á þessu ári en nokkru sinni síðustu 10 ár. Það verður tæpum 10% hærra en að meðaltali síðustu 10 ár," sagði hann.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, sagði í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að efna til formlegs samstarfs stjórnvalda, Seðlabanka og aðila vinnumarkaðarins, til að samræma viðbrögð hagstjórnar næstu missera. "Svona efnahagsstefna getur ekki verið annað en ávísun á það, að hér verði átök um grundvallarhagsmuni. Menn geta ekki ætlast til þess að launafólk verði bara eins og hver annar Svarti Pétur og verði ýmist atvinnulaust eða á lágum tekjum til að mæta þessum sveiflum í nafngengi krónunnar," sagði hann, "sem byggjast á væntingum um það sem verður eftir tvö eða þrjú ár."

Mikil áhrif gengis á rekstur

Hörður Arnarson, forstjóri Marels, sagði að gengisbreytingar hefðu mikil áhrif á rekstur útflutningsfyrirtækja. Hann nefndi sem dæmi að 5% gengishækkun hefði sömu áhrif á rekstur og 16% launahækkun. Ef gengi hækkaði um 15% hefði það sömu áhrif og nærri helmingshækkun launa.

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brims og Útgerðarfélags Akureyringa, sagði að framlegð í fiskvinnslu á landi færi ört lækkandi. Árið 2001 hefði hún numið 36,5 milljörðum króna, en í ár væru líkur á að hún myndi nema um 23 milljörðum. Mun auðveldara væri að laga rekstur á fiskveiðum að gengissveiflum, þar sem tveir þriðju kostnaðar væru tengdir gengi. Í landvinnslunni væri lítil sem engin gengisaðlögun möguleg á kostnaði.

Gunnar Rafn Birgisson, framkvæmdastjóri FerðaskrifstofunnarAtlantik, sagði í ræðu sinni að gera mætti ráð fyrir að Íslandsferð kostaði 25-30% meira í erlendri mynt núna en árið 2002. Ferðaþjónustan væri að tapa viðskiptum til annarra landa, svo sem Írlands og Finnlands, vegna hins háa gengis.