Einn maður fórst og annars er saknað eftir að sprenging varð í olíubirgðastöð á Staten-eyju í New York í gær. Tveir slösuðust í sprengingunni, sem varð þegar verið var að afferma bensín úr flutningaskipi í stöðina. Olíubirgðastöðin er í eigu ExxonMobil.
Einn maður fórst og annars er saknað eftir að sprenging varð í olíubirgðastöð á Staten-eyju í New York í gær. Tveir slösuðust í sprengingunni, sem varð þegar verið var að afferma bensín úr flutningaskipi í stöðina. Olíubirgðastöðin er í eigu ExxonMobil. Slökkviliðsmenn segja að bensínið hafi brunnið á sjónum og á landi við olíutankana en eldurinn var að mestu kulnaður eftir klukkustund og um tugur olíutanka á svæðinu virðist vera óskemmdur.

Olía hækkaði um rúman dal tunnan á markaði í Bandaríkjunum þegar fréttist af eldinum og fór í 35,95 dali. Þegar líða fór á daginn og í ljós kom að umfang eldsins var minna en óttast var lækkaði olían í 35,50 dali tunnan.

Talið er mjög ólíklegt að um sé að ræða hryðjuverk af neinu tagi. Bandaríska alríkislögreglan sagði þó að enn væri verið að rannsaka málið enda væri olíubirgðastöðin mannvirki af því tagi sem hryðjuverkamenn kynnu að ráðast á.