Hilmar Sigurðsson og Gunnar Karlsson hjá Caoz hf. taka við verðlaunum fyrir athyglisverðustu rafauglýsinguna "Viltu vinna miða?" úr hendi markaðsstjóra Morgunblaðsins, Margrétar Sigurðardóttur.
Hilmar Sigurðsson og Gunnar Karlsson hjá Caoz hf. taka við verðlaunum fyrir athyglisverðustu rafauglýsinguna "Viltu vinna miða?" úr hendi markaðsstjóra Morgunblaðsins, Margrétar Sigurðardóttur.
AUGLÝSINGASTOFAN Gott fólk McCann Erickson hlaut fern verðlaun fyrir athyglisverðustu auglýsingar ársins 2002 á Íslenska markaðsdeginum í gær. Verðlaunin voru veitt í sautjánda sinn en það er ÍMARK sem stendur fyrir valinu.
AUGLÝSINGASTOFAN Gott fólk McCann Erickson hlaut fern verðlaun fyrir athyglisverðustu auglýsingar ársins 2002 á Íslenska markaðsdeginum í gær. Verðlaunin voru veitt í sautjánda sinn en það er ÍMARK sem stendur fyrir valinu. Veitt voru verðlaun í 13 flokkum auglýsinga. Hvíta húsið hlaut þrenn verðlaun og Fíton tvenn.

Í flokki kvikmyndaðra auglýsinga hlaut Gott fólk verðlaun fyrir "Beautiful Women" sem unnin var fyrir Vífilfell. Athygliverðasta kynningarefnið, annað en markpóstur, var "Svalaðu forvitninni" sem Gott fólk vann einnig fyrir Vífilfell. Tvenn önnur verðlaun sem komu í hlut Góðs fólks voru fyrir auglýsingar unnar fyrir KSÍ, annars vegar fyrir veggspjaldið "Stelpuslagur" og hins vegar fyrir dagblaðaauglýsinguna "Boltastríð við Breta."

Auglýsingar í flokknum almannaheill voru verðlaunaðar í fyrsta sinn og þótti sú athygliverðasta vera "Söluvara?" sem Hvíta húsið vann fyrir Stígamót. Verðlaun fyrir óvenjulegustu auglýsinguna hlaut Hvíta húsið fyrir auglýsinguna "Peningur" sem stofan gerði einnig fyrir Stígamót. Þá komu í hlut Hvíta hússins og Gunnars Árnasonar verðlaun fyrir athygliverðustu útvarpsauglýsinguna, "Ég hef varið víða," sem unnin var fyrir Ölgerðina.

Merki Leikhúskjallarans sem Fíton hannaði hlaut verðlaun í flokki vöru- og firmamerkja. Þá fékk Fíton verðlaun fyrir athygliverðasta markpóstinn, "Dulmálslykil CIA," sem stofan gerði fyrir SÍA, samband íslenskra auglýsingastofa.

Í fyrsta sinn voru veitt verðlaun fyrir stafrænar eða rafauglýsingar. Þau fékk CAOZ hf. fyrir "Viltu vinna miða?" sem framleidd var vegna myndarinnar Litlu lirfunnar ljótu. Auglýsingaherferðin "Göngum til góðs," sem Mátturinn og dýrðin gerði fyrir Rauða Kross Íslands þótti athygliverðust. Þá hlaut Íslenska auglýsingastofan verðlaun fyrir umhverfisgrafík fyrir "Ný Corolla hefur sig til flugs" sem gerð var fyrir P. Samúelsson - Toyota. Í flokki tímaritaauglýsinga varð auglýsingastofan Einn, tveir og þrír hlutskörpust með "Hugsaðu djúpt" sem hún gerði fyrir Sæplast.