Grundarland 24 er gott dæmi um hús í "sixties"-stíl sem ungt fólk er mjög hrifið af í dag.
Grundarland 24 er gott dæmi um hús í "sixties"-stíl sem ungt fólk er mjög hrifið af í dag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar haldnar hafa verið sýningar sem tengjast húsagerðarlist að undanförnu hafa margir komið að skoða. Guðrún Guðlaugsdóttir spurði Sigrúnu Þorgrímsdóttur fasteignasölumann hvort hún sæi þennan áhuga endurspeglast í auknum fyrirspurnum um arkitektúr.

Mikill áhugi virðist vera hjá mörgum að skoða sýningar tengdar arkitektúr sem haldnar hafa verið að undanförnu. Ákveðinn hópur hefur lengi verði sér meðvitandi um arkitektúr og hönnun en skyldi sá hópur hafa stækkað að undanförnu í samræmi við fyrrnefndan áhuga almennings á þessum fræðum - kemur þessi áhugi fram í viðskiptum á fasteignamarkaðinum?

"Við höfum ekki orðið vör við mikla aukningu á að fólk spyrjist fyrir um arkitektinn þegar það kannar möguleg húsakaup, en það hefur alltaf verið nokkur hópur sem gerir það," segir Sigrún Þorgrímsdóttir rekstrarfræðingur og sölumaður hjá Húsakaupum.

"Mér virðist þó sem fleira fólk sýni innahússhönnun áhuga en áður var," bætir hún við.

"Að stærstum hluta virðist þessi aukni áhugi á innanhússhönnun fylgja í kjölfar sjónvarpsþátta, svo sem Innlit/útlit og Lifun. Þá er fólk að líta til alls konar úrlausna vandamála í sambandi við geymsluaðstöðu og nýtingu eldra húsnæðis. Ekki síst er fólk að skoða óhefðbundnar og ódýrar lausnir á endurnýjun húsnæðis og innréttingu þess."

Margir þekkja og aðgreina stefnur í húsagerðarlist

En hvað með "stóru" arkitektana?

"Fólk er meðvitað um áberandi arkitekta svo sem Kjartan Sveinsson og Manfreð Vilhjálmsson svo dæmi séu nefnd og þeir eru margir sem þekkja og aðgreina stefnur í húsagerðarlist, svo sem fúnkisstíl og Art deco-stíl. Gaman er líka að því hvað "sixties"-stíllinn er orðinn vinsæll hjá ungu fólki. Það vill nú kaupa húsnæði í upprunalegu ástandi og varðveita það innanstokks sem fyrir örfáum árum hefði þótt hreinn "haugamatur"."

En hvað með hina fyrstu arktitekta, svo sem Guðjón Samúelsson og fleiri?

"Það eru færri sem þekkja þann stíl og spyrja um hann, enda koma þau hús sem hann og hinir fyrstu stóru arkitektar teiknuðu sjaldan á sölumarkað."

Eru sölumenn á fasteignasölum vel að sér í hinum ýmsu afbrigðum byggingarstíls?

"Ég held að það sé mjög misjafnt. Það er ekki mér vitanlega um að ræða neina markvissa fræðslu fyrir fasteignasölumenn í þessum fræðum. En vissulega væri skemmtilegt ef tekin væri upp slík fræða af hálfu Félags fasteignasala."