Fyrir Kristnihátíðarsýninguna var gert líkan af Þingvöllum og búnir til litlir "fornkappar" sem spranga þar um grundir frá búðum sínum, til vinstri, og að Lögréttu, til hægri.
Fyrir Kristnihátíðarsýninguna var gert líkan af Þingvöllum og búnir til litlir "fornkappar" sem spranga þar um grundir frá búðum sínum, til vinstri, og að Lögréttu, til hægri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað eiga söfn og leikhús sameiginlegt? Jú, - að vilja sýna það sem í þeim býr. Björn G. Björnsson leikmyndateiknari hefur sagt skilið við leikhús og fjölmiðla í bili og starfar við að setja upp sýningar af ýmsu tagi. Bergþóra Jónsdóttir mælti sér mót við hann á einni slíkri og þar sagði Björn frá söguáhuga sínum og vinnu við sýningar sem spanna allt frá saltfiski til samgangna.

BJÖRN G. Björnsson leikmyndateiknari er mörgum kunnur. Í árdaga Sjónvarpsins starfaði hann þar að fagi sínu, en var ekki síður þekktur sem þriðjungur Savanna-tríósins. "Ég byrjaði á Sjónvarpinu sumarið '66, þegar það var stofnað, var þar í tíu ár, dag og nótt. Það var rosalega spennandi tími. Þetta var lítill hópur starfsmanna sem afrekaði miklu. Á þessum áratug breyttist þetta úr hálfgerðri tilraunastöð sem sendi út tvö kvöld í viku í fullvaxna sjónvarpsstöð, og þegar ég hætti var leikmyndadeildin með um tuttugu starfsmenn."

Eftir Sjónvarpið tók lausamennska við, þar sem Björn vann jöfnum höndum fyrir leikhús, kvikmyndir og sjónvarp. Ásamt Agli Eðvarðssyni rak hann fyrirtækið Hugmynd, sem bjó til hvers konar kynningarefni, myndbönd og auglýsingar og bar jafnvel ábyrgð á Gleðibankabúningunum margfrægu. 1987 varð Björn yfirmaður dagskrárgerðar á Stöð 2, og var með þrjátíu, fjörtíu manns í vinnu við að framleiða efni. Þegar eigendaskipti urðu á stöðinni, 1991, hætti Björn störfum þar, þá búinn að starfa í tuttugu og fimm ár við hönnun leikmynda og dagskrárgerð af ýmsum toga. "Og þá datt ég inn í þennan heim," segir hann um það sem við ætlum að ræða um hér - heim safna og sýningahalds. "Þetta var algjör tilviljun. Ég var að vinna með Saga-Film við undirbúning myndar um Jón Sigurðsson, og ráðgjafi okkar við myndina var Guðmundur Magnússon sagnfræðingur, sem var þjóðminjavörður á þessum tíma. Í samtölum okkar Guðmundar kom upp, að búið væri að loka sjóminjasafni í Hafnarfirði. Þjóðminjasafnið hafði tekið við safninu, en það voru engir starfsmenn við það lengur. Ég sagði í einhverju bríaríi við Guðmund: Ég skal taka að mér að rífa þetta upp."

Úr varð að Birni og Jóni Allanssyni safna- og sagnfræðingi var falið að taka safnið að sér og blása í það lífi. Það gerðu þeir, og Björn starfaði við Sjóminjasafnið í nær tvö ár. Þar kynntist hann um leið heimi íslenskra safna og um leið sýningahönnun í tengslum við þau. "Ég kynntist ekki síst væntingum gesta og ferðamanna og hugsunarhætti þeirra sem koma og skoða safnasýningar. Ég fór í sagnfræði í Háskólanum í eitt ár til að kynna mér það fag nánar, enda hef ég mikinn áhuga á sögu, og var búinn að gera sextíu þætti fyrir Stöð 2 um menningarminjar og sögustaði, en þeir voru kallaðir Áfangar. Ég var dottinn í sagnfræðigrúsk, og starfið í Sjóminjasafninu opnaði fyrir mér nýjan heim sem ég hef verið í síðustu tíu, tólf árin."

Njála, popptónlist og saltfiskur

Í dag starfar Björn sjálfstætt við að koma upp söfnum og sýningum víðs vegar um landið, og kveðst fylgjast mjög vel með því sem er að gerast í þeim málaflokki. "Ég hef verið mjög heppinn með verkefni og sett upp margar stórar sýningar sem hafa skipt máli."

Meðal sýninga Björns má nefna Fisk og fólk og Sjósókn og sjávarfang fyrir Sjóminjasafnið, Reykjavík við stýrið, samgöngusýningu í Geysishúsi 1994, og Leiðina til lýðveldis, sýningu sem sett var upp sama ár í samvinnu Þjóðminjasafns og Þjóðskjalasafns. Minjasafn Mjólkursamsölunnar var sett upp 1995 á 60 ára afmæli fyrirtækisins, og sama ár setti Björn upp sýningu um sögu Heklugosa í Landsveit. Fleiri fyrirtæki og stofnanir hafa fengið Björn til liðs við sig við að koma fagminjum á framfæri við almenning; þar má nefna Landhelgisgæsluna, Póst og síma, Slysavarnafélagaið, Menntaskólann í Reykjavík, Fjarskiptamiðstöð Landsímans, Rafmagnsveituna og fleiri. Árið 1997 var sýningin Á Njáluslóð opnuð, en Björn setti hana upp í samvinnu við Jón Böðvarsson. Þetta verkefni átti eftir að vinda verulega upp á sig. Strax ári síðar var sú sýning stækkuð, og flutt í Sögusetrið, og eftir enn annað ár, var Söguskálinn, samkomu- og fundarsalur í miðaldastíl opnaður í tengslum við sýningahaldið. Árið 2001 var enn bætt um betur við Sögusetrið, með nýjum sal um náttúru Suðurlands, auk þess sem Njáluslóðasýningin var endurbætt. Og Björn vinnur enn að viðbótum við Sögusetrið. Í nóvember 1999 var opnuð margmiðlunarsýning hönnuð af Birni um jarðsögu, jarðfræði og jarðhita í Eldborg, kynningarhúsi Hitaveitu Suðurnesja við Svartsengi. Bítlabærinn Keflavík var viðfangsefni hans á sýningu þar í bæ sem opnuð var 1998, en þar var jafnframt settur á laggirnar vísir að poppminjasafni. Halldór Laxness, íslenskur rithöfundur, var nafnið á bókmenntakynningu sem Björn vann fyrir menntamálaráðuneyti, Landsbókasafn og Bókmenntakynningarsjóð, á ensku og þýsku, síðar á sænsku, frönsku og rússnesku til kynningar á skáldinu erlendis.

Sýningar sem Björn hefur hannað, oft í samstarfi við sagnfræðinga eða minjasöfn, eru nú komnar vel á fimmta tuginn, og verkefnin af ólíkustu gerð: popptónlist, kirkjumunir, samgöngur, bókmenntir, hestamennska, skipsströnd, hljóðfæri og handrit. Á síðasta ári setti hann upp Íþróttasýningu á Akranesi, Samgöngusafn á Skógum, Saltfisksetur í Grindavík og ljósmyndasýninguna Reykjavík í hers höndum, um hernámsárin í höfuðborginni.

Stundum er ekkert til að sýna

"Njálusýningin var mjög stórt krefjandi verkefni. Þeir höfðu samband við mig fyrir austan og sögðust þurfa að gera eitthvað fyrir Njálssögu. Það tók mig árið að lesa söguna, lifa mig inn í hana og átta mig á ábyrgðinni sem fylgir því að takast á við þessa nánast helgu bók. Verkefnið var að koma upp ferðamannamiðstöð og sýningu, en engir sýningargripir til að sýna - bara sagan, og jú myndskreytingar sem menn höfðu gert í gegnum tíðina við bókina og ljósmyndir. Þarna varð því að skapa stemmningu með sviðsetningu og reyna að draga fram tíðaranda sögunnar. Þetta tókst þannig að Sögusetrið á Hvolsvelli er alltaf að stækka og bæta við sig og gestum fjölgar. Þar er nú Njálusýningin og í Suðurlandssal eru ferðamöguleikar á suðurlandi kynntir. Þar er kaupfélagssafn, sem starfsmenn Kaupfélaga Rangæinga og Árnesinga hafa staðið saman í að safna munum í. Það er safn sem margir hafa gaman af að sjá. Söguskálinn, í miðaldastíl, hefur verið mjög vinsæll, og ég er enn að vinna að endurbótum að Njálusýningunni sjálfri."

Björn segir að árið 2000 hafi verið mjög stórt, og mörg verkefni hafi þá litið dagsins ljós. "Það átti allt að gera á þessu ári. Þá hannaði ég sýninguna Lífið við sjóinn, fyrir Reykjavík Menningarborg 2000, sem fór til þriggja annarra landa, litlar sýningar í fundarstofur Þjóðmenningarhússins og stóra sýningu þar, Kristni í þúsund ár, sem er tiltölulega nýbúið að taka niður. Þetta var sýning á skjölum úr Þjóðskjalasafni sem varðveita þessa sögu, en hún var líka skreytt með leikmyndum, gínum og búningum, þar sem reynt var að bregða upp myndum af atburðum og tímabilum. Það er þetta sem ég hef mesta ánægju af að gera í sýningarhönnuninni; gæða sýningarnar lífi með því að skapa þeim umhverfi og andrúmsloft, hvort sem þetta eru skjalasýningar, ljósmyndasýningar eða eitthvað annað - þannig að fólk skynji betur aðstæður og tíðaranda. Ég vil að fólk upplifi eitthvað þegar það fer á sýningar og geti gleymt sér svolitla stund og horfið inn í þann heim sem á að ríkja." Á sýningunni Reykjavík í hers höndum var ekki eingöngu að finna afar skemmtilegar ljósmyndir frá hernámsárunum, heldur gat þar einnig að sjá hermann við sandpokavígi, og muni allt frá ekta amerísku stríðsáratyggjói til muna sem hermenn sem hér dvöldu dunduðu sér við að búa til. Og tónlistin var auðvitað ekta, og til þess fallin að ýta undir réttu stemmninguna. "Þarna gekk fólk svolítið inn í þennan tíma, hann umlukti það meðan ljósmyndirnar voru skoðaðar."

Sams konar vinna og í leikhúsinu

Síðasta ár var reyndar mjög sérstakt að sögn Björns, því þá voru opnuð hvorki meira né minna en þrjú söfn sem hann hafði lagt grunninn að. "Þetta var Íþróttasafnið á Akranesi með verðlaunagripum, ljósmyndum og munum sem segja íslenska íþróttasögu. Safnið er í Byggðasafninu, en húsnæðið er bara of lítið, því það safnaðist svo mikið af munum. Ég fór svo austur að Skógum og var þar með Þórði Tómassyni, sem er nestor íslenskra safnamanna, og þar fékk ég tækifæri til að búa til Samgöngusafn í nýju stórhýsi. Þarna eru samgöngutæki allt frá hestaöld - reiðtygi, hestvagnar og fleira - og svo allt í gegnum vélvæðingu og rafvæðingar til bílaaldar. Ég er enn að bæta við þetta, og geri ekki ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrr en 2004, þegar bíllinn á hundrað ára afmæli á Íslandi. Þriðja stóra verkefnið var Saltfisksetrið í Grindavík.

Ef maður fengi fimm einingar í sagnfræði fyrir hverja sýningu sem maður setur upp og hvert viðfangsefni sem maður þarf að setja sig inn í, væri maður löngu orðinn bæði doktor og prófessor!" Björn segir það einmitt mikilvægasta atriðið að setja sig vel inn í hlutina, og þekkja viðfangsefnið vel hverju sinni. Hann kveðst þó ekki nema í undantekningartilfellum skrifa sýningartextana sjálfur, um það sjá sagnfræðingar eða aðrir fræðimenn á vegum safnanna, sem jafnframt útvega þá muni og fróðleik sem sýna skal. "Ég verð engu að síður að kynna mér hlutina jafnvel, og það er mjög skemmtileg vinna. Ég er auðvitað leikmyndateiknari, en þessi vinna er unnin alveg eins og leikrit er unnið í leikhúsi. Leikmyndateiknarinn byrjar auðvitað á því að lesa leikritið, spjalla við leikstjórann og finna út úr því um hvað viðfangsefnið snýst. Sýningarhönnuðurinn tekur nákvæmlega eins á sinni vinnu. Hann þarf að þekkja viðfangsefnið: um hvað það snýst, hvert innihaldið er, hvert andrúmsloftið er og hvaða stemmning á að ríkja; hvort viðfangsefnið er létt eða alvarlegt, hver boðskapurinn er og skilaboðin sem koma þarf á framfæri. Þetta ræðst allt af efniviðnum, og því sem hægt er að sýna. Austur á Skógum var til hafsjór af safngripum, þannig að það var aldrei vandamál hvað ætti að sýna. Þar var verkefnið fyrst og fremst að finna út hvernig mætti skapa þeim umgjörð þannig að þeir nytu sín og hægt væri að segja sögu þeirra á lifandi hátt."

Leitað í krók og kima

Björn nefndi að lítið hafi verið til að sýna, þegar hafist var handa við Njálusýninguna, og blaðamaður veltir því líka fyrir sér hvað sé hægt að sýna á Saltfisksetri - saltfisk? "Það var mjög sérstakt með Saltfisksetrið í Grindavík. Þar var stórhuga fólk sem réðst í það að láta sérhanna og sérbyggja sýningarhús á besta stað í bænum, við höfnina. Ég hafði auðvitað í huga, að í Grindavík hefur aldrei verið til neitt safn - ekkert byggðasafn eða slíkt, þannig að þeirra munir höfðu kannski farið annað. En Grindvíkingum þótti tími til kominn að í bænum væri eins konar menningarhús, þar sem hægt væri að halda ýmiss konar móttökur og svo segja sögu saltfisksins, því Grindavík hefur í áratugi verið stærst útgerðarbæjanna á Íslandi í saltfiskvinnslu. Ákvörðunin var stórhuga, en lítið var af munum. Við fórum því í mjög skemmtilegt samstarf; fengum lánaða muni hjá Þjóðminjasafninu, Byggðasafni Suðurnesja, Árbæjarsafni og Byggðasafni Hafnarfjarðar, og fólk tók okkur með opnum huga, og var fúst til að lána okkur það sem til þurfti. Við leituðum líka að munum í bænum, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, og það var bókstaflega farið í hvern krók og kima, sem endaði með því að það tíndist til býsna gott úrval af munum. Við fengum líka lánaðan góðan gamlan árabát með seglabúnaði og öllu saman, og svo komu saltfiskbörur, vogir, alls kyns áhöld og umbúðir og fleira. Við gátum skipt þessu upp í þætti sem snerust um veiðarnar, þá verkunina, og loks pökkun, vinnslu og sölu og dreifingu. Síðast en ekki síst eru aðferðir leikmyndahönnunarinnar notaðar til að skapa rétta andrúmsloftið. Við erum með litlar leikmyndir, framhliðar á húsum frá ýmsum tímum, pakkhús, fiskigeymslur og þess háttar. Við erum með gínur í vinnufötum við verk sín, þannig að útkoman er mjög lifandi sýning með blöndu af ekta safngripum, og leikmyndum sem skapa þeim réttu umgjörðina. Þarna er líka mikið af stækkuðum ljósmyndum og kvikmyndum frá saltfiskvinnslu er varpað upp, og hljóðið er mikilvægt líka; mávagarg, sjávarhljóð og önnur umhverfishljóð. Á staðnum er auðvitað líka lykt af saltfiski og tjöru, þannig að öllum meðulum sýningartækninnar er beitt til að upplifunin verði sem mest fyrir gesti. Það var heilmikil ögrun að mæta óskum þeirra sem vildu gera þetta vel og moða úr þeim þrönga efnivið sem var til staðar í upphafi. En þetta tókst."

Björn G. Björnsson talar um sýningarnar sínar af miklum ákafa og ljóst að áhugi hans á þeim fjölbreyttu verkefnum sem hann hefur tekist á hendur er heill og óskiptur. Það er líka ljóst að margt hefur breyst á liðnum árum, og sýningar í dag allt annar hlutur en var fyrir fáeinum áratugum. Í dag er ekki nóg að hengja upp myndir og stilla munum undir gler - sýning á safni þarf augljóslega að hafa miklu fleira til að bera, og það er leiðin til að laða að gesti. Leikmyndahönnuður með ódrepandi áhuga á sögu hlýtur að vera á réttri hillu í slíku starfi.

begga@mbl.is