HILMAR Þórlindsson, handknattleiksmaður hjá Cangas á Spáni - fyrrverandi leikmaður hjá Gróttu/KR og Stjörnunni, verður ekki lánaður til liðs í annarri deildinni eins og til stóð.

HILMAR Þórlindsson, handknattleiksmaður hjá Cangas á Spáni - fyrrverandi leikmaður hjá Gróttu/KR og Stjörnunni, verður ekki lánaður til liðs í annarri deildinni eins og til stóð. Hilmar er kominn til Cangas á ný og sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann ætlaði að vera áfram hjá félaginu og reyna að ná sér góðum af meiðslunum sem hafa þjakað hann undanfarnar vikur.

"Það er auðvitað ljóst að ef ég get ekki spilað hér í Cangas vegna meiðsla þá get ég ekkert frekar spilað með hinu liðinu. Ég verð því hérna áfram og reyni að ná mér góðum af þessum meiðslum sem eru að verða ansi þreytandi," sagði Hilmar.

Hann lék fjóra leiki í haust með liðinu en hefur ekkert getað leikið síðan þá utan tíu mínútur á móti Ademar Leon í lok febrúar. "Sjúkraþjálfarinn sagði að ég væri tilbúinn í þann leik en bæði ég og þjáflarinn vorum ósammála honum. En hann vildi endilega að ég prófaði og það var auðvitað tómt rugl og gekk ekkert upp, ég lék í einhverjar tíu mínútur," sagði Hilmar, sem stefnir að því að ná síðustu sex leikjum liðins í vor en síðasta umferðin er 24. maí.