Stefanía Reinhardsdóttir Khalifeh
Stefanía Reinhardsdóttir Khalifeh
"ÉG held að við séum öll undirbúin undir að það verði stríð á næstu þremur dögum," sagði Stefanía Reinhardsdóttir Khalifeh, aðalræðismaður Íslands í Jórdaníu í samtali við Morgunblaðið.

"ÉG held að við séum öll undirbúin undir að það verði stríð á næstu þremur dögum," sagði Stefanía Reinhardsdóttir Khalifeh, aðalræðismaður Íslands í Jórdaníu í samtali við Morgunblaðið.

"Við og aðrar Norðurlandaþjóðir höfum verið í samstarfshópi undir leiðsögn breska sendiráðsins en í honum eru alls átta þjóðir. Sumar þjóðir hafa mælt með að fólk fari frá landinu en við erum að bíða eftir því hvað gerist í dag [í gær] og á morgun [í dag] og fyrirmælum frá utanríkisráðuneytum landanna."

Stefanía segir að menn fylgist auðvitað grannt með öllum fréttum en ekki sé hægt að segja að það sé óhugur í fólki. "Það er engin paník og við tökum þessu með jafnaðargeði. Við eigum engu að síður von á að það verði einhvers konar útgöngubann þann dag sem stríðið hefst. Við í Jórdaníu fáum líka alla okkar olíu frá Írak og ég eins og fleiri hef verið hamstra svolítið til að tryggja að við höfum olíu til kyndingar og við erum alltaf með fullan tank af bensíni á bílnum því innflutningurinn stöðvast væntanlega ef það verður stríð. En ríkisstjórnin hér hefur raunar lofað að útvega olíu annars staðar frá," sagði Stefanía.

Aðspurð segir Stefanía að Jórdaníubúar taki öllu með ró enda sé þetta fólk búið að upplifa mörg stríð. "En fólk hefur hamstrað dálítið og undirbúið það að þurfa að vera heima í þrjá daga eða svo. Það er eiginlega allt og sumt."

Stefánía segist hafa gert eins nákvæma skrá og hún hafi getað um Íslendinga á svæðinu og komið henni til utanríkisráðuneytisins. Hluti af þeim upplýsingum hafi þó verið úr þjóðskrá og geti verið hálffyrndur og ónákvæmur og það séu mörg spurningamerki á listanum. "Hér í Jórdaníu eru fjórtán Íslendingar og ég held að það séu þrír eða fjórir Íslendingar í Kúvæt, svo eru Íslendingar í Katar, Kairó í Egyptalandi og Oman."