Viðræðum um Íraksdeiluna á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna lauk í gær án þess að samkomulag næðist um næstu skref.

Viðræðum um Íraksdeiluna á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna lauk í gær án þess að samkomulag næðist um næstu skref. Bandaríkjamenn, Bretar og Spánverjar féllu að lokum frá því að leggja fram nýja ályktun þar sem Írökum yrði gefinn lokafrestur til að afvopnast, ella yrði það gert með valdi.

Morgunblaðið hefur frá upphafi lagt áherslu á að Íraksdeilan yrði leidd til lykta á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Mikilvægt væri að þjóðir heims væru samstiga í þeim ákvörðunum sem teknar yrðu vegna Íraks. Nú er ljóst að sú verður ekki raunin.

Jeremy Greenstock, sendiherra Breta hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði ástæðu þess að málalyktir urðu með þessum hætti að Frakkar hefðu hótað að beita neitunarvaldi gegn öllum tillögum er fælu í sér ákveðin tímamörk og þar með væri ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samningaviðræðum.

Það voru fyrst og fremst pólitískar ástæður að baki því að jafn rík áhersla var lögð á nýja ályktun SÞ, ekki síst af hálfu Breta.

Þótt ávallt megi deila um túlkun alþjóðalaga er hægt að færa rök fyrir því að heimild til valdbeitingar í Írak liggi nú þegar fyrir.

Á undanförnum þrettán árum hafa verið samþykktar á annan tug ályktana í öryggisráðinu sem Írakar hafa gerst brotlegir við. Þrjár þeirra gegna lykilhlutverki í þessu sambandi. Með ályktun 678, sem samþykkt var árið 1990, var valdbeiting heimiluð til að hrekja Íraksher frá Kúveit. Í kjölfar Persaflóastríðsins árið 1991 var samþykkt ný ályktun, númer 687, þar sem sett voru ströng skilyrði er Írökum var gert að uppfylla í tengslum við vopnahlé. Meðal annars var þar kveðið á um að þeir yrðu að láta gjöreyðingarvopn sín af hendi. Þessar ályktanir eru enn í fullu gildi og Írakar hafa ekki enn uppfyllt þau skilyrði sem þeir gengu að árið 1991.

Í nóvember á síðasta ári var samþykkt enn ein ályktun, númer 1441, þar sem Írökum var veittur lokafrestur til að afvopnast. Var tekið fram í ályktuninni að það myndi hafa "alvarlegar afleiðingar" ef þetta tækifæri yrði ekki nýtt. Þar sem Írakar eru taldir brotlegir við þessar ályktanir er hægt að færa rök fyrir valdbeitingu með vísan til ályktunar 678. Heimildin til valdbeitingar, sem í henni er að finna, féll aldrei úr gildi, heldur var einungis frestað með ályktun 687.

Nokkur fordæmi eru fyrir því að ekki hafi verið talið nauðsynlegt að leita til öryggisráðsins áður en valdi hefur verið beitt. Árið 1999 hófu ríki Atlantshafsbandalagsins árásir á Serbíu vegna ofsókna Slobodans Milosevics og Serbíustjórnar á hendur Kosovobúum. Markmið þeirra aðgerða var að koma Milosevic frá völdum. Málið hafði verið til umræðu í öryggisráðinu en ljóst þótti að Rússar myndu beita neitunarvaldi yrði tillaga borin upp í ráðinu. Því var fallið frá því að bera hana upp. Aðgerðirnar í Kosovo voru því ekki í umboði Sameinuðu þjóðanna.

Einnig má nefna þá ákvörðun ríkja í Vestur-Afríku, með Nígeríu í broddi fylkingar, að fara með herafla inn í Sierra Leone til að stöðva borgarastríðið sem þar geisaði á síðasta áratug. Þær aðgerðir hófust án afskipta Sameinuðu þjóðanna þótt þær hafi komið að málinu á síðari stigum.

Þá fóru Frakkar fyrir nokkrum mánuðum með herlið inn í Fílabeinsströndina til að stöðva átök stjórnarhersins og uppreisnarmanna. Sú hernaðaraðgerð Frakka var framkvæmd án þess að um hana væru greidd atkvæði í öryggisráðinu.

Þrátt fyrir þessi fordæmi hefur á síðastliðnum mánuðum verið lögð rík áhersla á að ná samstöðu innan öryggisráðsins. Þótt um tíma hafi verið talið að Bandaríkjastjórn myndi fara í stríð upp á eigin spýtur tók Bandaríkjastjórn ákvörðun síðastliðið haust um að fara með málið í gegnum öryggisráðið. Það var skynsamleg ákvörðun. Mjög skiptar skoðanir eru uppi í málinu og almenningsálitið í mörgum ríkjum er mjög andsnúið hvers konar hernaðaraðgerðum.

Þá má ekki gleyma þeirri viðkvæmu stöðu, sem Bandaríkjamenn eru í. Hernaðarlegir yfirburðir þeirra yfir aðrar þjóðir heims eru svo gífurlegir um þessar mundir, að þeir geta í raun gert það sem þeim sýnist. Þess vegna, ekki síst, er mikilvægt að aðgerðir þeirra byggist á víðtækri samstöðu meðal þjóða heims.

Það er slæmt að ekki náðist málamiðlun í deilunni í öryggisráðinu og augljóst að Frakkar bera þar mikla ábyrgð. Ekki er hægt að sjá, að sú afstaða þeirra að beita neitunarvaldi hvað sem á gengur byggist á málefnalegum rökum.

Um þetta mál hafa farið fram víðtækar og lýðræðislegar umræður á Vesturlöndum. Sjálfsagt hefur enginn vestrænn stjórnmálaleiðtogi lagt fram jafn sterk rök gegn stríði og Robin Cook, fyrrverandi utanríkisráðherra Breta, gerði í afsagnarræðu sinni í breska þinginu í gærkvöldi er hann sagði af sér ráðherraembætti í ríkisstjórn Blair.

Rök Bandaríkjastjórnar fyrir því að ráðast gegn einræðisherrum og kúgurum á borð við Saddam Hussein eru sterk en hin siðferðilegu álitamál, sem leita á lýðræðisþjóðir við þessar aðstæður eru líka veigamikil.

Þetta mál hefur veikt öryggisráðið og Sameinuðu þjóðirnar í heild. Það vekur einnig áleitnar spurningar um það kerfi að veita fimm útvöldum ríkjum neitunarvald í öllum málum. Skipan öryggisráðsins endurspeglar ákveðinn veruleika við lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Sá veruleiki er ekki lengur til staðar. Heimurinn hefur breyst. Þær breytingar er ekki hægt að rekja til Íraksdeilunnar. Hún hefur hins vegar dregið þær rækilega fram í dagsljósið og gæti leitt til þess að stokkað yrði upp í hinu alþjóðlega stofnanakerfi.