Sjálfstæðiskonurnar Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, Ásta Möller alþingismaður og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi ræddu um árangur Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum.
Sjálfstæðiskonurnar Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, Ásta Möller alþingismaður og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi ræddu um árangur Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum.
"ÍSLENDINGAR þurfa að ákveða, þann 10.

"ÍSLENDINGAR þurfa að ákveða, þann 10. maí, hvort þeir halda áfram á þeirri öruggu framfarabraut, sem þeir hafa verið á undanfarin ár," sagði Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra í ræðu á fundi sem konur í Sjálfstæðisflokknum héldu í Valhöll í gærkvöldi.

Um 50 gestir voru á fundinum. Sólveig ræddi m.a. um þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn fíkniefnum. Hún sagði að harðari refsingar við fíkniefnabrotum skiluðu nú góðum árangri í baráttunni. Einnig ræddi hún þann árangur sem hún sagði að náðst hefði í betri löggæslu, aðgerðum til að sporna við umferðarslysum og vernd fyrir þolendur ofbeldis. Í lokin kom hún að því hversu framarlega Ísland væri á mörgum sviðum á alþjóðlegan mælikvarða. Hún nefndi til að mynda að Ísland væri í 7. sæti af 174 löndum á lista SÞ yfir það hvar best var að búa árið 2001.

Ásta Möller alþingismaður tók til máls og ræddi um þann árangur sem hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði náð í efnahagsmálum. "Það er ekki til meiri móðgun fyrir sjálfstæðismenn en að segja að við höfum hækkað skatta. Við höfum nefnilega, þvert á móti, lækkað skatta," sagði Ásta. Lagði hún einnig áherslu á að verðbólga hefði lækkað stórlega síðan 1984. Hún sagði einnig að ef vinstri flokkarnir kæmust til valda yrði óreiða í efnahagsmálum landsins algjör.

Katrín Fjeldsted og Lára Margrét Ragnarsdóttir ræddu m.a. um velferðarmál, menntun, menningu og umhverfismál. Guðrún Inga Ingólfsdóttir ræddi svo m.a. um einkavæðingu ríkisfyrirtækja, en hún benti á að ríkið hefði selt 30 fyrirtæki frá árinu 1992.

Fundaherferð sjálfstæðiskvenna

Sjálfstæðiskonur eru nú á fundaherferð um landið sem hófst norðan heiða á bóndadag. "Við viljum sýna það að það eru mjög margar frambærilegar konur í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Við teljum okkur vera með skilaboð, ekki síst fyrir konur, sem við viljum koma á framfæri," sagði Sólveig. Hún bætti við að áhersla væri lögð á að kynna árangur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á þessu kjörtímabili og fjalla um þau málefni sem þeim finnst að skipti máli og eigi erindi við kjósendur. "Við teljum að Sjálfstæðisflokkurinn hafi náð mjög góðum árangri í ríkisstjórn. Við teljum að framtíðin sé björt," sagði Sólveig.