Kona mátar sóttvarnargrímu í lyfjaverslun í Hanoi. Mikið hefur dregið úr ferðalögum til Víetnams vegna faraldursins og sum lyf eru uppseld.
Kona mátar sóttvarnargrímu í lyfjaverslun í Hanoi. Mikið hefur dregið úr ferðalögum til Víetnams vegna faraldursins og sum lyf eru uppseld.
AÐ minnsta kosti níu manns hafa látist í lungnabólgufaraldrinum, sem nú geisar aðallega í Suðaustur-Asíu en hugsanlega eru fyrstu tilfellin komin upp í Evrópu. Hefur WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, varað við sjúkdómnum um allan heim.

AÐ minnsta kosti níu manns hafa látist í lungnabólgufaraldrinum, sem nú geisar aðallega í Suðaustur-Asíu en hugsanlega eru fyrstu tilfellin komin upp í Evrópu. Hefur WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, varað við sjúkdómnum um allan heim.

Vitað var um 500 sjúkdómstilfelli í gær en einkennin minna á inflúensu, hár hiti og þreyta, en auk þess veldur sjúkdómurinn bráðri sýkingu í öndunarfærum. Af þeim sökum er hann flokkaður sem afar skæð lungnabólga.

Í viðvörunum WHO síðastliðinn laugardag sagði, að sjúkdómurinn, sem er auðkenndur með skammstöfuninni "Sars", hefði komið upp í Kína, Hong Kong, Indónesíu, Singapore, Taílandi, Taívan, Víetnam og Kanada en auk þess eru heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi, Þýskalandi, Sviss og Slóveníu að kanna hvort sjö ferðamenn frá Suðaustur-Asíu séu haldnir honum.

Vegna faraldursins er mikill viðbúnaður hjá flugfélögum og í flughöfnum og alveg sérstaklega þegar um er að ræða flugvélar, sem koma frá Asíu.

Varað við skelfingu

Í gær var vitað um 83 tilfelli í Hong Kong og hafði þeim fjölgað um helming frá deginum áður. Yfirvöld fullyrtu þó, að engin ástæða væri til mikils ótta og sögðu, að ekkert benti til, að um eiginlegan faraldur væri að ræða. Í Singapore, Víetnam, Malasíu og víðar hafa verið skipaðar sérstakar nefndir til að fást við sjúkdóminn og eiga þær að stjórna aðgerðum til að kveða faraldurinn niður.

Innan WHO leikur grunur á, að um sé að ræða sama sjúkdóminn og kom upp í Guangdong-héraði í Kína í síðasta mánuði en þá veiktust 305 og fimm létust. Kínversk yfirvöld vilja þó ekki staðfesta það.

París. AFP.